Heyr mig dýrust Drottins frú | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heyr mig dýrust Drottins frú

Fyrsta ljóðlína:Heyr mig dýrust drottins frú
bls.240–242
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) fer- og fimmkvætt aaao
Viðm.ártal:≈ 1400–1550
Flokkur:Helgikvæði

Skýringar

Kvæðið er hér gefið út eftir útgáfu Jóns Helgasonar í Íslenzkum miðaldakvæðum en þar fer hann eftir aðalhandriti þess, AM 713 4to, s. 106–107. Önnur handrit kvæðisins eru frá því handriti komnar: AM 711a 4to, s. 1–14 (nákvæm afskrift Árna Magnússonar af AM 713 4to). Þá eru varðveittar samræmdar afskriftir gerðar af Steingrími Thorsteinssyni (AM 920 4to) og Páli Eggert Ólasyni (Lbs 2166 4to).
Kvæðið er makkaróniskt og er seinasta línan: "Omnes dicite salve regine".
Heyr mig dýrust drottins frú

1.
Heyr mig, dýrust drottins frú,
dásamligri er engi en þú,
vísur skal eg þér vanda nú.
Omnes dicite salve regine.
2.
Sjá þú til mín, signuð frú,
að syndir mætta eg forðast nú,
heiðra skal eg þig, hjartans brú.
Omnes dicite salue regine.
3.
Móðir guðs er mektugt sprund,
meyjan skær á alla lund,
heiðruð sértu á hverri stund.
Omnes dicite salve regine.
4.
Höldar skyldu heita á þig,
himna brúðurin vegsamlig,
þeir sem veikir verða af *sér.
Omnes dicite salve regine.
5.
Dugi þú oss en dýra frú,
drottins móður heiðrum nú
allir senn með ást og trú.
Omnes dicite salve regine.
6.
Vondir púkar vekja upp stríð,
ver þá nærri, drottning blíð,
dugi þú oss á dauðans tíð.
Omnes dicite salue regine.
7.
Fjandur munu þá flykkjast að,
fýsast mig að rífa í stað,
grimmum láttu ei *gagnast það.
Omnes dicite salve regine.
8.
Köllus mun þá kalla hátt
með kynstrafullum illsku mátt,
girndir mínar gjört hefi eg þrátt.
Omnes dicite salve regine.
9.
Skýl þú mér eð skæra víf,
skaparans móðir, eg geng í kíf,
signuð, geym þú sál og líf.
Omnes dicite salve regine.
10.
Skyldi hver með skaparans náð,
skær af þinni hæstri dáð,
gracia plena göfgast ráð.
Omnes dicite salve regine.
11.
Sagði engill, signuð, þér,
að sælust mundir fæða hér
dögling þann er dáðir lér.
Omnes dicite salve regine.
12.
Fór það rétt sem fregnast kann,
þú fæddir bæði guð og mann,
eð háleitasta heilsu rann.
Omnes dicite salve regine.
13.
Fekkstu enn æðsta fögnuð þá,
fínust ungfrú Máríá,
blessaður guð fyrir brjósti lá.
Omnes dicite salve regine.
14.
Kristur sjálfur og eð kærasta víf
komi til mín þá er endist líf,
hefi þitt fyrir mig heiður kíf.
Omnes dicite salve regine.
15.
Heilags anda höllin fín,
hjálpin öllum nær sé þín,
signuð Máríá sjái til mín.
Omnes dicite salve regine.
16.
Máttu þína miskunn hér,
Máríá drottning, sýna mér,
radix vite rann af þér.
Omnes dicite salve regine.
17.
Móðir drottins, mektug snót,
máttu oss öllum vinna bót,
hvers manns ertu hjálpar rót.
Omnes dicite salve regine.
18.
Hylli þína og hvers kyns dáð
hafa vilda eg með sætri náð,
dýrast ertu drottins ráð.
Omnes dicite salve regine.
19.
Mættum aldri mæðast á
miskunn þína og dýrð að tjá,
fegri ertu en sól að sjá.
Omnes dicite salve regine.
20.
Má eg því ekki, mærin, neitt
mæla um þig þó gæti beitt
tungunni eigi téðst það greitt.
Omnes dicite salve regine.
21.
Tál er mér að tala um þig,
tignar brúðurin *vegsamlig,
vani og syndir vefja mig.
Omnes dicite salve regine.
22.
Lífið mitt og lítið mál
legg eg þér og mína sál
að hún firrist bruna og bál.
Omnes dicite salve regine.
23.
Falla mun hér fræðastund,
farinn í burt úr minnis grund,
benedicta tu blessað sprund.
Omnes dicite salve regine.

4.3 sér] rímið er rangt og líklega er línan í heild eitthvað afbökuð [KE]
7.3 gagnast] < gangazt AM 713 4to [PEÓl]
21.2 vegsamlig] < uegsamsamlig AM 713 4to.
(Íslenzk miðaldakvæði II, bls. 240–242)