Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Á Stiklastöðum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Á Stiklastöðum

Fyrsta ljóðlína:Og ósigurvænleg var Ólafs kóngs hirð
bls.447–453
Bragarháttur:Sex línur (þríliður+) fer- og þríkvætt aBaBCC
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1903

Skýringar

Kvæði þetta birtist fyrst í tímaritinu Heimskringlu 24. desember 1903. Hefur Stefán síðan gert á því allnokkrar orðalagsbreytingar sem raktar eru í útgáfu Þorkels Jóhannessonar að Ritsafni Stefáns (Sjá Athugasemdir við Andvökur I.–IV. bindi, bls. 393–394. Hér er útgáfu Þorkels fylgt athugasemdalaust enda má ætla að það sé endanleg gerð kvæðisins frá hendi Stefáns.
1.
Og ósigurvænleg var Ólafs kóngs hirð,
og ógæfumorgninum kveið hún,
er uppgefin, höggdofa, úrvinda, stirð,
Með ófarar grunsemi beið hún
í kirkjunni á Stiklastöðum,
sem stormdreif í beðjum og röðum

2.
Og konungur vakti og varð ekki rótt,
ill *vá fyrir dyrum hann bagar;
Og nú gátu áfjáðast að honum sótt
hans útrunnu hásætis dagar
hjá lýðnum til landráða neydda,
í landinu kristnaða en eydda.

3.
Og reimleikur ásótti hrollvísan hug
því heiðingja vofur þar slæddust
sem líflátin hefðu ekki drepið úr dug
úr dauðum sem guð hans ei hræddust.
Nú bentu frá báli og voða
öll blóðvitni feðranna goða.
4.
Og slysið með Erling – að óvart hann dó –
í öllu svo hamingjudrjúgan!
Því var það ei ólán að aulinn hann hjó
svo Ólafur fékk ekki að kúga hann?
Með fólknárung fólkið er bundið,
með falli hans einstakling hrundið.

5.
Og krossmarkið brást eins og Þórshamar – því
í þrautum gat skjátlað til halla.
Og Valhöll og Paradís inngangan í
var álík, að berjast og falla.
Gegn Kristi þó randir ei reisti,
var rammdrægt við Ása-Þórs hreysti.

6.
En honum jók djörfung að dómþingi hjörs
að drottinhollt trúnaðinn kenndi hann.
Hann gladdist við reykina um Valdres og Vörs
er varnarlaus heimili brenndi hann.
Til einveldis ei var þá stjórnað,
á altari Guðs var þeim fórnað.

7.
En nú gekk hann varkárt að viðreisn síns máls
og vægði það til sem hann kunni,
en þó skyldi um sakir þær sorfið til stáls.
Það sást þá hvers Guð honum unni.
En sendi hann sigur til valda
þess sárt skyldi Noregur gjalda.

II

8.
Og loksins var hálfliðin hánóttin löng
með hugrauna minningum þungu.
Og Ólafur hóf þá inn heilaga söng,
það hjálpráð, á erlenda tungu.
– Hann seiðrúna söngvana brenndi,
en „saltarann“ lærði og kenndi.

9.
Hans sveit hafði áður við afdrifum hryllt
á atför er dagurinn risi,
en varð nú við konungsins bænasöng bilt
sem beygur sá rættist með slysi.
Nú fannst inu felmtraða mengi
sem feigðin um tóna þá gengi.

10.
Sem óp inní leyningi altarishólfs,
sem andvarpan djúp þóttu vera
hans stynjandi „Avi“ við grafhellur gólfs
og grátbólgna „Miserera“.
Og mönnum fannst máttur sinn smækka
og moldin í gröf sinni hækka.

III

11.
Í varðmannahringnum sat Þormóður þar,
en þögull – í vökunni heima
á íslenskum stöðvum. Í værðinni var
um vísur og Kolbrún að dreyma.
Við hana sín kærustu kvæði
hann kenndi og slysin sín bæði.

12.
Og fullkeypt var senn orðin sagan hans – því
í sekt snerust ljóð hans og fremdir:
tóm hörkubrögð vaxandi ófærum í,
ný áföll og torreknar hefndir,
og útlægar ástir að baki –
þó yfir að morgninum taki.

13.
Hann furðaði lítt er hann leit þennan her
sem lá þar við ósigri búinn:
þó þeim verði óhægt, sem einliða fer,
að etja til þrautar við múginn.
Úr sekt er ei sárt-binda máttu
nú samleið þeir konungur áttu.

IV

14.
En Ólaf þraut sönginn og sálmana fyrr
en sólarroð dimmunni hnekkti.
Hann hræddist þann kyrrþey – hann kallar og spyr:
ef Kolbrúnarskáldið sitt vekti!
„Svo ljóði það lið vort á fætur
og liðki úr herfjötrum nætur.“

15.
En upp stóð hann Þormóður. Á hann það beit
þá ofrausn sér vís-talda hreppa
að dirfa til helfarar syfjaða sveit,
við Sighvatar ljóðfrægð að keppa,
sem ríkti frá Sóla að Rómi
á rímuðum stuðlanna hljómi.

16.
Þau festust á Íslandi, ljóðin og lag
sem landflótta úr Danmörku gjörðust,
en Bjarki kvað Hleiðru þann hólmgöngu dag
sem Hrólfur og kapparnir vörðust.
Sá fann það, sem fékk þau að heyra,
að fall var þar sigrinum meira.

17.
Og dagurinn hóf sig við þjóðsönginn þann
hans Þormóðs – og snjallt var sá kveðinn.
Hver hugur þar inni tók undir við hann,
hver eggjan söng bergmál í geðin,
við bita og bríkurnar skornu
er Bjarkamál þutu hin fornu.

18.
En klið þann – þó hljómarnir fleyttu sér fjær –
sló fjölraddað bergmálið hring um,
sem rambönd og þiljurnar þokuðust nær
og þyrptust hann syngjandi kringum.
Úr kórstaf hann söngraddir seiddi,
um súðina viðkvæði leiddi.

19.
Og hljómar þeir lengdust og hækkuðu æ
– hver hending rann fram undir vopnum –
þeir flutu um gluggana, flóðu um bæ,
þeir flykktust úr dyrunum opnum,
þeir gengu sem gengu sem gnýr yfir tjöldin
og gullu við sverðið og skjöldinn.

20.
Og loksins kvað herhvöt sú hermóð í lýð
með hreimmiklum stuðlum og þéttum.
Þau stigu mót dögun upp hæðir og hlíð,
þau hopuðu á ásum og klettum,
þau titruðu um dali og drögin
þau dróttkveðnu Norðmanna slögin.

V

21.
En orustubúið stóð Ólafs kóngs lið
til áhlaups við foringjans bending.
Því kóngsmanna röskleikinn raknaði við
og reis nú við sérhverja hending –
þeir kváðu, við ósigra alla
þá aldregi vinnast sem falla.

22.
En konungur Þormóði gullhring sinn gaf,
og gjöfin og þágan var frami –
þó veldi og hamingju hallaði af
var höfðingjabragurinn sami.
Og hnossið var sæmdina að hljóta,
en hlutlaust hve langt yrði að njóta.

23.
Því Ólafur fann það og allir hans menn
– og undu nú hag sínum betur –
af konungdóm þeim var hann óhrakinn enn,
sem íþrótt og snilldina metur,
og hræðsla fór hrakför að bjóða
út hamingju Þormóðs til ljóða.

24.
Um leikslokin veistu og endi þess alls –
mót ósigri vísum og skæðum
var gengið í berhögg og barist til falls,
menn brugðust ei Þormóðar kvæðum –
að helgur varð harðstjórinn veginn,
því hneisan féll landráða-megin.

25.
En það hafa í útlöndum íslenskir menn
af afdrifum Þormóðs að segja
– og staddir í mannraun þeir minnast þess enn –:
Um meiðslin sín kunni hann að þegja,
að örina úr undinni dró hann
og orti, og brosandi dó hann.