Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Gyðingurinn gangandi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gyðingurinn gangandi

Fyrsta ljóðlína:Hinn gamla gyðing sá ég þó um síðir
bls.521
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbb
Viðm.ártal:≈ 1900

Skýringar

Birtist upphaflega í Eimreiðinni, 17. árg. 1. tbl. 1911, bls. 18–19.
1.
Hinn gamla gyðing sá ég þó um síðir —
hinn sögum kunna fáránlega hal,
en ekki þann, sem alla hluti níðir
og öllu blótar, jörð og himinsal
og þrengir lýðum þennan táradal.
2.
Að kvöldi dags um haustið hér um árið
ég hvíldi mig á fögrum berjamó
er ekran bergði aftan-dagga tárið
og út við sandinn báran reis og dó,
og minti’ á lífsins völtu værð og ró.
3.
Mín hugsun var að öllu og engu dregin
en undarlega margt þó fyrir brá
er lá ég hugsi, horfði niðrá veginn
og hálfur milli svefns og vöku lá
– þá allt í einu skrítna sýn ég sá.
4.
Mér sýndist móts við sendinn skógarbakka
ég sæi þetta tímans reka-flak
á vöxt sem tröll, með bogið bak og hnakka,
sem barinn saman eftir þrotlaust hrak,
en ramlegur þó sem gamalt Grettistak.
5.
Á brautinni var bil á milli eika,
það byrgði þessi risavaxni kall;
á brám hans sá ég skapaskugga reika
sem skrifað stæði: Adams syndafall,
er yfir foldu refsi-skruggan skall.
6.
Og enn þá lýstu augun þessu stríði
er eitt sinn var í sálu mannsins lagt
af valdi því sem angrar alla lýði
þótt allt í byrjun heilagt væri sagt,
– lífsins og dauðans mikla kynjamakt.
7.
En silfurskeggið kiptist við á kalli
sem kæmi glott á þulsins skorpnu vör
og glettni hló und gömlum brúnastalli
sem grilli í dag á bak við fjallsins skör,
og kveiki von um vor og kraft og fjör.
8.
Og gamla limi tók nú kall að teygja
og tröllið ennþá nær að flytja sig.
Ég hræddist fyrst, en samt mér varð að segja:
„Hvort sér þú nokkuð, er má gleðja þig,
sem þjáður fetar fyrirdæmdra stig?“
9.
Hann glotti’ og segir: „Hart var sorgasviðið
en sorgin þvarr því meir sem áfram leið
og svo er talsvert tímans skeið var liðið,
ég tók að hjarna, sigra flesta neyð,
sem hetja vil ég enda æviskeið.“
10.
„Í sálu mína hefur angi hrotið
af hláturkennd er vekur innra spott;
þar efra hygg ég eitthvað veilt og brotið
við Alveldisins gamla réttarþvott;
mér virðast rökin rugluð, illt og gott.“
11.
„Einum er sorgin, öðrum gleðin gefin,
sem gæðum lífsins réði kenjótt barn –
sem einhver limur læðist inn í vefinn
og lokaþráðum blandi hvers manns garn;
einn verður helgur, annar klækja skarn.“
12.
„Veraldarstjórnin stefnir, finnst mér, öfugt
og stýrir krókótt lífsins auðnubát.
Ég hlæ að því, sem hátt er nefnt og göfugt
og hata tímans visku, raup og stát.
Hvað er að gráta heimsku, flan og fát?“ —
13.
Og karlinn fór; ég horfði lengi á hnakkann
og heyrði, hann stundum ræskti sig og hló
og loksins hvarf hann allur bak við bakkann
er blessuð sólin hneig með spekt og ró,
en út við sandinn aldan reis og dó.