Málfríðar kvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Málfríðar kvæði

Fyrsta ljóðlína:Kristín situr í Skáney
bls.137–139
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
Kristín situr í Skáney,
tekur hún gull að láni.
Sér hún ei þann öðling.

Skáney,
tekur hún gull að láni.
Hún á ekki barnið nema hana Málfríði ein,
henni gengur daglega sorg fyrir mein.

Málfríði ein,
henni gengur daglega sorg fyrir mein.
Þar kom herra Ásbjörn og hennar bað,
Málfríður gefin var þegar í stað.

Hennar bað,
Málfríður gefin var þegar í stað.
Sjö vikur voru þau í Sælandi saman,
undu sér við gleði og gaman.

Í Sælandi saman,
undu sér við gleði og gaman.
Herra Ásbjörn vill sig í leiðangur fara,
Málfríður biður hann heima vera.

Í leiðangur fara,
Málfríður biður hann heima vera:
„Þess var mér spáð þá eg var mey
að eg skyldi að mínu fyrsta barni dey.“

Þá eg var mey
ég skyldi að mínu fyrsta barninu dey.“
„Trúðu aldrei spákonu spá,
treystu heldur þeim sem allt gott má.

Spákonu spá,
treystu heldur þeim sem allt gott má.
Herra Ásbjörn vendir sínum skipunum á fley,
so siglir hann undir Viðarey.

Skipunum á fley,
so siglir hann undir Viðarey.
Fyrstu nótt þeir lágu undir ey
herra Ásbjörn dreymdi gull so reyð.

Þeir lágu undir ey
herra Ásbjörn dreymdi gull so reyð.
Vaknaði hann Ásbjörn upp að hann sá:
„Guð ráði hvörninn Málfríður má.“

Upp hann sá:
„Guð ráði hvörninn Málfríður má.“
Herra Ásbjörn vendir sínum skipum á geim,
so siglir hann til Sælanda heim.

Skipunum á geim,
so siglir hann til Sælanda heim.
Kastar hann akkeri á hvítan sand,
þar gekk hann herra Ásbjörn fyrst á land.

Á hvítan sand,
þar gekk hann herra Ásbjörn fyrst á land.
Þegar hann kom í borgarhlið
líkið á börunum stóð þar við.

Í borgarhlið
líkið á börunum stóð þar við.
Þegar kom í kirkju inn
líkið á börunum stóð honum í gen.

Í kirkjuna inn
líkið á börunum stóð honum í gen.
„Hvör á það hið ljúfa lík
sem þér berið so virðulega?“

Ljúfa lík
sem þér berið so virðulega?“
Svaraði hennar yngsti bróðir,
sá bleikur stóð undir börum:

Bróðir,
sá bleikur stóð undir börum:
„Það er mín yngsta systir
sem þér fyrir skemmstu festuð.

Systir
sem þér fyrir skemmstu festuð.“
„Þess bið eg karl og kvinnu
þér lofið mér við líkið að minnast.“

Kvinnu
Þér lofið mér við líkið að minnast.“
Hann minntist við hennar munn so fast
í níu hluti hans hjartað brast.

Munn so fast
í níu hlutina hans hjartað brast.
Þar var meiri grátur en gaman,
þrjú fóru líkin í steinþró saman.

Grátur en gaman,
þrjú fóru líkin í steinþró saman.
Fyrst var hann Ásbjörn og annað hans frú,
þriðja hans móðir af sorgum dó.
Sér hún ei þann öðling.