Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Máninn og bróðir hans | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Máninn og bróðir hans

Fyrsta ljóðlína:Áfram þú líður um ískaldan geim
Höfundur:Páll Ólafsson
bls.35
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fer- og þríkvætt aabbO
Viðm.ártal:≈ 1875
Áfram þú líður um ískaldan geim,
enginn þér býður til gistingar heim.
Tjöld fyrir glugga’ eru fljótlega fest,
flesta menn stuggar við þvílíkum gest,
– hurðum er harðlega lokað.

Mörgum þú lýsir, er mest liggur við,
margur nær hýsing og finnur svo grið
lífinu bæði og limunum á,
en lofgerðarkvæði þér engan ég sá
flytja né fylgdina þakka.

Þú lítur skærustum augum á allt,
sem alls ekki bærist, er dáið og kalt,
á fannir og hafís og helkaldan ná
og harðfrosnar grafir, sem snjórinn leggst á.
Þar er sem þú eigir heima.

Einn veit eg kaldari’ og öflugri þér,
ekkert sem tjald eða járnloka ver.
Í konunga höllum og hreysunum smá
hnykkir við öllum, er gesturinn sá;
ber eða guðar á gluggann.

Lúna og deyjandi leiðir hann heim,
léttir þeim veginn, en enginn af þeim
er honum þakklátur þann fyrir spöl,
þegar þeir smakka ’ið banvæna öl
dauðans og faðmlögin föstu.

Oft ykkur samferða sá ég um nótt,
í svartnætti’ og skammdegi læddust þið fljótt.
Hann fór í skuggann og hendinni brá,
þá hlóstu’ inn um gluggann að fölnuðum ná.
Þá sá ég þið voruð bræður.