Minni Vestur-Íslendinga | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Minni Vestur-Íslendinga

Fyrsta ljóðlína:Við leggjum niður þref og þjark
Höfundur:Einar H. Kvaran
bls.79–81
Bragarháttur:Sex línur (o tvíliður) fer- og þríkvætt:abaabb
Viðm.ártal:≈ 1875–1900
Tímasetning:1891

Skýringar

Ljóðið birtist fyrst í Lögbergi, 4. árgangi, 24. júní 1891.
1.
Nú leggjum niður þref og þjark,
er þreyttum áður vér,
og munum, eitt er allra mark,
þótt oft oss trufli marklaust hark:
að verða menn með mönnum hér
þars mæld oss leiðin er.
2.
Og er vér leiðum oss í hug
vor ævi hulin rök,
þá óskum, því sem eykur dug
og ást og vit og kempu-hug,
því gefi megin menning spök
og mannlífs glímutök.
3.
Hvern faðmi gæfan góðan mann,
er geymir feðra-mál
sem dýran, fagran fjársjóð þann
er fær hann aldrei borgaðan,
og ávallt ber í blíðri sál
hið besta’, er á það mál.
4.
Og heiðri krýnist sérhver sá
er sæmd vill þessa lands,
og frelsi þess og frama-þrá,
og framkvæmd skrifar hjartað á
og stefnir beint gegn fjanda-fans
á ferli’ ins vaska manns.
5.
Já, heiðri krýnist sérhver sá
í sveitum þessa lands
er horfir aldrei hnipinn á
né hálfu verki laumast frá,
í sigurkufli kærleikans
heyr kappleik sannleikans.
6.
Og leggi gæfan hönd um háls
á hverjum Íslending
er slyngur njóta sín vill sjálfs,
í sannleik verða’ og anda frjáls,
og helgust geyma heimsins þing
í hjarta’ og sannfæring.
7.
Já, blessi drottins styrkur stór
í striti, sorg og glaum
hvern dánumann of dröfn er fór,
hvern dreng, sem hér vill verða stór,
hvern svanna’, er ástar dreymir draum,
hvern dropa’ í lífsins straum.