Kvæði um laussinni ungra manna | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði um laussinni ungra manna

Fyrsta ljóðlína:Góði vinur gættu’ að því
bls.219–221
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Vikivakar

Skýringar

Í Íslenzkir vikivakar og vikivakakvæði er kvæðið prentað eftir Thott 473 4to, bl. 125–126, sem er eiginhandarrit Bjarna Gissurarsonar.
Margur gengur gólfið á
að gamni sín;
ekki vildi’ eg angra þá
í orðum mín.
1.
Góði vinur gættu’ að því
og gleymdu’ ei ráði mínu,
hvar þú festir huganum í
hýra ástarlínu
og ásetur með frelsi’ og frí
fljóði blíðu þér að ná.
> Margur gengur gólfið á,
haltu fast við hugarins bý
hringa mætri lín.
> Ekki vildi’ eg angra þá
> í orðunum mín.
2.
Vífin stundum verða blekkt
af vélum ungra sveina;
þeir lofa stundum furðu frekt,
fær það mörg að reyna;
yndishjal er ógurlegt
svo af þeim mega þeir varla sjá,
> Margur gengur gólfið á,
fyrirsjón og mauramekt
mikið hrósa sín.
> Ekki vildi’ eg angra þá
> í orðunum mín.
3.
Bréfin senda breytilig
brúðarefni heima:
Eilífur guð svo eigi mig,
aldrei skal eg þér gleyma,
sálin hreppi heljarstig
ef huganum sný eg þér í frá;
> Margur gengur gólfið á,
af öllum sá eg eina þig
sem elskar, hindin mín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
4.
Handlags öl og brúðkaups brjál
brjótast um að kaupa,
hnífa, spæni, horn og skál
og hópinn drykkjustaupa;
leggja þá við sína sál:
Á sunnudaginn skal eg þér ná.
> Margur gengur gólfið á.
Allt skal halda utan tál
við unga baugalín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
5.
Kögrið, lín og klæðið smátt
kaupa svanna þýðum,
honum lýta finna fátt
hjá fögrum silkihlíðum.
Dálætið um dag og nátt
deyfa engin skepna má.
> Margur gengur gólfið á.
Óvit strangt og hryggðarhátt
hitta’ ef skilja að sýn.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
6.
Boðin koma í brúðarstað
að búa til hús og lýði,
osta, brauð og annað það
sem ölföngunum hlýði,
líka’ að brytja lömb í spað
og láta sviðin jukkið fá.
> Margur gengur gólfið á.
Allt er gjört sem biðillinn bað,
búin er hrundin fín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
7.
Nú sem búin veislan var
og veigalín skal festa
þá er kvisað hér og hvar
hann muni vilja fresta.
Aðrir segja ekki par
af honum muni snótin fá.
> Margur gengur gólfið á.
Hann vill burtu halda snar
með herríngslætin (!) sín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
8.
Upp er brugðið allri trú,
ekki villl hann líta
auganu vinstra öllu nú
auðargefni hvíta.
Niðrar þanninn baugabrú
að bæði sé hún heimsk og þrá,
> Margur gengur gólfið á –
rækslulaus um bæ og bú,
börn og eigu sín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
9.
Síðan reytir af henni allt
það áður gaf hann svanna.
Hefir *hún eftir háðið kalt
og hrópið vondra manna:
býst hann fljótt með brúkið snjallt
að blekkja aðra gullhlaðsná.
> Margur gengur gólfið á.
Þeirri yndið verður valt
sem veitir honum blíðu sín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.
10.
Varastu að verði þér
vonsku bragðið þetta,
rausnarlítið líst það mér
laukaskorð að pretta,
þá sem góð og einföld er,
ekki kann við brögðin flá.
> Margur gengur gólfið á.
Sig mun vanda seggur hver,
sagt hefi’ eg ráðin mín.
> Ekki vildi’ eg angra þig
> í orðunum mín.


Athugagreinar

*hann í handriti.