Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Þorkels kvæði Þrándarsonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þorkels kvæði Þrándarsonar

Fyrsta ljóðlína:Það er hann Þorkell Þrándarson
bls.113–120
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
1.
Það er hann Þorkell Þrándarson,
ríður sig undir ey,
lokkar hann frúna Aðallist
þá velbornu mey.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
2.
Lokkar hann frúna Aðallist,
dóttur herra Loga,
hún kann honum þau klæðin að skera,
honum sómir þau vel að bera.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
3.
Hún kann honum þau klæðin að skera,
það er hans virðing full,
hvör sá saumur sem þar er á
hann glóir með rauðagull.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
4.
Það er hann Þorkell Þrándarson
með sárum sútar karmi,
fullar lá hann vikurnar sjö
á stoltsfrúinnar armi.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
5.
Enginn maður það vissi
og enginn maður það sá
nema hennar yngsti þjónustusveinn,
hann hélt þar vakt upp á.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
6.
Heyrði það Þorkell Þrándarson,
víða er manna getið,
að því spurði hans kæri faðir
hvar hann hafði setið.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
7.
„Eg hef verið að blanda bjór
í herra Loga skóg,
hvör þar kemur eftir mig
sá fangar dýrin nóg.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
8.
Eg hef verið að blanda bjór
í herra Loga haga,
hvör þar kemur eftir mig
sá fangar góða daga.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
9.
„Hafirðu verið að blanda bjór
í herra Loga skóg,
þar er sú hind sem þú hefur veitt
og þig ber fljótt í róg.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
10.
Eg skal kenna þér annað ráð
að veiða dýr í haga,
þú skalt þig til Frísalands
með Ásbirni hinum snara.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
11.
Þú skalt þig til Fríslands
bréfin mín að tjá,
segðu kóngurinn komi til vor
ef löndunum vilji hann ná.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
12.
Það var einn svo blíðan dag,
guð gefi oss góðan tíma,
Aðallist sig til kirkju gengur
með sælu móður sína.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
13.
Þegar þær komu í borgarhlið
sveipa þær yfir sig skinn,
Aðallist sig með höfuðgull
gengur í kirkju inn.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
14.
Þetta réð hún Aðallist
við sína móður að tala:
„Hvörjir eru þeir sendimenn
til Fríslands eiga að fara?“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
15.
Þetta talar hún Gunnhildur,
hún brosir undir skinn:
„Það er Þorkell Þrándarson,
besti vinurinn þinn.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
16.
En svo réði hún Aðallist
sinni móður að svara:
„Sá Guð er allri veröldu ræður
gefi honum vel að fara.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
17.
Sungin var þar messan
og komið fram á tíð,
Þorkell sig með bekkjum gengur
kveður hann vinina sín.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
18.
Þorkell sig með bekkjum gengur
kveður hann frúr og meyjar,
allra síðast sinn einkavin,
Aðallist undir eyju.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
19.
„Heyrðu það, frúin Aðallist mín,
berðu ei nokkra þrá,
það mun okkur lukkan ljá
að eg komist heim aftur í ár.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
20.
„Heyrðu það, Þorkell Þrándarson,
margt kann til að bera,
það skeður á einum litlum tíma
er um aldir verður að trega.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
21.
Lágu þeir í höfnum,
sem hvör mann mátti sjá,
lagðist segl á bunka niður
Fríslands drengjum hjá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
22.
Þegar þeir komu í borgarhlið
sveipa þeir yfir sig skinn,
svo ganga þeir hæversklega
fyrir Fríslandskónginn inn.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
23.
Leysir hann bréf af belti sér
og lagði í kóngsins kné:
„Það er sá sanni boðskapur
minn herrann sendi þér.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
24.
Kóngurinn tekur við bréfunum
og vill ei líta á,
tekur hann sér einn tygilkníf
og sker þau í stykkin smá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
25.
Það var hann Þorkell Þrándarson,
hann var sig maðurinn bráður:
„Hvað er þess á bréfunum
þér viljið ei líta á þau?“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
26.
„Hann hefur mína föðurleifð
sér fyrir eigin haga.
Bræður hans og einkasynir
skulu þar fyrir svara.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
27.
Það er hann Þorkell Þrándarson,
hann rykkir búnum knífi:
„Fyrr skal allt Frísland í rauðum loga
en eg týni lífi.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
28.
Tveir voru þeir kóngsins sveinar,
þeir tóku í Þorkels hönd.,
þeim setti hann odd í bringubein
svo misstu báðir önd.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
29.
Mikill var þar hljómurinn
eftir staðnum fram.
Þeir tóku hann Þorkel Þrándarson
með átjánda mann.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
30.
Þeir tóku hann Þorkel Þrándarson
með nítjánda svein.
Þeir komu honum aldrei í myrkvastofu,
hann vann þeim öllum mein.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
31.
Af sumum hjó hann höndur,
af sumum hjó hann fót,
allir þeir sem fyrir urðu
biðu þess aldrei bót.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
32.
Tveimur víkur vísunum
og nú skal skýra frá,
Stígur heitir Jónsson
er frúinnar biður þá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
33.
„Heyrðu það frúin Aðallist mín,
þú mátt ei svo lifa.
Stígur heitir Jónsson
eg vil þig honum gefa.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
34.
„Heyrðu það, minn kæri faðir,
auktu mér ei þá þrá,
það er svo illt á ungum aldri
gamlan mann að fá.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
35.
„Heyrðu það mín kæra dóttir,
segðu mér satt í frá.
Hvör er sá nú öðlingssonur
þinn stár hugurinn á?“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
36.
„Annan daginn og þriðja
skulum við minnast á
um hann Þorkel Þrándarson
er til Fríslands fór í ár.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
37.
„Heyrðu það, mín kæra dóttir,
berðu ei fyrir hann þrá.
Þorkell situr á Fríslandi,
þú munt hann aldrei fá.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
38.
Svaraði hennar fósturmóðir,
hún sat henni í hjá:
„Látið þér mína kæru bíða
hvað hún fregna má.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
39.
Þetta talar hún Gunnhildur:
„Þið megið þegja báðar,
þið eigið öngva kosti að kjósa
og ekki ber yður að ráða.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
40.
Hún sló frúna Aðallist
á þá björtu brá.
Illa þótti honum herra Stígi
þegar hann tárin sá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
41.
Það var hann Stígur Jónsson,
hann vann sér allt í hag,
fastnar hann frúna Aðallist
á þann sama dag.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
42.
„Heyrðu það, Kristín Jónsdóttir,
hvörs eg beiði þig,
eina nótt eður allar tvær
liggur mey fyrir mig.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
43.
„Heyrðu það, frúin Aðallist mín,
mikið er synd að gera,
fyrir þig vilda eg allra helst
um minn aldur trega bera.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
44.
Það var einn svo fríðan dag,
fólk fór út á skóg,
svo gátu þær hörmum skipt
að báðar höfðu nóg.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
45.
Það var einn svo blíðan dag,
Guð gefi oss góðan tíma,
að Aðallist sig til kirkju gengur
með sælu móður sína.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
46.
Þegar þær komu í borgarhlið
sveipa þær yfir sig skinn,
Aðallist sig með frúrfald gengur
í kirkjuna inn.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
47.
Aðallist sig fyrir altari gengur
og krýpur þar á knéð,
það er hann Þorkell Þrándarson,
hann fær vel til hennar séð.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
48.
Það er hann Þorkell Þrándarson
karska sveina sín:
„Hvör hefur fellt það höfuðgull
er áður bar kæra mín?“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
49.
Svaraði hennar þjónustusveinn
sem honum mundi bera:
„Stígur heitir Jónsson,
hann þorði það vel að gera.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
50.
Það er hann Þorkell Þrándarson,
hann var sig maðurinn bráður,
hann sló frúinnar þjónustusvein
svo heilinn fauk um rjáfur.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
51.
„Heyrðu það, frúin Aðallist mín,
segðu mér satt í frá,
var það ljúflegur viljinn þinn
að þú varst gefin þá?“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
52.
„Heyrðu það Þorkell Þrándarson,
þú kannt þig vel að stilla,
fátt hefur mér að óskum gengið
en hótin við mig spilla.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
53.
„Það kann eg með vopnum vega
er sefur á þinn arm,
bindum við okkar blíðu og trú
svo lokið sé þínum harm.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
54.
„Vegir þú hann herra Stíg
eg gef þar ei til já,
þó þú lifir minn allan aldur
skaltu mig aldrei fá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
55.
Heyrðu það, Þorkell Þrándarson,
farðu að biðja þér kvenna,
svæfum við okkar sáran harm
en þó mun eg hans kenna.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
56.
Heyrðu það, Þorkell Þrándarson,
þigg þú ráðin góð,
þeirrar máttu brúðar biðja,
dóttur Ívars úr Hól.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
57.
„Þeirrar má eg brúðar biðja,
hún er sig nógu rík,
uggir mig það, Aðallist mín,
ekki sé hún þér lík.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
58.
Þegar hann Þorkell Þrándarson
þetta mælti um það
þá var hún Imba Ívarsdóttir
honum gefin í stað.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
59.
Ingibjörg á Tindum,
ól hún syni þrjá,
sjálfrar sinnar lífið
lagði hún ofan á.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
60.
Þar leið ekki á milli
utan um mánuði þrjá,
Stígur bjóst í leiðangur
og andaðist þá.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
61.
Það er hann Þorkell Þrándarson,
hann klappar lófum saman:
„Herra Guð signi þess riddara sál,
helst til varð hann of gamall.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
62.
Það er hann Þorkell Þrándarson,
hann ríður sig undir ey:
„Nú skal eg þeirrar ekkju biðja
err áður fékk eg mey.
Fellur dögg á fagra eik í lundi.
63.
Kristínu gef eg söðul og hest
og búgarðana þrjá,
minna gaf hann herra Stígur
og svaf hann henni hjá.“
Fellur dögg á fagra eik í lundi.