Fjöllin á Fróni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fjöllin á Fróni

Fyrsta ljóðlína:Hvað fögur er min feðrajörð
bls.69
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) aBBaCCdd
Viðm.ártal:≈ 1825
1.
Hvað fögur er mín feðra jörð,
fjallkonan gamla, kennd við ísa,
hvar tindar hátt úr hafi rísa,
hvítfölduð teygja jökla börð,
standa und hettum kristalls kláru
sem kempur, er gyllta hjálma báru,
gnapa framyfir gljúpan sjá;
þau geislum hellir sólin á.
2.
Þá Ásaþór sá Íslands fjöll,
á Snæfellsjökli tók hann sæti.
Þau fylltu hetju hug með kæti
og sér til himins otuðu öll.
Sér fram af tindum vötnin veltu,
vina rödd Þór í eyrun helltu.
Þá gengu kempur hans á hönd,
því hetjuöld stóð um Norðurlönd.
3.
Þá vissi eg heyja hildar þrá
hamremmistryllta Íslendinga,
bláklæddir stóðu í brynjum hringa
Gunnar og sterki Grettir þá.
Menn festu konu, en fyrir hana
fengu tíðum á hólmi bana.
Deyjandi munnur orti óð,
þá oddur spjóta í hjarta stóð.
4.
Fornaldarsögu og fræðiljóð
fram þuldu menn í háttum vöndum.
Þar stóðu skáld með hörpu í höndum,
hvar fjandmanns dundi dauða blóð.
Þá voru kvæði í kóngahöllum
kærust metin af leikum öllum.
Vér geymdum þeirra vísnasöfn
um vorra feðra hreysti og nöfn.
5.
Enn grær á vorri ættarjörð
atorka sönn hjá traustum hölum,
enn er glaðvært í grænum dölum,
hvar gæfusæl sér leikur hjörð,
enn sjáum lax og silungsfansa
í silfurelfum ljósum dansa;
fögur er sönglist fugla nóg
um fjörðu, eyjar, dali’ og skóg.
6.
Í sveitabóndans auga enn
eg ægishjálm hinn sama þekki,
fyrr sem um hætta Hildar stekki
ógndjarfir hvesstu afreksmenn.
Kæta mig augun bláu og blíðu
bændadætranna heima fríðu.
Eins og þá Bragi Iðunn sá,
þær ástir kveikja skáldi hjá.
7.
Heill sé þér, kæra feðra frón,
fjöll þín í gegnum eilífð standi;
þó vötn og eldar veröld grandi,
þau gleðji þinna sona sjón.
Ginnunga upp úr gapi óholla
gráhærða réttu fjallakolla,
svo vér frá Gimli getum sjá,
hvar gamla Ísland forðum lá.