Hefnd Hallgerðar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hefnd Hallgerðar

Fyrsta ljóðlína:Yfir hugum hefndin grúfði
bls.26–28
Viðm.ártal:≈ 1925–1950
1.
Yfir hugum hefndin grúfði
heljarörn með fangið breitt.
Undabikar ilmi blandinn
einn fékk dýra svölun veitt.
Skugga böls af björtu stáli
blóðið þvoði rautt og heitt.
2.
Kona má ei vopnum vega,
vakni heift við svik og tál.
Aldrei felldu feigðarefndir
friðardögg í hennar sál.
Aldrei söng í svanna mundum
sverðið beitt við hugans stál.
3.
Hjarta ungrar höfðingsdóttur
hreyfðist ört við sverðagný,
þungir straumar þungra skapa
þutu brjóstsins strengjum í.
Leiftur stálsins léku í augum,
logaði hár sem gullið ský.
4.
Gunnars heill og afrek unnu
ungri hetju sigurkrans.
Valdi konung kappa glæstra
kona fegurst þessa lands.
Hennar yrði vörn og vegur
vopn í höndum elskhugans.
5.
En vegur hans og virðing hennar
voru ei sömu lögum felld.
Kappa þeim hún þola mátti
þungan kinnhest, smáð og hrelld.
Allt, sem mjúkt í brjósti bærðist,
brann þá kvikt við hægan eld.
6.
Gunnars bjarti bogastrengur
brast í lífsins þyngstu raun.
Hallgerður gaf ei hár á bogann,
hæfðu betur önnur laun;
skyldi verði grimmu goldin
ganga um eggsár brunahraun.
7.
Uggvæn leiftur léku í augum,
loks var hugans vængur frjáls.
Hjörvi 'ún brá í brosi og orðum,
breytti í kaldar eggjar stáls
fögrum lokk, er löðrung brenndur
lék um svanabjartan háls.


Athugagreinar

Kristján Eiríksson bjó til skjábirtingar.