A 103 - Annar lofsöngur um heilaga þrenning og hennar verk | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 103 - Annar lofsöngur um heilaga þrenning og hennar verk

Fyrsta ljóðlína:Sannheilagt ljós, samjöfn þrenning
bls.Bl. LXIIIJr-v
Bragarháttur:Hymnalag: aukin stafhenda
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sálmar
Annar lofsöngur um heilaga þrenning og hennar verk
Má syngja eins og: Halt oss, Guð, við þitt helga orð

1.
Sannheilagt ljós, samjöfn þrenning
í sjálfri veru guðleg eining,
þú gjörir hjá oss guðleg verk,
glöggt sýnandi þinn almátt og styrk.
2.
Himinn og jörð og hafið vítt,
herma oss kraft og veldi þitt,
dalir og fjöll því dylja síst,
Drottinn ert þú yfir öllum víst.
3.
Sólin um gengur sérhvörn dag,
svo tungl þó hafi annað lag,
stjörnur í hlýðni halda sig,
Herra eilífan þær sanna þig.
4.
Dýr og fuglar um loft og jörð,
allt hvað í sjónum hefur ferð,
með kost og eðli kenna að sjá,
að kraftur og viska þín sé há.
5.
Þú hefur himin út þanið vítt,
þakið með vatni efra hitt,
um jörð gengur hann allt í kring,
ókyrran settir þennan hring.
6.
Þú styður, prýðir, stjórnar rétt,
stendur svo allt sem hefur sett,
svo dásamliga að enginn mann
útskýra það né skoða kann.
7.
Hvörsu megum þá veikir vér,
visku þína rannsaka hér,
um skepnur sem vér skoðum þrátt
skynja kunnum vér harla fátt.
8.
Vér sjáum hún* er sköpuð skýr,
skilvís, hrein mörg,* þörf og dýr,
ó, hvað dýrðligri Drottinn ert,
dyggð hennar hefur þú alla gjört.
9.
Í þinni hendi er himinn og jörð,
hvör kann að segja þína dýrð,
mjög dásamlig er öll þín stjórn,
eilífan játum þig Herra vorn.
10.
Faðir, sonur og andi hreinn,
eilífur Guð í þrenning einn,
af hjarta lofum allir þig.
Amen syngi nú hvör um sig.

8.1 Með „hún“ í fyrstu línunni er átt við „skepnuna,“ þ.e. dýrin, en skepnan er sköpuð skýr, skilvís, hrein mörg, þörf og dýr. (Mörg skepnan er hrein).
*Í 8.2 virðist standa „mörg“ (nokkuð máð) en það stendur líka í 1619, greinilega (með gegnumstrikuðu „ö“).