Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Nokkur örnefni á Tindastól að austan | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nokkur örnefni á Tindastól að austan

Fyrsta ljóðlína:Upp af Skoru ógöngum
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Upp af Skoru ógöngum
um mig lít í kringum.
Rétt á miðjum Mannsásnum
mæti Laxdælingum.
2.
Út fyrir Stólinn ein er skeið
sem auðvelt er að rata.
Heldur er það hættuleið,
heitir Tæpagata.
3.
Út í Skorur ein er skeið
er 'ana hægt að ganga.
Finnst þó mörgum för ógreið
fyrir Klettadranga.
4.
Graslendi þó lítið sé
leynist kjarni í högum.
Oft hefur gengið af þar fé
enn á vorum dögum.
5.
Mörg eru falleg fjöllin hér
flest á græna kjólnum.
Kúatorfa að austan er,
ystu grös í Stólnum.
6.
Þar er engin gata greið,
gætni má ei spara.
Sandagjárnar síst er leið
sem ég vildi fara.
7.
Skil ég þá við Skorurnar
skammt frá Urðarhólnum.
Ysta greni er einnig þar
í austanverðum Stólnum.
8.
Oft hef lúinn átt þar ról,
af ýmsum bratta kynni.
Tröllagreiða á Tindastól
týnist varla að sinni.
9.
Fagradalinn hylur hér
Hrútatóarfjallið.
Landsendinn, sem lægstur er,
laus við skriðufallið.
10.
Litlu norðar Landsenda
leiðina þá við könnum.
Illagil er ófæra
öllum göngumönnum.
11.
Þettað hef ég séð of seint
sem í hugann flýgur.
Illagili upp af beint
Efri- og Neðri-stígur.
12.
Af Landsenda á Langahrygg
leiðir ótal farnar.
Upp af honum að ég hygg
eru Smáskálarnar.
13.
Talsvert ofar Tröllaskál
tindunum undir háu.
Er það allra manna mál
að mold þar aldrei sáu.
14.
Í þeim fagra fjallasal
flest þar margt að kynna.
Eru á Mjóa- og Urðar-dal
ótal greni að finna.
15.
Eg er staddur á Grenhól
enn í bætist safnið.
Einhver tófa átt þar ból,
af því dregið nafnið.
16.
Geng ég þá í Grenhólslaut,
grasi vafin er 'ún.
Fénaður þar nægta naut,
nafn af hólnum ber 'ún.
17.
Úr Lækjarskál um Lækjarhlíð
lækjar rennur spræna.
Uppsprettu frá elstu tíð
unir hlíðin græna.
18.
Legg ég þá frá Lækjarhlíð,
lengra trú ég atli.
Finnst mér þessi för óblíð
fram hjá Djúpakatli.
19.
Tveir hraunkarlar kunnir þar,
hvorugur sýnist glaður.
Ekki fríðir ásýndar
Efri- og Neðri-maður.
20.
Fyrir ofan Efrimann
er Grenskál að finna.
Felustaðinn fallegan
finnst mér rétt að kynna.
21.
Árdags- bæði og aftan-sól
á ennar glansar húfu.
Torsótt er á Tindastól
til Dagmálaþúfu.
22.
Upp frá Reykjum ein er leið
yfir Stól með hesta.
Hvergi má um klungrin breið
kunnugleika bresta.
23.
Um það geta einnig skal
og í letur færa:
Rennur fram úr Reykjadal
Reykjaáin tæra.
24.
Rétt sunnan við Reykjaá
rís Sandfellið háa.
Engan gróður í því sá,
aðeins grjótið smáa.
25.
Í fjallgöngum undir spreng
oft eru karlar lúnir.
Af Sandfelli síðan geng
suður á Mýrabrúnir.
26.
Í smáfossunum fellur á
fram af Mýrabrúnum.
Mun sú kölluð Mjólkurá
meðfram Hólkotstúnum.
27.
Þó að víða geti ég greint
götur mýrar hálar
er þó leiðin ætluð beint
upp í Rjúpnaskálar.
28.
Hólkots- gráa hyrnan er
háreist á að líta.
Helst hún þá á höfði ber
húfu dável hvíta.
29.
Síðan held í sólarátt
sem að flestir velja.
Af örnefnum finn ég fátt
fyrir mig að telja.
30.
Hólakots- ég held á dal
sem haga litla geymir.
Úr honum um aldatal
á í fossum streymir.
31.
Kallaður Maður sterkur steinn,
stór í öllum sniðum.
Uppi stendur alveg beinn
í Fagranesskriðum.
32.
Úr Skriðunum flýti ferð
fram á Nautastalla.
Er þó gatan illa gerð
yfirleitt að kalla.
33.
Áfram halda upp ég skal
um þó næði búkinn.
Fyrir norðan Fagranesdal
finn ég Klukkuhnjúkinn.
34.
Fagranes ég fer að á,
fellur hún út í sæinn.
Rétt um leið og rennur hjá
raflýsir hún bæinn.
35.
Öllu verður að að gá
í því hættuspili,
þegar ánni fer ég frá
fram að Svartagili.
36.
Óðum fækka örnefnin
er ég vildi nefna.
Mun ég því að Manndrápskinn
mínum huga stefna.
37.
Nokkru sunnar sérðu þá
Seta ef viltu kynna.
Upp frá honum halda má
Hripin til að finna.
38.
Oft hefur tófa átt þar ból,
illt er þar að vinna.
Kalla má að körlum skjól
hvergi sé að finna.
39.
Sit ég einn á Sjónarhól,
sé um Stólinn víða.
Margoft hefur morgunsól
mátt hans fegurð prýða.
40.
Eg hef lifað árin sex
undir Stólsins vanga.
Alltaf mér í augum vex,
öll sú bratta ganga.
41.
Aldrei hefur orðið stans,
er hún þó margbrotin.
Enn í botni Innstalands
er nú leiðin þrotin.