Í dag | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Í dag

Fyrsta ljóðlína:Í dag er ég ríkur — í dag vil ég gefa
bls.19–20
Viðm.ártal:≈ 0
Í dag

1.
Í dag er ég ríkur — í dag vil ég gefa
demanta, perlur og skínandi gull.
Gakk þú í sjóðinn og sæktu þér hnefa,
uns sál þín er mettuð og barmafull.
Það er ókeypis allt,
og með ánægju falt –
og ekkert að þakka, því gullið er valt!
2.
Í dag er ég snauður og á ekki eyri,
ölmusumaður á beiningaferð.
Einasta vonin að himnarnir heyri –
þó hanga um mig tötrarnir eins og þú sérð.
Gef mér aflóa fat
eða fleygðu í mig mat!
Því forðastu að tylla þér þar sem ég sat?
3.
Í dag er ég glaður — í dag vil ég syngja
og dansa til morguns við hverja sem er.
Við flakkarann allt eins og kóng vil ég klingja —
ég kæri mig ekkert um nafnið á þér.
Þú ert vinur minn víst
eins og veröldin snýst —
og á víxla ég skrifa nú eins og þér líst!
4.
Í dag er ég reiður — í dag vil ég brjóta,
drepa og brenna hér allt niðr‘ í svörð;
hengja og skjóta‘ alla helvítis þrjóta.
Hræki nú skýin á sökkvandi jörð!
Farðu‘ í heitasta hel!
Skaki hörmungaél
hnöttinn af brautinni, og þá er vel!
5.
Í dag er ég gamall — í dag er ég þreyttur,
drúpi nú yfir tæmdum sjóð.
Hvar er nú skap og hnefinn steyttur?
Hvar er nú öll mín forna glóð?
Vertu sæll! Ég er sár,
og mitt silfraða hár
í særokum litaðist hvítt fyrir ár.