Ár og síð mig í þann munað þyrsti | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ár og síð mig í þann munað þyrsti

Fyrsta ljóðlína:Ár og síð mig í þann munað þyrsti
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Prestbústaður var reistur á Bæ  í Bæjarsveit fyrir Hvanneyrarprestakall en nýi presturinn vildi endilega sitja á Hvanneyri en ekki Bæ. Var sú tilhögun samþykkt á þeim forsendum að prestur ætti meira andllegt samfélag meðal háskólaborgara á Hvanneyri en bænda og bifvélavirkja í Bæ. Orti þá Jakob þetta ljóð: 

1.
Ár og síð mig í þann munað þyrsti
að eiga heima í flokki tignarmanna.
Ég skil ei þennan kjánaskap í Kristi
að kjósa frekar samfylgd smælingjanna.
2.
Svo nái ég óskir almúgans að stilla
ég ætla í turni fílabeins að dúsa
þó að vitin þráfalt muni fylla
þungur ilmur refa- og pútnahúsa.
3.
Mér er ljóst að æviárin líða
og eflaust slitna mínar gullnu fjaðrir.
Það veldur mér svo voðalegum kvíða
að verða að hvíla í sömu mold og aðrir.
4.
Ég vona það, er hallar hinsta degi,
að himnakóngur reyni í sínum önnum
að skipa málum svo minn andi eigi
ávallt vist með fínum hefðarmönnum.