Þorsteins rímur á Stokkseyri – Fyrri ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þorsteins rímur á Stokkseyri 1

Þorsteins rímur á Stokkseyri – Fyrri ríma

ÞORSTEINS RÍMUR Á STOKKSEYRI
Fyrsta ljóðlína:Brunni einum bar mig að
bls.137–139
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1400–1550
Flokkur:Rímur
1.
Brunni einum bar mig að,
burtu sá ég renna
Viðris bland og var ég þó það
vísu listir að kenna.
2.
Var þar fyrr hin vonda pín,
vildi hún mig blekkja,
grimmlega frá ég hún gekk til mín,
gleðinni mun það hnekkja.
3.
Ljótum hörmum linna skal,
lítið trúi ég dofni,
vér eflum heldur annað tal
upp af kvæða stofni.
4.
Á Stokkseyri bjó stillir framur,
sterkur, Þorbjörn heitir,
sá var rekkurinn rómu tamur,
Rögnis eldi beitir.
5.
Þóra hét hin þrifna frú,
það trúi ég letrið vinni,
festi hann þessa falda brú
fleina lundurinn svinni.
6.
Átti hann son við auðar Ná,
ýtum segi ég það kátum,
Þorsteinn heitir þegninn sá
þeygi dæll í látum.
7.
Faðirinn vildi fróma hann,
frægð og listir kenna,
sætan ungum sveini ann,
síðar má hann þó menna.
8.
Sá man fæða fálu blakk
fleygir nöðru stála,
laufa Týr á langan hnakk
leggst í eldaskála.
9.
Þangað gengur Þorbjörn einn,
þegninn talar af pínu,
þar sem liggur hinn ljúfi sveinn
á langa hnakki sínum.
10.
„Þitt er æðið þursum líkt,“
Þorbjörn réð svo inna,
„líst mér betra að leggja af slíkt
með lýði sigur að vinna.“
11.
„Aldrei fer ég í fleina fár
fleðju sár að þiggja,
heldur skal ég um hundrað ár
hér við eldinn liggja.“
12.
„Þá ertu burt úr þinni ætt,“
Þorbjörn réð svo inna,
„ekki fær þú orða gætt
og er þín lítil sinna.“
13.
Þorsteinn hefur svo þungan móð,
þegna vill hann reita,
einatt gjörir hann ösku og glóð
upp á föður sinn þveita.
14.
Bóndinn þaðan í burtu snýr,
bragna trúi ég þess minni,
branda sendir bauga Týr
beint af hendi sinni.
15.
Seggurinn hittir sína kvon,
svarar með sorgar klúti:
„Eigum við okkur æran son
í eldaskálanum úti?“
16.
„Það er minn hugur,“ kvað hringa slóð,
„hreysti garpur hinn mildi
hann muni vörgum veita blóð
og vekja marga hildi.“
17.
Heldur tók þá hyggju að sjá
hreytir Ofnis fitja,
aldrei gjörði oftar þá
í eldaskálann vitja.
18.
Fátt um næsta feðga tal
frá ég svo verða að bíða,
hitt er greint að heiman skal
horski bóndinn ríða.
19.
Honum er boðið í Hítardal,
hreyti Ofnis stræta,
kappinn þar eð kanna skal
krúsar vínið mæta.
20.
Feðga kveðja er furðu greið,
flest allt verður að inna,
bragna sveit með bónda reið
boðinu vildu sinna.
21.
Eitt sinn frá ég út á sam
ýtar sjá og heyri
sterkan sigla strengja gamm,
stefna fram að Eyri.
22.
Ótti sveif þeim öllum senn,
ekki þorðu að bíða,
ýtar kváðu ófriðs menn
ætla á land að stríða.
23.
Reiði svellur rekknum þeim,
réð svo Þorsteinn spjalla:
„Bragnar þeir er beigluðu heim,
bleyður skal þá kalla!“
24.
„Þó ýtar höggvi unda sker
aldrei skal ég þó kveina!“
Garpurinn þreif, sem greint var mér,
gríðar fálu eina.
25.
Kallar þegar hann kugginn leit
hver köppum ráða mátti,
Bárður hinn hvíti bylgju reit
björtum stýra átti.
26.
„Á Indíalandi er ættfólk mitt,
allt skal greina af létta,
nú vil ég heyra heitið þitt,
hreytir nöðru stétta!“


Athugagreinar

Haukur Þorgeirsson sló inn eftir útgáfu Jóns Þorkelssonar. Stafsetning er hér samræmd til nútímahorfs. Aðeins eru varðveittar fyrstu 26 vísur rímunnar. Handritið er Hólsbók (AM 603 4to).
10.1 æðið] leiðrétting Jóns Þorkelssonar, hdr. æðis