Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Þjóðminningardagssöngvar í Reykjavík I. (2. ágúst 1902) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þjóðminningardagssöngvar í Reykjavík I. (2. ágúst 1902)

Fyrsta ljóðlína:Oft minnast þín, Ísland, á erlendri slóð
bls.266
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1897
Oft minnast þín, Ísland, á erlendri slóð 
þeir arfar er fjarvistum dvelja 
og saknandi kveða sín landmuna ljóð 
og ljúfan þér minnisdag velja; 
þó milli sé úthafsins ómælis röst,
þú ei hefur sleppt þeim, þín tök eru föst. 

Mun oss þá, er ættjarðar búum við brjóst, 
ei blóðið til skyldunnar renna? 
Því hvar mundu eldar svo hreint og svo ljóst, 
sem heimlands á örnunum brenna?
Hér blasa þau við oss, þau bólin vor, 
þar börn höfum leikið og fyrst stigið spor.

Sjá, himinn og grundin og girðandi sær 
og gnípur og vötnin er streyma, 
og túnin og bærinn og tindarnir fjær 
allt tjáir: "Hér eigið þið heima". 
Oss fætt hefir land þetta, fóstrað og nært, 
það framvegis byggjum og oss er það kært. 

Það vitum vér einnig að arf hlutum þann 
sem eigum vér sjálfir, ei aðrir; 
vort eigið, sem gott er, víst gagnast oss kann, 
því girnumst ei lánaðar fjaðrir; 
en virðum vort þjóðerni, og vörðum vort ég 
í veikleika sterkir, þó auðnan sé treg. 

Ei nægir að slíkt hljómi á munni hvers manns;
vorn móð og vorn kjark skulum brýna.
Að vér séum brotnir af bergi vors lands, 
það ber oss í verkinu að sýna. 
Já, verjum þess sóma og hefjum þess hag, 
þá höldum vér réttlega þess og vorn dag. 

Ó, styrkist til hauðurs vors tryggðanna taug 
og tjáð verði í reyndinni skýrast, 
að hugð fylgdi málinu' og munnur ei laug 
sem móðurjörð heitið vann dýrast.
Vort fornaldar, nútíðar, framtíðar láð, 
þú farsælt þá verður í lengd og bráð.