Áin | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Áin

Fyrsta ljóðlína:Ég lagði ungur ást á þig
bls.365–369
Bragarháttur:Tvöföld ferskeytla með forlið
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Ég lagði ungur ást við þig,
mín áin, héraðsprýði!
Og enn til ljóða laðar mig
þín lygna og straumur þýði.
Þó sveitarstíg þú styttir minnst
og stundum snúir frá mér
ég gæti um eilífð, að mér finnst,
því eirt að búa hjá þér!
2.
Þín vagga er þar sem gljúfur gín
hjá grettum jökulhausum.
Ég þekki efstu upptök þín
í afdal ræktarlausum,
þar oft á sól og sumri er þurrð
og söngur aldrei vakinn –
þú lærðir gang í leir og urð
og leikfang þitt var klakinn.
3.
Þú söngst þig framgjörn út og inn
um eyðivegu tóma.
In eina rödd var rómur þinn
í ríki fenntra hljóma.
Þú rannst af fjalli, fleygðir þér
í foss af hengistöllum.
Og nafn sitt af þér byggðin ber
og ból í dalnum öllum.
4.
Og af þér tekur svip á sig
öll sveitin mín og þjóðin.
Og þú hefur fýst og fjörgað mig
og fóstrað, þú og ljóðin.
Sé stærra hafsins straumavald,
sé stirndur himinn fegri,
þá ertu samt mitt uppáhald
og öllu skemmtilegri.
5.
Ég ann þér fjalls og fjarða hnoss
með flaum og grunnstraum tærum
sem jafn vel kannt að falla í foss
og fljóta í lygnum værum!
Og lykkjum þínum leiðum á
– sem leiðast sumra hugum –
ég aldrei gekk með græsku frá
né gramdist þínum bugum.
6.
Því marga fegurð leiddu í ljós
þín löngu nes og grandar.
Hér áttu veg að eyrarrós
að ungvið þarna handar.
Um flæðilönd þú líður væð
í léttum straum og grynnist.
Í brunahrauni ertu æð,
sú eina er slær, svo finnist.
7.
Þú speglar bakka, björg og fit
um bjarta sumardaga
og sýnir jarðveg, lag og lit,
svo leir þarf ei að kaga.
Þú býrð þig ei þeim huliðshjúp
að hjá þér sneiða vilji
þó eigir nokkur dulin djúp
og dökka rökkurhylji.
8.
Um dagsmörk sum þar djúp-sýnt var,
svo dvel ég við og kanna,
hvort gröfin Atla er undir þar
og arfur Niflunganna.
Því jafnvel yndið í því felst
á orku mína að reyni –
og fiska dregið hef eg helst
úr hyljum undan steini.
9.
Og drýgra er þín djúpu mið
og djarfmannlegra að reyna
en brotin tær að tefjast við
og telja í botni steina.
Og rödd þín, á, þó hvísli hljótt
í hylsins rökkurflóði –
ég fann þar sorta af svarta-nótt
og sólskin dýpst í ljóði.
10.
Sé jökulfjallið fremra þér
sem freðinn listadraumur
í þínum bárum annað er
og æðra, líf og straumur.
Á sund þín vær og straumföll ströng
að stara ég ei þreytist,
sem skipta kannt um svip og söng,
þér sjálfri lík þó breytist.
11.
En allra síst þú átt við mig
– Þó allt sé gljátt og skafið –
er vetur hefur heflað þig
í hálasvell og vafið.
Ég hló er sá þig hrökkva af stað
með hrannir jakabrota –
en hvernig vissir þú um það
að þá var skammt til blota?
12.
Og loks er hafðir losað þig
þú lagðist söm og áður
svo tær og hrein í hroðinn stig
sem heiðblár silkiþráður –
sem hugsun stór og sterk og frjáls
sem styrkir mig og gleður
en brýst í rofum ríms og máls
og röngum stuðlum hleður.
13.
Ég læknum ann, en ei sem þér,
þó alfær sé og tærri.
Ég veit hans söngur indæll er,
hann á þó raddir færri.
Hann kveður sætt við bakkablóm,
sem blöskra hljóðin snörpu,
en kemst ei upp í öllum róm
með einum streng á hörpu.
14.
Svo komdu hiklaus, farðu frjáls
um fjörðinn vel og lengi,
með skugga-fylgsni óss og áls,
með iður foss og strengi,
með hlíð og bala á bæði lönd
og bæja túnin gróin!
Og við skulum leiðast hönd í hönd
um hérað, út í sjóinn.