Gullmura | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gullmura

Fyrsta ljóðlína:Eg sá þig á ófrjóvum eyðimel fyrst
bls.117–118
Bragarháttur:Sex línur (o þríliður) fer- og þríkvætt: aBaaBB
Viðm.ártal:≈ 0
Gullmura

1.
Eg sá þig á ófrjóvum eyðimel fyrst,
þig, indæla blómið mitt smáa!
og síðan eg oft hjá þér glaður hef gist
og gremjuna' og drungann af sál minni hrist
og dvalið und himninum brosandi, bláa
við brjóst þín hjá klettinum lága.
2.
Þú kinkaðir blómkolli' í bergskoru þar,
það blikaði' á gullkrónu þína.
Það hrundu' á þig tár mín, er hryggur eg var, —
þú hrærðist, er döggin sú vökvun þér bar.
Í djásnið þitt greypti eg demanta mína, —
sem drottning þú áttir að skína.
3.
Eg leitað' úr solli og fann hjá þér frið,
eg flutti þér brosandi kvæði.
Í skorunni' í klettinum hvíldi' eg á hlið
og hjarta mitt skalf, er þig talaði' eg við;
og krónan þín drúpti' og við döpruðumst bæði,
er dagsólin hné oní græði.
4.
Eg minnist þess alltaf, — hvert einasta sinn
með augun mín fljótandi' í tárum,
er sleit eg upp glóandi gulltoppinn þinn
í gáleysi' og lagði' hann við hjartastað minn,
þess glapræðis hef eg á æfinnar árum
oft iðrast með harmtrega sárum.
5.
Eg horfði á þig fölva, en hjálp gat ei veitt:
eg hafði þig slitið frá rótum
Eg sá það, er hneigðir þú höfuðið þreytt,
og horfði' á þig deyja', en eg gat ekki neitt!
Eg sá, er þú steinliðin félls mér að fótum,
— hve fallvalt er allt, sem við njótum! —
6.
Í dálitlu blómkeri bjó eg um þig
og bar þig í sólgeislann skæra,
og társtraumar upphimins opnuðu sig
og ætluðu' að lífga þig rétt fyrir mig.
En unnt var ei lífið þér framar að færa,
þú fölnaða blómið mitt kæra!
7.
Og hvert sinn, er glitrandi gullmuran smá
nú glóir á veginum mínum,
eg snerti' hana alls ekki' og sný henni frá
og snortinn af ótta og söknuði' og þrá
eg hugsa' um, að ást mín í óstjórnleik sínum
varð orsök í dauðanum þínum!