Hríslan og lækurinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hríslan og lækurinn

Fyrsta ljóðlína:Gott átt þú, hrísla á grænum bala
Höfundur:Páll Ólafsson
bls.87–88
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Gott átt þú, hrísla á grænum bala
glöðum að hlýða lækjarnið.
Þið megið saman aldur ala,
unnast og sjást og talast við.
Það slítur aldrei ykkar fundi,
indæl þig svæfa ljóðin hans.
Vekja þig æ af blíðum blundi
brennandi kossar unnustans.
2.
Svo þegar hnígur sól til fjalla,
sveigir þú niður limarnar
og lætur á kvöldin laufblað falla
í lækinn honum til ununar.
Hvíslar þá lækjar bláa buna
og brosandi kyssir laufið þitt:
„Þig skal ég ætíð, ætíð muna,
ástríka blíða hjartað mitt!“
3.
Þið grátið fögrum gleðitárum
glaða morgna, þá sólin rís,
vitið ei hót af harmi sárum,
haldið þið séuð í Paradís.
Þið hafið ei reynt að syrgja og sakna
þá sérhver gleði í harma snýst,
grátin að sofna, vonlaus vakna,
vetur og dauða þekkið sízt.