A 211 - Jesús heyr mig | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 211 - Jesús heyr mig

Fyrsta ljóðlína:Jesús, heyr mig fyrir þinn deyð
Viðm.ártal:≈ 0
Jesús heyr mig
[Nótur]

1.
Jesús, heyr mig fyrir þinn deyð,
Jesús, þyrm mér í þungri neyð,
stýr mér og stjórna aumum,
þú þekkir mitt geð, gaumgæf mína raust.
Gef mér af himinsins hæðum traust,
eg er nú staddur í raunum.
2.
Jesús, frels mig fyrir þína kvöl,
fjarlægt gjör þú allt syndaböl,
geym mína sál frá pínum.
Hagræð þú minni hjartans rót,
um hvað eg bið þig dag og nótt,
með öllum útvöldum þínum.
3.
Þeim sem þjóna þér ævi sín,
þig bið eg, Drottinn, snú til mín,
send mér ást þína sanna.
Leystu þinn lýð fyrir líknarbón,
líka útvega þeim eilíf laun,
sem þinn styrk æ vilja kanna.
4.
Án efa er eg einn af þeim,
sem vitja þín með hjartans kvein,
lát mig náð þína hljóta,
svo munnur minn ræði mjúkt þar um,
hvör hjálp af þér í heiminn kom,
mót synd og helvíti ljóta.
5.
Á öllu því oss kastast mót,
kröftuga vinnur þú hér á bót,
hvört það er meira eður minna.
Hvað sem líkaminn þarf og vor sál
veitir þú víst fyrir utan tál,
til allra munt þú svo inna.
6.
„Eg er sú sól sem ætíð skín,
beiskleik þínum bregð eg í vín
og í brunn sætleiksanda.
Hvað eg vil fremja á himni og jörð,
framkvæmir allt mitt helga orð,
þá tign gaf mér faðir til handa.
7.
Allar skepnur í heimi hér,
hljóta að öngvu verða fyrr
en nokkur þjóna minna,
sem trúa á mig með stöðugri von,
steypist í fárligt andar tjón,
fyrir sekt misgjörða sinna.
8.
Gangi nokkur í glæpabann,
svo Guð föður afræki hann,
sá býr sér bölvan stranga,
hverfi þá til mín með hraustri trú,
af hörmung vil eg hann leysa nú,
Guðs hylli skal hann víst fanga.
9.
En hvör sem mér vill mæla mót,
mæta fær aldri sálar bót,
Guðs bræði skal þeim tapa,
sem hæða mitt háleita orð,
hættlig þann grípur bölvan hörð,
af himni mun hann og hrapa.
10.
Því ræð eg öllum raunar hér,
þeir reki mitt orð ei frá sér,
heldur í heiðri haldi
og hirði það í hjartans þel,
hvað mínum börnum hæfir vel,
því ráði gleymið rétt aldri.“
11.
Svo deyðir Jesús djöfla mátt,
dapra af dauða reisir brátt,
dauðinn má honum víkja,
hann er mannanna mjúkust björg,
sem mæðast hart í heimsins sorg,
og einn Herra himnaríkja.