Útúrdúrar (upp úr Ferðalýsingum) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Útúrdúrar (upp úr Ferðalýsingum)

Fyrsta ljóðlína:Ég hvata minni fótaferð
bls.308
Bragarháttur:Tvöföld ferskeytla með forlið
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915
I.
Eg hvata minni fótaferð
með fyrstu bæjasmölum,
og bregst við „hó“, að hjörðum gerð,
og hófaslátt í dölum,
og þeysi í flokk þinn, hól af hól –
en húm er alt á flótta,
er upp á Málmey sumarsól
í söðul lyftir ótta.

Í farir, um in fornu vé,
til fylgdar við þig stokkinn –
en engin hætta ætla, að sé
þó yrki svona á flokkinn:
að nokkur leggi hönd í hné,
í hljóminn niðursokkinn –
hann afi kvað við kvíafé,
og konan hans við – rokkinn!

II.
Eg dylst ei þess, hvað dregur mig
Að dásemd þessa fjarðar:
Mér fræðin kendi ’ann fyrst á sig:
Um fegurð vorrar jarðar.
Og hafi eg nokkuð síðan séð,
er sjónar kallist virði,
eg veit, það eygði andi, geð,
og augu úr Skagafirði.

Í móður-sveit, við möl og stein,
sé mela-svörður grunnur,
og finnist okkur bert um bein,
og brjóstadúkur þunnur,
í þúsund ár hún óf og sneið
upp alt í spjarir lýða,
og allan tímann biðlynd beið
sín brúðarklæði að sníða.

III.
Nú hef’ eg einlægt á þig hlýtt,
og alltaf farið lötur
í þinni fylgd, um fornt og nýtt,
og fundist skammar götur!
Já, víst er hýrlegt heimkynnið,
frá heiðum út til stranda,
sem héðan blasir, Vatnsskarð við –
en við þarf eg að standa.

Eg geng ei vina götu hjá,
þó gróin sé í velli.
Í Hrafnagili Huld eg á
og Hyndlu í Móðarsfelli,
í Gýgjafossi gýg, sem slær
svo glatt við komu mína,
að hverjum lit og hljóm ’ún nær
í hörpustrengi sína.

Svo hérna skil eg þá við þig.
haf þökk! og sæll, á meðan –
í tröllahöndum tel ei mig,
þó tefjist för mín héðan,
því kannske mór sé berja-blár,
og brúðberg angi á melum,
á fornum tóftum Baldurs-brár –
eg bíð, og mig fer vel um.

En fáðu leiði, um grund og grjót,
til góðra heimsiglinga,
og vertu Íslands vegabót
til Vestur-Íslendinga.
Og eigðu seinna ferð um fjöll,
um fjörð og sveitir breiðar,
þá vitar blossa um annes öll
og arinskíði um heiðar.