Þorkell þunni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þorkell þunni

Fyrsta ljóðlína:Friðar biðjum Þorkeli þunna,
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) ferkvætt AABB
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:213–215
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Kvæðið mun samið á árunum 1844–1845.
1.
Friðar biðjum Þorkeli þunna,
þagnar er hann sestur við brunna;
óskemmtileg ævi mun vera,
ekkert sér til frægðar að gera.
2.
Fyrrum hann í söngmannasessi
sagt er að gæti tekið á versi,
hábeljandi glumdi við gleði,
golufylltur naumast sér réði.
3.
Uppstigningar æðstum á degi
engin von er söngmaður þegi.
Hermdu, Bragi! höfðingi ljóða:
hvernig gekk þá „Skrímslinu góða“?
4.
Að er komið útgöngusálmi;
eins var það sem gneistar í hálmi,
þegar rauðum þeytir upp glóðum:
Þorkell verður allur að hljóðum.
5.
Hausinn upp að kórstaf hann keyrir,
kúgast, svo úr nefinu dreyrir,
úr sér másar óskaparoku,
álíkt dimmri leirhverastroku.
6.
Eins og þegar flugdrekar forðum
fleyttu um loftið glóandi sporðum,
skyggðu fyrir sólina sælu,
sátu menn í gjörningabrælu;
7.
svo var inn í kórnum að kalla;
kreppist hý á öldruðum skalla;
sumir hættu sjálfir að drynja,
sumir fóru að emja og stynja.
8.
Allir sneru augum frá jörðu,
upp í rjáfrið grátandi störðu;
skalf og sveigðist þakið útþanda
Þorkels fyrir losnuðum anda.
9.
Geggjast allur guðsorðalestur,
á grátunum tvístígur prestur,
hleypir nú í hempuna vindi,
hrökkur út úr kirkjunni í skyndi.
10.
Í sama bili er sálmurinn búinn,
situr Keli móður og lúinn;
öllum finnst sem eitthvað sig dreymi,
aldrei meiri þögn varð í heimi.
11.
Djákni fyrstur raknar úr roti,
rann sem mús úr nauðungarskoti,
fær sér bók og hættir að hrína,
herðir sig með bænina sína.
12.
En á meðan út er að klykkja,
á er komin söguna lykkja:
Þorkell æpir: „hættu að hringja!
hef ég ekki lof til að syngja?“
13.
Að svo mæltu aftur hann byrjar,
upp og niður gengur og kyrjar;
flýr þá, eins og fæturnir toga,
fólk, sem stæði kirkjan í loga.
14.
Seinna var hann sóttur í kórinn
(svartur var þá á honum bjórinn)
örendur og oltinn á hnakkann –
á útgönguversinu sprakk hann.