Ísland | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ísland

Fyrsta ljóðlína:Eykona hvít við dimmblátt djúp
bls.189
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) aBBaCCdd
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Eykona hvít við dimmblátt djúp,
er kappa vakir hrygg við hauga,
þungbúnu hrýtur hagl af auga
niður í fagran fanna hjúp,
þú grætur þá sem látnir lifa,
þar ljósin Valaskjálfar bifa;
syrgjandi ber þú höfuð hátt
heiðskírri viður norðurátt.
2.
Gengin er tíð, þá loft og lög
Valkyrjur riðu í leiftra ljóma
við sverðaskin og skjaldarhljóma
og kysstu haran Hildar mög;
þegar að fleyin, sköruð skjöldum,
skriðu að þínum ströndum köldum,
þá konungborið kappalið
kaus sér að deyja brjóst þitt við.
3.
Þá Miðgarðsvörður mundi ljá
ástvinum Mímis Mjölni þungan,
þá hærra lögðir lét en tungan,
athöfn var mörg, en orðin fá;
þá frelsi og drengskap dugði að þjóna,
en deyða, víl og bleyði fjóna;
þá frelsismorguns myndin hrein
í mennta spegli fögrum skein.
4.
Þenna vér mætan eigum arf,
minningu fræga, fegurst dæmi,
svo niðjum hraustra í huga kæmi
að örva hug og efla starf;
svo aftur mætti úr deyfð og dauða
dafnandi rísa landið snauða,
og verða ei meir í myrkradöf
minningar sinnar eigin gröf.
5.
Kenn oss að feta í feðra spor
á ferli nýjum, móðir aldna,
svo lifni storðin fönnum faldna,
og nöprum fylgi vetri vor;
sveifla þú yfir ítru landi
ógnandi, skærum loga brandi,
og undir hjálmi Ægis blá
ástmögum sýndu hýra brá.