Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Heyr þú enn hæsti hjálpari minn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heyr þú enn hæsti hjálpari minn

Fyrsta ljóðlína:Heyr þú enn hæsti hjálpari minn
bls.246–248
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBaBB
Viðm.ártal:≈ 1400–1525
Flokkur:Helgikvæði

Skýringar

Kvæðið er hér gefið út eftir útgáfu Jóns Helgasonar í Íslenzkum miðaldakvæðum en þar fer hann eftir aðalhandriti þess, AM 713 4to, bls. 101–102. Árni Magnússon hefur skrifað kvæðið stafrétt upp eftir því handriti í AM 711a 4to, bls. 171–184, og hefur hann lýst forriti sínu svo („Þessar Mariu visur eru uppskrifadar ur þeim rotnu kalfskinns blódum in 4to fra Sr. Olafe Gislasyne ä Hofi i Vopnafirde“). Afskrift Steingríms Thorsteinssoar með samræmdri stafsetningu er í AM 920 4to, og sömuleiðis afskrift Páls Eggerts Ólasonar í Lbs 2166 4to.
1.
Heyr þú, enn hæsti hjálpari minn,
himins og allra landa,
lát þú mig fúsast fundinn þinn,
forðast kvalir og vanda,
leið þú birtu í brjóstið inn
so brag þinn mætti eg vanda
með hugbót heilags anda.
2.
Lofað sé þitt himnahauðr,
herra Guðsson fríði,
kom þú þá eg er kaldr og dauðr
og kjós mig undan stríði,
elliga er horfinn heiðr og auðr,
heitt trú eg sálunni svíði
nema dugi mér drottinn blíði.
3.
Einn og þrennur með almátt skín
í æðstri himnahöllu,
faðir og son mig forði pín
og frelsi af grandi öllu,
er sú vonin víst til þín
er veldur sólarstöllum,
sem hjálpar konum og köllum.
4.
Ave Máría, mild og kær,
móðir kóngsins góða,
gracia plena geym mig, mær,
gimsteinn *allra fljóða,
benedicta, þú björt og skær,
besta hjálp mun bjóða
og legg oss ei fyrir róða.
5.
Sætt þú oss við son þinn Krist,
signuð Jesús móðir,
so öðlast megum vér ærna vist
hjá *æðstu himnafljóði,
lifir og ríkir líkn með list,
lofa þig allar þjóðir
og dýrka drottins móðir.
6.
Þú mátt heita himnaskraut,
höfuðdrottningin ljósa,
minnka láttu mína þraut,
mun eg þig þar til kjósa,
drag þú oss frá djöflabraut,
drottning allra drósa,
Guðs en roðna rósa.
7.
Dýrðarfullust dugi þú mér,
dagsbrún heima þrenna,
sæl Máría, sjá þú hér
syndugan þrælinn þenna,
leið þú oss á líknarsker,
lofaður gimsteinn kvenna,
til þín vill rekkurinn renna.
8.
Heyr þú, Máría, hrein og skær,
himnakóngsins móðir,
heyr þú, Máría, mildust mær,
þig mekta englaþjóðir,
heyr þú, Máría, er hvern dag fær
heiður af sínu jóði,
þig dýrka drengir góðir.
9.
Heyr þú, Máría, háleit sól,
heilög morginstjarna,
heyr þú, Máría, heilsuhjól,
heiðra vil eg þig gjarna,
heyr þú, Máría, himnaskjól,
hjálpin Adams barna,
mildi muntu ei varna.
10.
Heyr þú, Máría, háleit byggð,
himnakóngsins sæti,
heyr þú Máría, frómust frygð
með frábæru lítilæti,
heyr þú, Máría, traust í tryggð,
þú trú eg fyrir öllum bætir,
þú lýsir lönd og stræti.
11.
Heyr, Máría, lifanda ljós,
líknar mun eg þig biðja,
heyr þú, Máría, roðnust rós,
réttlætisins smiðja,
heyr þú, Máría, dýrðardrós,
dásamlig er þín iðja
við alla Adams niðja.
12.
Heyr þú, Máría, er fögnuð fann
þann frómastan má kalla,
heyr, Máría, er mildi vann,
megindrottningin snjalla,
heyr þú, Máría, í hjálparrann,
hæsta gekkstu palla
upp til himnahalla.
13.
Máría taki við mælsku mín,
móðir guðs og dóttir,
Máría frelsi mig frá pín
og mýki allar sóttir,
Máría, ertu meyjan fín,
sem mest hefur gæða nógtir
að leysa lýðadróttir.
14.
Amen, amen endalaust,
úti er þetta kvæði,
legg eg á þitt lifanda traust,
þó ljótligt hafi eg æði,
önd mína og sál so efnunarlaust,
áttu nóglig gæði,
sem dýrðardrottningu stæði.
> Amen.


Athugagreinar

4.4 alla] > allra AM 711a 4to.
5.4 hæstu] > æztu Lbs 2166 4to (leiðrétt vegna stuðlasetningar).