Kveðja | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kveðja

Fyrsta ljóðlína:Vindur blæs og voðir fyllir breiðar
Höfundur:Jón Thoroddsen
bls.2
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1850
1.
Vindur blæs og voðir fyllir breiðar,
verpur skipi ströndum ísa frá;
fagrar hverfa fósturjarðar heiðar,
fjallatindar þvo í köldum sjá
enni hvít. En einn á þiljum grætur
ungur sveinn, er feðra kveður láð;
ekki veit, hvort afturkomu lætur
auðið honum verða drottins náð.
2.
Ó, eg minnist, ættarjörðin fríða,
á svo margt, er lengi mun eg þrá;
man eg svana-sönginn, engilblíða
silfurhvítum hljóma tjörnum á;
man eg dal í daggarfeldi bláum,
dags er roði fagur gyllir tind;
man eg brekku, blómum prýdda smáum,
brattan foss og kaldavermslulind.
3.
Aldrei gleymi eg þeim sælutíma,
úti stóð eg vordagskvöldin hlý,
vetrarfötum frá sér kastar gríma,
færist hvítan sumarskrúða í;
vindar þegja, værðir blómin taka;
viðar til er hnigin sunna rauð,
fuglar sofna, fossar einir vaka,
fyrir sandi heyrist bárugnauð.
4.
Vertu sæl, ó, vertu blessuð, móðir!
veit eg nú hve sár þinn missir er.
Sonum þínum sendir kveðju bróðir,
sé þeim jafnan helgust ást á þér!
Frægðarsunna fögur hér upp renni,
fyr sem skein á víðigræna hlíð,
engan myrkva megi sjá á henni,
meðan dunar sær og lifir tíð.