Kvæði af Loga í Vallarhlíð | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði af Loga í Vallarhlíð

Fyrsta ljóðlína:Frúin situr í ríkinu
bls.271-278
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar
Kvæði af Loga í Vallarhlíð

Þau voru börnin brigðusmá
er báru sér horn að munni
en drósin dillaði þeim hún unni.

1.
Frúin situr í ríkinu,
sú kann margt að vinna,
að lesa á bækur rúnamál
og sauma silkitvinna.
— En drósin dillaði þeim hún unni.
2.
Frúin situr í ríkinu
fögur sem rós eður lilja,
hennar báðu riddarr tveir
með ást og allgóðan vilja.
3.
Vilhjálmur hana keypti
en Logi hennar bað,
svo syrgir hann eftir hana
sem fugl við aldinblað.
4.
Vilhjálmur hana festi,
en Logi hennar missti
svo syrgir hann eftir hana
sem fugl á aldinkvisti.
5.
Þá var Vilhjálmi vífið gefið
en Loga þótti illa,
allan bar hann vilja til þess
herrans lífi að spilla.
6.
Haldið var þar brullaupið
bæði með gleði og gaman.
Mánuð einn á nefndri grund
voru þau frúin saman.
7.
Heim reið hann Logi í Vallarhlíð
með svo þungu veldi,
hvorki neytti hann matar né öls
á því sama kveldi.
8.
Til orða tók hún móðir hans:
„Hví ert þú ókátur,
hvort hefur þú í sóttum legið
eða ríka frændur látið?“
9.
„Fyrr vilda eg missa
mína gjörvalla frændur
heldur en honum Vilhjálmi
vífið gæfist í hendur.“
10.
„Heyrðu það nú, sonur minn,
auktu þér eigi þá þrá.
Það er ei gott að elska
sem annar maður á.
11.
Heyrðu það nú, sonur minn,
syrgðu ei þitt líf.
Þú skalt fara í önnur lönd
og fá þér vænna víf.“
12.
„Þó eg fari um Danmörk
og víða um önnur lönd
fæðist ei undir sólinni
kurteislegra sprund.“
13.
Heima sat Logi í Vallarhlíð
og gætir sinna eykja,
hugsar hann um það árla og síð
borgarherrann svíkja.
14.
Það var eina vintrarnátt,
það vil eg greina fljótt:
„Heyrðu það, kæri Vilhjálmur,
ráddu nú drauminn skjótt.“
15.
„Heyrðu það nú, Aðallist mín,
sofðu þér til náða,
það er ekki ríks manns háttur
kunna drauma að ráða.“
16.
„Það var minn hinn fyrsti draumur
að bjóstu þig til tíða,
hvítibjörn þér á móti rann,
sárt lét hann þér svíiða.
17.
Kvaddir þú hann góðum orðum,
svaraði hann þér af þjósti,
lagði hann sinn inn þunga hramm
fast að þínu brjósti.
18.
Láttu þér fylgja röskvan dreng,
sárt tók það mitt hjarta,
þann sem vel kann sverð að bera
og hringabrynju bjarta.“
19.
Úti stóð Logi í Vallarhlíð
og þótti langt að bíða
á meðan hinn ríki borgarherra
klæddi sig til tíða.
20.
Úti stóð Logi í Vallarhlíð
og þótti sín ævi löng
meðan inn ríki borgargreifi
klæddi sig til söngs.
21.
Út gekk hann Vilhjálmur
í silkiskyrtu ein.
Þar kom Logi úr Vallarhlíð
og vann honum dauðamein.
22.
Hann hjó hann með bitru sverði,
illa nam það vera,
það mun frúin Aðallist
um alla ævi bera.
23.
„Vel er það nú Vilhjálmur,
að sýnt hefur þú þig oss,
nú varð eg að launa þér
margan leyndarkoss.“
24.
Aðallist sig til kirkju gengur
með sinn hringinn rauðan,
þegar hún kom á kirkjustétt
sá hún sinn Vilhjálm dauðan.
25.
Laut hún niður að líkinu
og gaf því heilagt minni,
svo jókst henni harmur strangur
hún fór ei lengra að sinni.
26.
Til orða tók Logi í Vallarhlíð
og tekur svo margs að beiða:
„Kjóstu mig nú, ríka frú,
fyrir þinn borgargreifa.“
27.
„Þegi þú nú, hinn röskvi drengur,
og tak ei slíkt að nefna,
sá er nú ei fjærri mér
sem hans skal fullvel hefna.“
28.
Hann hjó hann með hvössu sverði
illa unnið víg,
glaður reið hann herra Logi
heim í Vallarhlíð.
29.
Til orða tók hún móðir hans:
„Hví er blóðugt sverð
svo sem þú hafir verið þig
víganna í ferð?“
30.
Logi svaraði sinni móður
svo vel sem hann kunni:
„Eg hef vegið þann borgargreifa
sem stoltarfrúnni unni.“
31.
Til orða tók hún systir hans
með svo mikinn grát:
„Hulinhjálmur er yfir þeim
sem hans mun hefna brátt.“
32.
„Heyrðu það nú, systir mín,
berðu aldrei trega.
Hún á hvorki son né dóttur
eftir hann að vega.“
33.
Sungu þar yfir líkinu
vel fimm hundruð manna.
„Nú má eg,“ segir ríka frú,
„sáran drauminn sanna.“
34.
Frúin situr í ríkinu
níu mánuði ein
allt til þeirrar stundarinnar
er fæddi hún fríðan svein.
35.
Barn var borið í kirkjuna inn
með svo miklum seim,
fékk hann það í föðurarfinn
nafnið aftur í heim.
36.
Ólst hann upp í ríkinu
hjá kæru móður sín,
meyjar héldu honum á loft
sem væri hann heilagt skrín.
37.
Sveinninn út á leikvöll fer
með sína alla sveina
en þegar hann reiður er
þá stár til stórra meina.
38.
Töluðu þeir inir elstu sveinar,
er fram í leikinn fóru:
„Nær væri þér þíns föðurs hefna
en berja oss svo stórum.“
39.
Sveinninn burt af leikvöll fór
með sína kinn svo bleika
og svo gekk hann í hæga loft,
hirðir ei framar um leika.
40.
„Heyrðu það, mín kæra móðir,
spyrja vil eg þig:
Hvað varð mínum föður að bana?
Leyn því ekki mig.“
41.
„Þú skalt læra vel skot og sund
og stýra vel dönskum hesti,
þá mun eg það segja þér
á fjögra vintra fresti.“
42.
Vilhjálmur svarar sinni móður
svo vel sem hann kunni:
„Snemma vaxa ungum grísi
hvassar tennur í munni.“
43.
Aðallist sig að kistu gengur,
skortir hana ei fé,
blóðdregna tók þar skyrtuna
og lagði honum í kné.
44.
„Eg get ekki sannara
sagt þér heldur en svo,
það er hann Logi í Vallarhlíð
sem þinn föðurinn vó.“
45.
Til orða tók hann Vilhjálmur
við móðurbróður sinn:
„Hvað er nú að ráði hafa
þar reiður er hugurinn minn.“
46.
„Heyrðu það, ungi Vilhjálmur,
það er mér helst í vil
þú setjir þing um landið allt
og bjóðir mönnum til.“
47.
Hann lét boð senda og yfirganga
eins sem fært var skjótt
herra Loga á þing að stefna
bæði um dag og nótt.
48.
Til orða tók Logi í Vallarhlíð,
hann hélt á gylltum vendi:
Hví mun mér svo sterkleg koma
stefna og bréf að hendi?“
49.
Til orða tók hún systir hans,
fögur sem rós eður lilja:
„Hún hefur svein í leyndum alið,
hann mun hefna vilja.“
50.
Klæðir hann sig með skikkju
svo og með bjarta hringa,
svo reið Logi úr Vallarhlíð
að jörðin réð að springa.
51.
Svarar hann Logi í Vallarhlíð,
hann tekur svo mjög að hæða:
„Fyrir hví var mér hingað boðið
utan minn gangvara að mæða?“
52.
Til orða tók hann Vilhjálmur
við móðurbróður skyldan:
„Hvör er sá hinn mikli maður
sem situr með hjálminn gylltan?“
53.
„Eg get ekki sannara
sagt þér heldur en svo
að þetta er Logi í Vallarhlíð
er þinn föðurinn vó.“
54.
„Ekki hef eg of mikið
í föðurgjöldin mín
þótt þú mæðir, herra Logi,
gangvarana þín.“
55.
„Skyldur er eg kónginum
og mikið hef eg traust.
Heyr þú Vilhjálmur Vilhjálmsson,
þú hefur það bótalaust.“
56.
Það var hann ungi Vilhjálmur
er sverð úr slíðrum dró
og það var hans ið fyrsta högg,
höfuð frá hálsi hann sló.
57.
Nóg hafði hann malið gull
og svo brenndan seim
en móðurbróður á hægri hönd
og svo ríður hann heim.
58.
Heim hann kom fyrir sína móður
og síðan féll á kné:
„Nú hefi eg míns föðurs hefnt
en grætt mér gull og fé.“
59.
„Væri það nú með sanni satt
sem þú segir mér
öngvum skyldi eg í Danmörk halda
hærra hóf en þér.“
— Drósin dillaði þeim hún unni.