Jólaskemmtun 1875 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Jólaskemmtun 1875

Fyrsta ljóðlína:Þá stjörnur himna stíga dans
Bragarháttur:Tvöföld ferskeytla með forlið
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1875
1.
Þá stjörnur himna stíga dans
á stystum vetrar dögum,
vér sendum hugann f yrst til hans,
sem heimsins ræður lögum,
og síðan hart í söng og glaum
vér sveiflum vorum anda
að skoða gegnum skálda draum
hvar skuggar lífsins standa.
2.
Nú hvílist rjúpa á hvítri sæng
á heiðum norðursala,
og lóan ekki veifar væng
á víðum engjum dala.
Nú sefur blómið sætt í mold
og sólargeislann dreymir,
og Drottinn vora fósturfold
í frostahjúpi geymir.
3.
En hjörtum vorum ávallt í
er andans ljósið vakið,
og vonin alltaf verður ný,
það verður aldrei hrakið;
og alltaf himinsólin slær
í sálir vorar niður,
og henni enginn haggar blær,
því hún er líf og friður.
4.
Því sitjið allir heilir hér,
sem heiðrið skemmtan góða!
Á þessum tíma unnt ei er
nú annað fram að bjóða.
Í sæluvon með söng og glaum
vér sveiflum vorum anda
að skoða gegnum skálda draum
hvar skuggar lífsins standa.