Við verkalok | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Við verkalok

Fyrsta ljóðlína:Er sólskins hlíðar sveipast aftanskugga
bls.303–304
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimm- og tvíkvætt OaOaObOb
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1883
Við verkalok
1.
Er sólskins hlíðar sveipast aftanskugga
um sumarkvöld
og máninn hengir hátt í greinar trjánna
sinn hálfa skjöld,
er kveldkul andsvalt aftur kæla tekur
mitt enni sveitt
og eftir dagsverk friðnum nætur fagnar
hvert fjörmagn þreytt –
2.
Er úti á grundum hringja bjöllur hjarða,
nú hljótt, svo glöggt
og kveldljóð fugls í skógnum einstakt ómar
og angurklökkt,
og golan virðist tæpta á hálfri hending
er hæst hún hvín,
og hlátur barna, er leika sér við lækinn,
berst ljúft til mín –
3.
En eins og tunglskins blettir akrar blika
við blárri grund
og ljósgrá móða leitin bakkafyllir
og lægð og sund,
og neðst í austri gylltar stjörnur glitra
í gegnum skóg:
Þá sit ég úti undir húsagafli
í aftanró.
4.
Því hjarta mitt er fullt af hvíld og fögnuð,
af frið mín sál.
Þá finnst mér aðeins yndi, blíða, fegurð
sé alheims mál –
að allir hlutir biðji bænum mínum
og blessi mig –
við nætur gæskuhjartað jörð og himinn
að hvíli sig.
5.
En þegar hinst er allur dagur úti
og upp gerð skil,
og hvað sem kaupið veröld kann að virða,
sem vann ég til:
Í slíkri ró ég kysi mér að kveða
eins klökkan brag,
og rétta heimi að síðstu sáttarhendi
um sólarlag.