Skagafjörður | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skagafjörður

Fyrsta ljóðlína:Þú fríði Skagafjörður
Höfundur:Ingimar Bogason
bls.74-75
Viðm.ártal:≈ 0
Skagafjörður

1.
Þú fríði Skagafjörður,
þú fagra sveitin mín
svo vel af guði gjörður,
ei gleymist fegurð þín.
Mitt æskuvor og yndi
ég átti í faðmi þér. —
Þá lék mér flest í lyndi
sem löngu horfið er.
2.
Ég byggði borgir skýja
í blíðri sumarró.
Mig dreymdi drauma nýja
við dagsins önn í mó. —
Ég heyrði raddir hljóma,
sem hugans fylltu þrótt.
Við hjartans hörpuóma
mig heillaði vorsins nótt.
3.
Ég geymi góða minning
í gegnum liðin ár
og marga kæra kynning
við kvöldsins draumaþrár.
Þær myndir mun ég geyma
og móta í tímans skjöld
og alrei æsku gleyma,
ég á þau söguspjöld.
4.
Ég sakna sveitaskrúðans
og syrgi gullin mín
og litla lækjarúðans. —
Mig langar heim til þín
í græna hvamminn, – gilið
sem geymir huldumál.
Og enn á undirspilið
þar æskumannsins sál.
5.
Þú fríði fjörður Skaga-,
ég festi við þig tryggð.
Þú heimur ljóðs og laga,
þú lífs míns heimabyggð.
Ég á hér ævisporin
minn andi fyrst þig leit.
Hér átti ég æskuvorin
og ellin heimareit.