Bjarni Thórarensen | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Bjarni Thórarensen

Fyrsta ljóðlína:Eg stóð þar einn – eg stóð með dapra lundu
bls.416–419
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1869
1.
Eg stóð þar einn — eg stóð með dapra lundu
>þar sem býr í faðmi fold,
>fölnaður und kaldri mold,
sá er heitast unni Ísagrundu.
2.
Eg stóð að hinu græna, lága leiði –
>en til hvers þyl eg lýðum ljóð?
>látinn er sá gladdi þjóð;
mærðarstjarnan horfin er af heiði.
3.
Ójá, Bjarni, burtu þú ert liðinn,
>eins og blys af himni há !
>harma því eg kveða má:
vetrarstormur sterka felldi viðinn.
4.
Hér vil eg lúta að leiði þínu niður
>og gráta – en ei gráta þig:
>þú gekkst hinn vanda feigðarstig,
þangað sem öldum æðri bendir friður.
5.
En þó gráta – gráts er efnið mesta
>þess að vita missi manns,
>mest er anni sveitum lands
og af huga öllum vann hið besta.
6.
Og getur sá er gengr að leiði þínu,
>haft upp nema harmamál
>um heiður látinn, slokknað bál,
og þín saknað innst í brjósti sínu?
7.
Því þú varst aldrei einn í hópi þeira,
>sem köldum vilja kvalablæ
>kæfa’ hinn helga loga, er æ
brennr því skær sem byrgður er hann meira.
8.
En alla stundu einn með hinum fáu,
>sem ei þola heimsku hlekk,
>í hag því sjaldan veröld gekk –
eins og fálki, frjáls í lofti bláu.
9.
Og því þér unni aldrei miðlungskynið:
>feigðar það að fúlum sið
>fella vildi’ hinn göfga við,
sem það aldrei gat í skugga skinið.
10.
En hvað örn, sem ofar skýjum flýgur,
>varðar fugla fjöld þó smá
>fjaðrir sterkar setjist á?
vængi hann skekur, vesöl skepna hnígur.
11.
Og að liðnu alda síðan mengi,
>enginn man hinn arma her,
>en með himinskautum fer
arnar hróður enn hjá þjóðum lengi.
12.
Svo varst, Bjarni, burt frá aumu, smáu,
>þinn er hugur heims um baug
>hátt á arnarvængjum flaug,
öllu jarðar ofar striti lágu.
13.
Þinn var andi arnar súgi bornum
>aukinn móði æðra ranns,
>eldaglóðin haukalands,
jarknasteinn úr jötunbjörgum fornum.
14.
Ungur víkings víst þú skildir andann,
>þegar heyrðir óðs í óð
>„Áslaugar hin svásu hljóð,
Ragnar anda enn á vori handan“.
15.
Þornum tendrað fékkstu líf að arni:
>sólin blessuð sunnan skein,
>síðan dreif að birkirein –
var ei kalt þá vengið hríða, Bjarni?
16.
En þú glæstir glóðum jökulfeldinn,
>og við sætan unaðshreim
>allir sóttu þangað heim,
sem að „stirndi strengjunum á eldinn“.
17.
Því hin „staka stóð í skýja rofi
>stjarnan ein“ sem birtu bar
>best um löngu næturnar
og oss benti upp frá moldarhofi.
18.
Svo oss lýsti lífs á eyðihjarni
>títt hið mikla, bjarta bál,
>blysin kveikti og vermdi sál
þjóðum kunnra þinna ljóða, Bjarni!
19.
Oft þú flóst að efstum fjallatindi,
>öld það sífelt unan bjó,
>enginn betur vissi þó:
„öðrum blóðra blæs í dalnum vindi“.
20.
Miklir hljóta menn svo tíðum vinna
>öðrum hægra en sjálfum sér,
>slíkra verka skulum þér
því og bestar þakkir jafnan inna.
21.
,,Stímabrak i straumi“ mátti kalla,
>þar sem hauksins vegur var –
>var ei stundum svalt og þar,
Bjarni, á lífsins bera jökulskalla?
22.
Þegar hríðir huldu hvelið bjarta
>og næturheima fjöllum frá,
>frost- og úðalegum þá,
„eilífs dauða andinn blés að hjarta“.
23.
En ei ljósið ljóss má köppum dvína:
>er sem þeir við allan hag
>„eilífðar hinn bjarta dag
glugga gegnum grafar líti skína“.
24.
Þann æ leistu – þín skal mærðarstjarna
>oss og síðan lífs á leið
>löngum skína björt og heið,
hvar sem annars eigum brautu farna.
25.
Og þó frysti fold um hélu rósa,
>gegnum húm og hríðarsal
>hátt oss ætíð ljóma skal
Bjarna nafn á blossum norðurljósa.