Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Rímur af hvarfi og drukknan Eggerts Ólafssonar vicelögmanns árið 1768. Síðari ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af hvarfi og drukknan Eggerts Ólafssonar vicelögmanns árið 1768. Síðari ríma

Fyrsta ljóðlína:Annað sinn með efnin smá
bls.162–181
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Rímur
1.
Annað sinn með efnin smá
Austra ferjan renni,
eins og fyrri innt er frá
allt er það fyrir henni.
2.
Vildi næpu kyljukast
kula í mastursdúka,
mín er von í meiri hast
mundi hún áfram strjúka.
3.
En þar er ei að þenkja upp á,
þrýtur flest til bóta,
má nú ekki að munum sjá,
megi hún uppi fljóta.
4.
Set eg mér í sinnudal,
sem þeir hyggnu letra,
fár veit hverju fagna skal,
fátt er kyrru betra.
5.
Ekki er gott í andviðre
áralaust að róa,
falls er von af* fornu tré,
fúin vos ei gróa.
6.
En eg sé í annan stað,
aðgætt mun það líka,
hann, sem aldrei brúðar bað,
bauðst honum sjaldan píka.
7.
Upp á vinning óvissan
allir spila og tefla,
sá og aldrei sigur vann
sem ei stríð nam efla.
8.
Bót er ei að berja sér,
brjál er mér það lengur,
hún skal fara hvað sem sker,
hverninn sem það gengur.
9.
Búa fáir best við kjör
bragnar hér eg trúi,
hef eg ei á hættu fjör
hún þó aftur snúi.
10.
Kapp með forsjá kalla menn
kost í betra gildi,
en skiljist við það skynsemin,
skaði oft því fylgdi.
11.
Aðgæslan hjá þýðri þjóð
er þörf og ómissandi,
í öllum hlutum einkagóð,
eins á sjó og landi.
12.
Vildi maður frægðir fá,
og forðast margan voða,
upphaflega ætti sá
endirinn að skoða.
13.
Vér skulum láta oss vera kennt,
viti það menn og þekki,
oss hefur drottinn lífið lént
til láns en eignar ekki.
14.
Oft vill hindra hugsun þá
heimurinn illskufúsi;
vér eigum fyrir sál að sjá,
og sitjum í leiguhúsi.
15.
Skikkaði þessu skaparinn,
og skilmálana gerði,
skuli því stjórna skynsemin,
skaði svo enginn verði.
16.
Í sjálfræði setti manns
svo þess útréttingar,
sérhvað eitt til sjós og lands,
og sinnis tilhneigingar.
17.
Fríviljinn á forráð kvitt
um forléningar* slíkar,
herrann má vel heimta sitt,
honum þá sjálfum líkar.
18.
Því mér virðist svo til sanns
sem vor forlög, bræður,
standi öll í hendi hans
sem himni og jörðu ræður.
19.
Þú skalt líka þekkja, mann,
því er nú svo varið,
reikning af osa heimtar hann
hvurninn með er farið.
20.
Visku, lán og velfarer
veitti oss guð alleina,
enginn tók af sjálfum sér
sæmd eða prýði neina.
21.
Guði er ekki meir* um megn,
megi hans náð svo líka,
tyfta kong en tigna þegn
og taka frá auði ríka.
22.
Ef oss lætur englaher
umboðsráðum valda,
meðan hann vill, þá megum vér
metorðunum halda.
23.
En í umboðs útrétting
eigum stórt sjálfræði,
samt vill heimta sinn reikning,
sem þau léði gæði.
24.
Eins er þetta umboðshald,
oss hefur guð til setta,
vér megum hafa mikið vald,
mun hann þó sitt út rétta.
25.
Þegar hann skipar skulum vér
skilja við auð og völdin,
þá er eftir þyngst hvað er,
það eru reikningshöldin.
26.
Vor það jafnan vera á
vel umbúinn hagur,
að ei kvíða þurfum þá
þegar sá kemur dagur.
27.
Hafi þig drottinn sjálfur sett
svo sem á dauðans bakka,
og þér þaðan aftur létt,
áttu slíkt að þakka.
28.
Hans þó vildi höndin blíð
hér þig lengur spara,
ein sú kemur eflaust tíð,
áttu burt að fara.
29.
Hverninn eða hvar það sker, —
hver veit oss að segja?
Allir saman eigum vér,
einu sinni* að deyja.
30.
Nú vill ekki mansöng minn
mengið heyra lengur,
svo eg aftur söguna finn,
seint á hana gengur.

— — —

31.
Róms í höfnum Rögnis skeið
réði hvíldir taka,
þar sem lið á Látrum beið,
en lótsmann fór til baka.
32.
Vel svo dagmál voru þá,
vikum fimm þar lýkur,
einn sér lótsmann annan fá
inn til Keflavíkur.
33.
Renndu svo um reiðarhyl
ranga tíðum vargi,
er sú víkin innantil
undir Látrabjargi.
34.
Var nú þangað vika ein
vegur síldar kóra,
bæði löng og leið óhrein
Látraröstin stóra.
35.
Kappar sjá um kólguvað
kveikjast tekur alda
svo með lögum landi að
lýðir máttu halda.
36.
Lítt hreppandi lending var,
löðrið dreif á stafni,
Gissur stjakans gætti þar,
greindur að formanns nafni.
37.
Skikkaði sér þvi skiphaldsmann,
er skarpastur nam vera,
Jón Arason heitir hann,
hinir upp góssið bera,
38.* Orku veittu aðfarar,
alla hvöttu drengi,
minnisstæðir mönnum þar,
munu verða lengi.
39.
Öllum komu upp á land
óskemmdum varningi,
þokuðu svo á þurran sand
þóftu einhyrningi.
40.
Allir saman upp á frón
úr því volsi* fóru,
laugardagsins lýsti nón*,
loks þá búnir vóru.
41.
En frá hvirfli iljum að
allir rennvindandi,
gladdi veður, gott var það,
garpa í þurrum sandi.
42.
Þurkaði sig nú þegnaval,
við þægan* sunnanvindinn,
sveimar enn heim að Sauðlauksdal
Suðra löðurs* hindin.
43.
Lögmaður með önn og ys
og allt hans föruneyti
byrjaði þar búningsþys
sem best að öllu leyti.
44.
Á trinitatis drottinsdag*,
dýr sem til er vandi,
blessað messu birt var lag*
að Bæ á Rauðasandi.
45.
Reið allt þangað reisulið
og rækti helgar tíðir,
strax sem endar embættið,
afskeið tóku lýðir.
46.
Kirkjufólk með kærleik rétt
kveðjur grátið* þoldi,
fákar reyndu sporasprett,
og spörkuðu Ýmis holdi.
47.
Þoldi foldin* þunga reið,
þrátt úr brautum rýkur,
uns þeir koma um aftanskeið
inn til Keflavíkur.
48.
Þetta fólk var þrettán manns,
er þandi um grundir jóra,
þá var allur færður fans
á flæðardýrið stóra.
49.
Eftir liðna eina stund,
auraveitir glaður
til sín Ara kallar kund,
kenndur þrátt lögmaður.
50.
Mælti svo við málmatýr:
mars um breiðar grundir
flyttu hið minna flæðardýr
fyrir mig Jökul undir.
51.
Tólf með lömbum taktu ær
til þess flutnings bara,
af þegnaliði þrjá svo fær,
þeir skulu með þér fara.
52.
Tregur þeirri tók við bón,
og taldi á margt hið verra,
þó nam svara þessu Jón:
Þér skulu ráða, herra!
53.
Göfugt fólkið kveðju kaus,
koss og bænir framdi,
á ennispollum ekki fraus,
ástin hjartað kramdi.
54.
Lögmaður í sama svip,
samt hans frú og lýðir,
í óskum góðnm gekk á skip
greindar aftans tíðir.
55.
Lesið var og sungið sætt
soddan fólk úr landi,
að því fengi góður gætt
guð vor allsráðandi.
56.
Allir báðu einum róm
einn guð veginn greiða,
fyrir sinn hæsta helgidóm
hóp þann vel fram leiða.
57.
Hvoru tveggja undir eins
öldu knúðu vagna,
berhöfðaðir brjótar fleins
bænir góðar magna,
58.
Stillt var nú um storð og sjó,
straumur féll í röstum,
ofan af fjöllum fleygði þó
fram misvinda köstum.
59.
Engan þjáði angur rekk
út á geddu fróni,
alltíð betur áfram gekk
Arasyni Jóni.
60.
Sundaglansa gautur frí
gat sitt prófað stýri,
lítið mjög svo lét að þvi
langri á þorskamýri.
61.
Keipa reyna kólguvagns
karskir runnar skjalda,
varla nokkur var til gagns,
við ef þyrfti halda.
62.
Skatnar finna Skorarvog,
með skikkanlegum gangi,
lögðu þar til lands með tog,
lukkan sat í fangi.
63.
Hinir á eftir höfðu rás,
hittust þar svo lýðir,
í þann sama selabás
seggir koma fríðir.
64.
Kallar Jón með hasti hátt,
hvað til gera skyldi,
og afsagði þvert og þrátt,
þann útbúning vildi.
65.
Kvaðst ei mundi koma úr stað
kólgu þaðan dýri,
fyr en væri forbetrað
farviður og stýri.
66.
Lögmaður með ljúflegt svar*
lofun jók einarða,
allt nú skyldi upprétt þar
um sem þætti varða.
67.
Fór nú sjálfur fyrst á land
með frú kærustu sinni,
færðu menn upp festarband,
því flaut á vognum inni.
68.
Fólkið það, sem fyrir var,
fagnaði komumengi,
nýtar bættu nauðsynjar,
nú stóð það ei lengi.
69.
Var þar engin byggð né bær,
svo bragnar líta kynni,
utan búðir einar tvær
og í þeim fólkið inni.
70.
Af tveimur skipum svo að sjá
sem til ræðis væri,
greiðugt vel með föngin fá,
og fínt, ef nauð til bæri.
71.
Skundar fólkið skipa til,
skaði þjáði enginn,
sást um þetta sama bil,
sól að* ægi gengin.
72.
Jón til loftsins lítur þá,
litla skips formaður,
uppgangsveður er að sjá,
orð þau mælti hraður.
73.
Gætilegra greinir sé
á góðri höfn að bíða
heldur en út á hafgrunne
harðari kosti líða.
74.
Lögmaður, sem lýsir rit,
lét til svar að bragði:
„Þú hefur ei betur hér á vit,
heldur en við“, hann sagði.
75.
Óviljugur ýta hlaut
út á bæinn þara,
samt hin mesta* þótti þraut
þaðan í burtu fara.
76.
Hinir á eftir strax á stað
stefndu áratjóni,
eins og fyrri enn var það,
allt gekk betur Jóni.
77.
Austur halda Háskor með
hálfa sjávarviku,
svo uppreistu siglutréð,
söng í mastursfliku.
78.
Helming vegar hinir þá
hartnær eftir vóru,
strax, er þeirra seglin sjá,
sín upp vinda fóru.
79.
Masturs hófu tröfin tvenn,
til svo búið fengu,
rárnar tvær og seglin senn
saman á víxl þá gengu.
80.
*Síðan efst við húninn há
hart upp seglin keyra,
niður í mitt tréð náði þá,
eða nokkuð lítið meira.
81.
Síðan báðir sigla þeir,
segir af Jóni fleira,
veðrið tók að vaxa meir,
vildi úr hófi keyra.*
82.
Þegar viku sjós að sjá
siglt vel höfðu eina
sitt lét falla seglið þá
sagður lundur fleina.
83.
Þriðjung eyktar þar svo beið,
þegnar andóf* taka,
hugðu að sjá, hvað hinum leið
helmingsleið til baka.
84.
En þeir sigla eins og fyr
og aldrei saman klóa,
norðaustlægur bar þá byr
brátt* í vesturflóa.
85.
Svo í hasti sundur bar,
sig því veðrið hvatti,
samt óhindrað seglið var,
suður og vestur flatti.
86.
Síðan bindur segl við hún
sonurinn Ara þarfi
skutröng á, um skerjatún*
skundaði Fornjótsarfi.
87.
Fjalir löðrið fægjandi,
féll á súðum logi,
hlunnavargur hlæjandi
hljóp að Skorarvogi.
88.
Hittu rekkar hæga þar
höfn í þriðja sinni,
miðjum nærri morgni var,
mánudag eg inni.
89.
En þegar höfðu hálfa leið
hartnær ent til baka,
sagt er hinna sigling greið
sást við hafið vaka.
90.
Hefur þá enginn síðan séð
sjós eða fróns um grundir,
ei mun hafa* Ísland skeð
annað slikt um stundir.
91.
Margur að sönnu missti* fjör
mars um djúpar* tjarnir,
samt hafa þau ei setið kjör
sjálfir höfðingjarnir.
92.
Eru þó* dæmin allra síst
íss um byggða ranna,
að konurnar hafi kólgan hýst
kenndra tignarmanna.
93.* Þó sjórinn þeirra sækti lík,
sálin friðland hefur,
lifandi drottins líknin rík
líf fyrir dauða gefur.
94.
Friðarhæða góður guð
græði neyð og kvíða,
gleði í mæðu, greið fögnuð
geði þjáðu lýða.
95.
Þröstur óma þreyttur* minn
þangað aftur skundar,
þar sem viku í voginn inn
víðismána kundar.
96.
Yfrið langa eftirsjón
umsiglingar hafa,
þvi hafskipin um höfrungsfrón*
helst eru* þá til vafa.
97.
Skekur frónið skýjatröll,
skurka í fjöllum hviður,
löðrið rauk sem lausamjöll,
lúraðist foldin viður.
98.
Trumuðu elfur Týrs um fljóð,
titraði í skógi spýta,
allt umhverfis Ýmis blóð
eldrautt var að líta.
99.
Þáðu rekkar þæga ró,
þar við kviknar hagur,
sama veður þuldi þó,
þraut svo mánudagur.
100.
Þegnar strax um þetta bil
þar upp standa náðu,
engan kostinn áttu til,
að því loks nú gáðu.
101.
Þótti vandi vaxa stór,
ef veginn seint á hlypi
af því matur allur fór
á því stóra skipi.
102.
Sendi þá í Sauðlauksdal
sagður Jón formaður,
fékk til þess einn fljótan hal,
í ferðum var sá hraður.
103.
Nóg til baka nesti bar,
nauðsyn bætti sanna,
áfram þessi vegur var
vel hálf leið þingmann.
104.
Þessi tími þar fram leið
þriðjudags að kveldi*,
stöðvuð öll var stormaneyð,
stilt var skýjaveldi.
105.
Síðan eftir sólarlag
sig til búið fengu,
byrinn stóð þá best í hag,
bragnar skips til gengu.
106.
Setja að ægi súðahest,
síðan grjót í bera,
ærnar tólf og föngin flest,
fylg sem þurftu að vera.
107.
Ýtar stefna otri* Hlés
austur þá með landi,
svo kom undir Siglunes,
svalaði norðan andi.
108.
Himinrósin hýr og skær
hálfnuðum morgni lýsti,
birtan sú var brögnum kær,
byrinn seglið fýsti.
109.
Lögðu síðar [lundar hlés*
ljóst á flóann breiða,
[vindi fagnar voðin trés*,
vænum söng í reiða.
110.
Fór nú þanninn fram um stund,
frekaðist stormahviða,
herti gang um síldarsund
á súða veturliða.
111.
Hræsvelgur sig hristi frekt,
hrönnin ýfast tekur,
börnin ránar byrja óspekt,
byrinn hvass þau vekur.
112.
[Gyðjan ránar* stykkjastór
strauk um þorskaveldi,
Fornjótsson um síldarkór
söng í* mastursfeldi.
113.
Blóðughadda beljar hátt,
bauðst að gleypa þegna,
en guðs þeim hlífði gæskan þrátt,
hún gat það ei þess vegna.
114.
Ótal boða ótæpt* svall
Íslands ferðabátum,
allt í kringum skipið skall
með skelfingar ólátum.
115.
Oft fyrir minna á geddugeim
gerðist margur taptur,
ekkert hlífði annað þeim
en einsamall guðs kraftur.
116.
Vindur og rán um flyðrufjós
flæðarvagni óku,
uns þeir renndu Rifs í ós,
rekkar höfn þar tóku.
117.
Sólin blíða sást nú enn,
sig hún faldi eigi,
var þá komið, vitna menn,
varla svo hádegi.*
18.
Tólf nú vikur telja þeir
á tveimur eyktum gengi,
en það reyndist miklu meir,
ef mælt það nokkur fengi.
119.
Vegalengd, ef verð eg tjá,
víst mun harður skóli,
eg vil segja í eining frá
undan Ingjaldshóli.
120.
Örnefnin því eru flest
áður greind í kvæði,
því mér ekki þörf gerest
þar um fleira ræði.
121.
Vestur að sandi Sauðlauksdals,
saman menn það bera,
vikur munu tíu tals
tvisvar sinnum vera.
122.
Engin rykt* í annál spyr
[Íslands hér um* reita,
að óneyddir engir fyr
eins hafi gert að breyta.
123.
Svo er úti að segja frá
soddan ferðatóni*,
æfintýrið eigna má
Arasyni Jóni.
124.
Í hafróti heimsins hér,
helst með gætni dýra,
allir saman eigum vér
einu skipi stýra.
125.
Vort er það að vlsu líf,
sem vandi er með að fara,
mótgangsaldan mörg ósvíf*
mjög vill því um snara.
126.
Vér eigum að því vel að gá,
voði* svo enginn grandi,
[þitt oss verndarvald tak á*,
vor guð allsráðandi.
127.
Þó yfir oss mótgangs drífi dröfn
drottinn raunir mýki,
og gefi oss sæla að hitta höfn
hans í dýrðarriki.
128.
Áform, ráð og efnin vönd,
anda og lífsins mæti
fel eg vor í herrans hönd,
hann best að oss gæti.
129.
Óbreytt standi orðalag,
óðurinn falli stirði,
hann, sem les og heyrir brag,
helst til góða virði.
130*. Ár, ís höggvinn, önnungsstím,
aukin* Sleipnis ganga
flutti óð, þar fellur hrím
Fjörgynjar á vanga.
131.
Eg sendi af hendi Viðris* vín,
vindist, hrindist kviður*,
endist kennda mærðin mÍn,
mynduð bindist niður.


Athugagreinar

5.3 af] svo C. að A og B.
17.2 forléningar] forlengingar C.
21.1 meir] svo B og C. mjög A.
29.3 einu sinni] einhvern tíma B.
38.
Erindi þetta vantar í A og B, er aðeins í C.
40.2 volsi] vosi C.
40.3 þ. e. laugardaginn 28. maí.
42.2 þægan] þurran C.
42.4 löðurs] lasin C.
44.1 þ. e. 29. maí.
44.3 svo A og B. Byrjað messu beint var lag C.
46.2 grátið] grátnar B og C.
47.1 foldin] fólkið C.
66.1 ljúflegt svar] ljúft andsvar B og C.
71.4 að ægi] Svo bæði B og C en „í ægi“ A en á líklega að vera „úr ægi gengin“ (þ. e. um sólaruppkomu, mánudagsmorgun 30 maí)
75.3 mesta] Svo í C, versta B. Erindið vantar í A.
80.
Þetta erindi vantar í A og B, er aðeins í C.
81.
Svo A og B, vænum söng í reiða C.
83.
3. andóf] andþóf C.
84.
4. brátt] beint C.
86.
3. skerjatún] svo B og C, skerjungstún A.
90.
3. [ei mun hafa] ekki hefur nú B.
91.
1. missti] missir C.
91.
2. djúpar] breiðar C.
92.1 þó] þau  C.
93.
erindi vantar í A.
95.
1. þreyttur] þrýtur B.
96.
3. höfrungsfrón] flyðrufrón C.
96.4 helst eru] flest eru C.
104.2. Þ.e. 31. maí.
107.1. otri] svo B og C, otrar A.
109.1. lundar hlés] landi frá C.
109.3. vindi fagnar voðin trés] veðrið tók að versna þá C.
112.1. Gyðjan ránar] svo C, Gyðjan mars A og B.
112.4 í] um C.
114.1. ótæpt] svo C, ófært A og B.
117.4. þ. e. miðvikudaginn 1. júní, og höfðu þeir þá verið hálfan mánuð í förinni.
122.1. rykt] slíkt B og C.
122.2. Íslands hér um] íss um byggðar C.
123.2. ferðatóni] ferðatjóni C.
125.3. ósvíf] og stíf C.
126.2. voði] svo B og C, verði A.
126.3. þitt oss verndarvald tak á] vítt sem oss nam vald til ljá B og C.
130 Í þessu erindi hefur höfundur fólgið nafn sitt: Arne (Þorkelsson).
130.2. aukin] áköf B og C.
131.1. Viðris] vignis B og C.
131.2. kviður] kliður C.