Fljótsdalshérað | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fljótsdalshérað

Fyrsta ljóðlína:Fljótsdalshérað friðarblíða
bls.121–123
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AbAbccDD
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900
Flokkur:Náttúruljóð

Skýringar

Ort árið 1900
1.
Fljótsdalshérað friðarblíða,
fyrsta sinn ég heilsa þér!
blessuð Lagar-byggðin fríða
blasir við sem fagni mér!
> Hátt ég stend á heiðarbrún,
> horfi á grund og slegin tún.
Guð’ sé lof, sem gleðistundu
gaf mér enn á fósturgrundu.
2.
Eftir dapra hrjósturheiði
hlær mér sveit og glaðasól,
það er sem frá lágu leiði
lyftist sál að herrans stól.
> Mikla sjón! En samt ég spyr:
> Sá ég aldrei þetta fyr?
– gegnum erfðir eldri manna
eða töfra vitundanna?
3.
Sama fannst mér fljúga í huga
fyrsta sinn, ég Þingvöll sá;
láð og hraun og lagarbuga
líkt og kunnugt starði ég á.
> Fyrsta sinn, ég set hér fót,
> silfurskæra Lagarfljót,
oftar þó en þessu sinni
þig ég sé í vitund minni!
4.
Burt með drauma! Vaka, vaka
vil ég þessa fögru stund.
Hér er auður af að taka,
andans rauðagull í mund.
> Sjáið, augu , sjónarhring,
> sveitaraðir allt í kring,
Lagar- streyma blóðið bjarta
beint frá landsins móðurhjarta!,
5.
Snæfell skín í suðri sælu:
silfri krýnda héraðsdís!
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís!
> Heilsa bað þér bróðir svás,
> Bárður hvíti Snæfellsás!
Hann á vestra hrós og lotning,
hér ert þú hin ríka drottning.
6.
Yst í vestri, efst á leiðum
eygja má í fjarri sýn
þá sem ofar öllum heiðum
ávallt teygir bæksli sín:
> Hvar er byggð þín, Herðubreið?
> „Hverju voru goðin reið?“
Þú ert hér og þar að sveima,
þú átt, finnst mér, hvergi heima.
7.
Þá er annað þar í norður:
þussablendnu Smjörvatnsfjöll!
Þar eru færð í fastar skorður
fjölkunnug og heiðin tröll;
> reyrð við klaka-kjálkaskjól,
> kveðin niður móti sól,
skírð að Gvendar góða boðum,
ganga enn í hvítavoðum.
8.
Velli, Skriðdal, Skóga fríða,
skoðar sjón mín allt í senn;
Fellin inn til Fljótsdalshlíða,
fleira, meira sé ég enn.
> Þingin hin að hamrasal,
> Hróarstungu, Jökuldal
kann ég ei að sjá og sýna,
senda vil þó kveðju mína.
9.
Þúsund ára byggðin blíða,
broshýr varstu þá á kinn
þegar ástaraugu lýða
á þig störðu fyrsta sinn:
>fagurlima skærast skrúð
> skrýddi þig sem lífsins brúð. –
Hvar er hrís í hefndarvöndinn?
Heimska, ferðu svo með löndin? –
10.
Ráði meira vötn og veður
viti manns og frjálsri dáð,
veistu, maður, víst hvað skeður:
visnar, skrælnar þjóð sem láð.
> Heyrið, vösku Héraðsmenn,
> hér má sjá þess dæmin enn:
öflinn eiga allt að að gera,
en þau mega ei sjálfráð vera.
11.
Uxu þessir þéttu bæir
þúsund árin nokkra spönn?
eða þróast þjóðarhagir
þó ei skorti strit né önn?
> Inn þú frá og seg til sanns,
> sveitaprýðin þessa lands:
Hvað má leysa lýða dróma,
lífga forna dáð og sóma?
12.
Landið allt, vér vitum, vitum,
vantar nýja þjóðmenning;
ekki er nóg við stritum, stritum;
stefnum nýja sjónhending!
> ræktum saman léleg lönd,
> lærum, menntum sál og hönd;
víkja hlýtur vanans blekking,
vaxa hlýtur táp og þekking.
13.
Býlin strjál og borgir öngvar
bjóða gesti hér að sjá,
knappt um skóla, kirkjur þröngvar,
kjarrið visið, engin smá.
> Og þú fljót sem flýtur dautt,
> fiskilaust og skipasnautt!
Hlýðið til því sönn er saga. –
Samt vér eygjum betri daga!
14.
Býlin fríkka, flytja saman,
færast út hin grænu tún,
skólar nýja skapa framann,
skógar teygjast upp að brún;
> og þú mikla, fagra fljót,
> fyllir lífi hal og snót. –
Þá mun heill og hagsæld drottna
Héraðssandi frá til botna.
– – –
14.
Hafi sál mín fyrri fengið,
Fljótsdalshérað, þig að sjá,
oft mér verður aftur gengið
eflaust þessar hæðir á.
> Hér við þessa heiðarbrún
> hugur minn sér girðir tún.
Nærri þessum verð ég vegi; –
vegfarandi, hræðst þú eigi!
15.
Ei við þokur, húm né hríðir,
hugsa ég til að slæðast hér,
en er grænkar grund og hlíðir
geng ég út að skemmta mér.
> Meðan blessuð sumarsól
> signir gullinn Snæfellsstól,
þá er ég að verja völlinn,
vekja fólkið, berja tröllin.
16.
Blessan yfir byggðir þessar!
Blessan yfir Lagarfljót!
Allt, sem lífgar, bætir, blessar,
blessa ég af hjartans rót. –
> Veg minn, sýn mér, Herra hár,
> Hérað eftir þúsund ár,
vek mig þetta land að lofa; –
lengur þarf ég vart að sofa! –