Ad amicum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ad amicum

Fyrsta ljóðlína:Ár var alda / þá er endurborin
bls.17–25
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Kvæðið er líklega ort til Gísla Ísleifssonar sem seinast var prestur í Kálfholti (d. 1848). Þeir Jónas voru skólabræður á Bessastöðum en Gísli útskrifaðist þaðan ári síðar en Jónas. Þá voru þeir um tíma sambýlismenn á Garði í Kaupmannahöfn.
1.
Ár var alda
þá er endurborin
fold in fjallsetta
í fyrsta sinn
veltast tók völ
um vegu ókunna
að orði alvalds,
sem allt um skóp.

2.
Sveipuð saman
in svása nótt
í ægi faldist,
þá er álfröðull
hóglega hófst
of heiðarbrún,
hlógu hlíðar
við himinljósi.

3.
Þá var gaman,
er um grænan dal
féllu fagrar ár
fiskum kvikar,
en íturfagur
í eyrarbót
söng svanaflokkur
sætum rómi.

4.
Unað óþekktum
og undran fylltur
maður inn fyrsti
und meiði hám
einn saman stóð,
augum leiddi
nýja náttúru
og nöfnum hét.

5.
Aldin, akur
íturbleikur,
fögur eik,
fugl kvakandi,
fallandi foss
og fjallbuna,
hestur, naut
og heiðardýr
hlutu hvert um sig
heiti þaðan.

6.
Einn saman maður,
öngvum þekktur,
unaðs óskipts,
er yfir bjó,
nauðgur um naut
og naut aðeins
helftar einnar
þess er allan hafði.

7.
Fyri því fór
fjalli gnæfanda
hug sinn telja,
en háðskur mót.
ómur orðvani
eyra hrærði.
Það var bergmál
frá blám tindi.

8.
Þá sá alfaðir,
sem öllu stýrir,
grát í auga
ins einmana,
og af forsælu
fram kallaði
brosfagra brúði.
Þá varð brjósti létt.

9.
Eyddust aldir,
ár um hvurfu.
Fjölguðu þá
og færðust út
mennskir megir
und miðgarði.
Frændur fjarlægir
að fullu gleymdust.

10.
Þá sá alfaðir,
að ónóg var
brúðarást
eða blóðskylda
þungar raunir
þjáðra manna
allar að létta
und oki lífs.

11.
Elskan eilífa,
allt sjáandi,
miskunnar hrærðist
yfir mannsins neyð.
Sá var einn,
að hún ofan sendi,
helgur engill.
Það var hulið ráð.

12.
Vindur þagði,
vötn stöðvuðu
beljandi straum,
frá blásölum himins
ský skinfagurt
skærum loga
leið yfir loft
und ljósri mynd.

13.
Það var vinátta
sem á vængjum friðar
hné frá himni
í helgum blæ.
Fagnaði fold,
fylltust gleði
efri loft
og undirdjúp.
Sá var fyrstur nefndur
sumardagur.

14.
Hreinlynd hjörtu
og hugarprúð
ást einlægri
æðri kynja
ylnuðu þá,
er um aldir síðan
vóx, við hélst.
Þaðan er vinur um kominn.

*

15.
Heim sér ég hverfa
á himinásum.
Rennur sumar-
sól hin fyrsta,
umgenginna
sem alda mér,
minning vekur
og margs sem áður
brá minni blíðu
barns gleði.

16.
Ungur var ég forðum, -
fór ég einn saman
föður sviptur,
er mér fremst unni.
Þannig liðu
langir dagar,
meini blandnir
á marga lund.

17.
Fluttu mig forlög
um fjöll suður
einn, ókunnan,
alls þurfandi.
Máttat eg móður
mál um nema,
máttat eg systur
mína sjá,
þá var mér bróðir
blíður horfinn.

18.
Þá varst það þú,
er ég þegjandi
aðgætnu auga
einatt leiddi.
Það sagði mér hugur,
að þar mundi
viður vaxa,
hvaðan væntak skjóls.

19.
Sátum við tveir
við sjó löngum
og sáttir á
sundi lékum.
Þótti mér þá
sem við þreyta myndum
burt veltandi' yfir
bylgjur lífs
einum hug
mót örlaga straumi.

20.
Þá varst það þú,
er eg þegjandi
valdi mér
að vini fyrstum.
Síðan eg hefi
sælla stunda
allmargra notið
ama horfinn,
besti Gísli!
að brjósti þér.

21.
Þess ég nú minnumst,
er þetta er
sigurdagur þess,
er sendi himin-
engil ofan
upp að ræta
harma gras
úr hyggju reit
andvarpandi
aumra manna.

22.
Hvað mér þá fyrr
í hug koma
skyldara mundi
eður skapi nær
óskaorð
en að árna góðs
þeims mér að vini
veittan hefir.

23.
Má eg alda
ókominna
orð um nema,
en þau að eyrum mér
berast brotin
sem brimhviður
ómi álengdar
við enda nætur.

24.
Sér eg örlög
ýmisleitan
okkur ókominn
aldur skapa, –
en það óskýrt
að augum mér
kemur líkt sem
á köldu hausti
stjörnuglampi
af sléttum sjó.

25.
Hlægir mig nú það,
er mig hrelldi áður
ungan of mjög,
þá er eg fór einn saman,
gott er að ganga
geði kvíðlausu
ófarið, örstutt,
æviskeið. –