A 333 - Viðvörun og áminning til iðranar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 333 - Viðvörun og áminning til iðranar

Fyrsta ljóðlína:Í blæju eg einni er byrgður í mold
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sálmar
Viðvörun og áminning til iðranar
[Nótur]

1.
Í blæju eg einni er byrgður í mold,
bleika ásján hylur fold.
Hátt eigi undir höfði er,
hvítan lit að nárinn ber.
2.
Horfin er gjörvöll heimsins lyst,
hefi eg veraldar skrautið misst.
Sæng er mín sjö fóta löng,
sannliga djúp og harla þröng.
3.
Allir hugsi um efnið sitt
þá er þeir líta bólið mitt.
Slíkt fyrir höndum hvör mann á
hverfa skrauti í burtu frá.
4.
Held eg líkan heimsins prís
sem hús sé byggt á veikum ís.
Fyrir stormi síst að standa má
því sterk er ekki bygging sjá.
5.
Þenkta eg ekki á þennan deyð
því eg hafði öngva neyð.
Ormafæða er eg orðinn nú,
eigi mér reyndist veröldin trú.
6.
Þú sem gjörir Guði á mót
og göfgar hann eigi af hjartans rót
hugsar lítið hér upp á
þá hraustum fótum þú stendur á.
7.
Þú styggðir Guð í stórri þrá,
stigum hans þú lítt gekkst á.
Þola skaltu þunga neyð
þrýtur vini, kominn er deyð.
8.
Einn á holdi hjúpur er,
þú hefur ei meira góss með þér.
Þá mest þú treystir Mammon á
munt þú hverfa í burtu frá.
9.
Fram mun verða fyrir þig sett
það framdir þú með öngvan rétt.
Guði síst að gleymist það
sem gjörðir þú og hafðist að.
10.
Þú munt þá biðja að björg og fjöll
byrgi þig og hylji öll
svo ekki birtist breytni þín,
bera munt þú þá hryggð og pín.
11.
Höfðingjanna hylli og traust
horskar eigi mót Drottins raust.
Hafir þú ekki heiðrað Krist
hreppa muntu dauðans vist.
12.
Þó fyrir lýðum látist þú
lifa í alls kyns dyggð og trú
dýpt og hæð að Drottinn sér,
fyrir dómi hans ekkert hulið er.
13.
Allir rísa upp í senn
þá englalúður kallar menn.
Daprar standa dróttir þá
dómstóli Herrans allar hjá.
14.
Hreppa vondir harða neyð,
heljar mega ei öðlast deyð.
Í kulda og hita kveljast þrátt,
það kann ei þrotna dag eða nátt.
15.
Hinir sem bæði af hjarta og trú
heiðran veita Drottni nú
munu þá öðlast eilífa dýrð
sem aldri af mennskri tungu er skýrð.