A 06 - Nær fólk gár til sakramentum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 06 - Nær fólk gár til sakramentum

Fyrsta ljóðlína:Jesús Kristus er vor frelsari,
bls.12–14
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Sálmur þessi er þýðing sálmsins, Jesus Christus, nostra salus, sem bæheimski siðskiptamaðurinn, Jan Hus, (Jóhann Húss, 1372–1415) er sagður hafa ort. Sálmurinn var í hávegum hafður áður en Lúther þýddi hann og umorti 1524, „Jesus Christus unser Heiland“. Varð hann einn af mikilvægustu sálmum siðskiptatímans. Gísli Jónsson þýddi sálminn úr dönsku, eftir Sálmabók Christian Pedersens 1533. Sálmurinn er í annarri þýðingu í Sálmabók 1589 (nr. 139) og Graduale 1594. Hélst hann síðan í þeirri mynd í messusöngsbókum til 1801 er hann féll niður. Hann var tekinn upp að nýju í Sálmabók 1972 í nýrri þýðingu Sigurbjörns biskups Einarssonar, Jesús Kristur lífsins ljómi, nr. 314 í Sálmabók 2022.


Nær fólk gár til sakramentum


1.
Jesús Kristus er vor frelsari,
sem frá oss tók Guðs föðurs reiði,
með sinni pínu og helgum deyð
leysti hann oss frá helvítis neyð.
2.
Að vér aldrei skulum því gleyma,
gaf hann oss að eta sinn líkama,
sem hulinn er undir brauðs ásýn,
og að drekka sitt blóð í vín.
3.
Hver af þessari fæðu vill eta,
hann skal sínum syndum ei forgeta,
hver óverðugur hér til gár
fyrir lífið eilífan dauða hann fár.
4.
Því skaltu Guð föður heiðra,
að hann þig svo vel vildi næra
og fyrir þinna synda lyst
sinn son hefur hann gefið í dauðann víst.
5.
Þú skalt hafa staðfasta trú,
svo fær þú bæði miskunn og ró,
í þessari fæðu sem hann þér gaf
til miskunnar og synda lausnar af.
6.
Hann segir sjálfur: Komi þér aumir,
eg vil mína miskunn veita yður,
væri þér ei fallnir í synda sið
þá þyrftu þér einskis læknis við.
7.
Viltu laun af verkum þínum fanga
í himerík fyrir þau inn ganga,
þá er mín pína til einskis hér
því þú þykist hjálpa sjálfur þér.
8.
Ef þú trúir af hjartans grunni
og viðkennist með þínum munni,
þá ertu réttliga skikkaður
og þessi fæða þinn sálar matur.
9.
Þennan ávöxt hlýtur þú að bera,
þína jafnkristna skaltu heiðra,
hjálpa þeim með góss og ráð
ef þú vilt af Guði þiggja náð.


Athugagreinar

3.2 forgeta: gleyma.