Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Græðarinn lýðs og landa | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Græðarinn lýðs og landa

Fyrsta ljóðlína:Græðarinn lýðs og landa
bls.180–195
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður) þrí- og ferkvætt AbAbcoc
Viðm.ártal:≈ 1300–1550
Flokkur:Helgikvæði

Skýringar

Kvæðið er hér gefið út eftir útgáfu Jóns Helgasonar í Íslenzkum miðaldakvæðum en þar fer hann eftir aðalhandriti þess, AM 622 4to, s. 77–89. Önnur handrit kvæðisins eru frá því komin. Frá 18. öld er afskrift af kvæðinu varðveitt í Trinity College í Dyflinni, MS L. 2. og 3. Þá eru til samræmdar uppskriftir kvæðisins frá 19. og 20. öld: Lbs 1486b 4to, skrifuð af Þorvaldi Bjarnasyni. Í því eru aðeins 32 fyrstu erindin. Annað handrit, Lbs 2166 4to, er skrifað af Páli Eggert Ólasyni.
Kvæðið er byggt á helgisögu sem varðveitt er í Máríu sögu, bls. 608–622.
1.
Græðarinn lýðs og landa
með líknarvaldið sitt,
frá öllum vóða og vanda
vernda þú ráðið mitt;
annars heims og einninn nú,
rót ilmandi, á réttan veg
ráðinu mínu snú.
2.
Í saurugan syndaþunga
sálina hefi eg leitt,
mín verk sem vilji og tunga
hefur voldugan skaparann reitt
og hans boðorðum brotist á mót
með líkamsgirndum, leti og styggð,
lygar sem eiðar og blót.
3.
Búinn mun bruni og pína
fyrir bölvað syndagjald,
eg fel umsján mína
alla í skaparans vald
og mektugri Máríá.
Aldri mun það engla blómið
aumt mega nokkuð sjá.
4.
Mektug móðir Anna
mér sé ávallt nær,
ljái til læring sanna
liljan fögur og skær,
minni og mannvit, mælsku og snilld,
svo yrkja mætta eg ævintýr
og eftir skaparans vild.
5.
Höfuðdrottningin hreina,
helgust Máríá,
mýking allra meina
þeirra maðurinn kann að fá,
lesast má víða í letrum það
að hverjum er þeim hjálpin vís
sem henni krýpur að.
6.
Réð fyrir ríki einu
riddari nokkur frægr,
ljúfur í lyndi hreinu
um lífsins gjörvöll dægr.
Bókin frá eg að birti svá
að ætti þessi örva Baldr
unga synina tvá.
7.
Riddarinn lét þá læra
á lystuga heimsins mennt,
svo að heiður og alls kyns æra
er þeim báðum hent.
Þeir unntust þegar í æskurót
svo hvorgi má fyrir elsku og ást
öðrum tala á mót.
8.
Auð að erfðum réttum
eftir herrans dag
þeir taka með tignarstéttum
og tæra ‹lí›tt í hag
svo að umliðnum árum tveim
stillingarlaust strjúka fén
stórliga mjög fyrir þeim.
9.
Koffur og kistur sneyðast
af klæðum, gulli og fé,
allir peningar eyðast,
aumligt frá eg að sé
hvað ungu menn gjöra upp að slá,
fósturjörðum og frændum sín
flýja þeir burtu frá.
10.
Úti á einum skógi
efla þeir skála sér
með vondum veraldar plógi
þar eð vegur kaupmanna er,
ræna fé en myrða menn.
Við lýtin þessi lifðu þeir
lengi báðir senn.
11.
Hjálparinn himins og landa,
huggan öllum tér,
þeirra *vóða og vanda
með vorkunnlæti sér,
inn sendandi í ens eldra brjóst
gneista einn af guðdómsást
er grefur burt sorg og þjóst.
12.
Mest fyrir miskunn bjarta,
er á meinum vinnur svig,
klökknar kólnað hjarta
og kannast nú við sig.
Mutierast svo grimmd í gríð
að grátur og iðran gengur inn
en glæpir skiljast við.
13.
Einn tíð frá eg hann frétta,
frænda sinn að því
hversu líkar honum lífið þetta
sem liggja þeir báðir í:
„Sannliga allvel,“ svaraði hinn.
„Að vísu ertu vorðinn nú
villtur, bróðir minn.“
14.
„Fyrir framning vondra verka
er *eg veit Guði á mót,
eg vil efla iðran sterka
af innstri hjartans rót.
Bróðir minn, þess bið eg þig,
þú þverúðist ekki þessu á mót
ef þú vilt elska mig.
15.
Heyrt hefi eg hyggna klerka
hafa þar traust upp á,
ef með iðran sterka
illu er horfið frá,
að hverjum sé þeim hjálpin vís
sem úr saurugri synda gröf
sjálfviljandi upp rís.
16.
Fjandans fólskum vilja
frá skal eg hverfa nú
og við þenna þjófnað skilja
og þjóna vorri frú
í klaustri því að fyrst eg finn,
svo blómstrið meyjanna biðji fyrir mér
blessaðan skaparann minn.“
17.
Hinn yngri svarar af létta
og lætur eigi orðafrest:
„Lífið líst mér þetta
lystiligt um flest,
til *vitleysist má virðast það
fullsælunni að fýsast frá
í frægðarlausan stað.“
18.
Hinn ellri af ástarmæði
ansar frænda sín:
„Blind eru orðin bæði,
bróðir, augun þín.
Þú kannt ekki satt að sjá,
fylgja viltu flærðum þeim
sem fjandinn kastar á.“
19.
Í dauðans svelgnum djúpa
drukkna ætlar þú,
ef *þig lystir lymskum púka
lengur að þjóna nú;
fá skaltu aldri, frændi, af mér,
að fareg fyrir holdsins heita ást
í helvíti með þér.
20.
Hér skal eg heldur skilja,
hlýri minn, við þig,
fyrst með verk og vilja
þú virðir einskis mig,
og bráðliga héðan í burtu að gá,
veg þann drottinn vísar mér
og voldug Máríá.“
21.
Gjörir hann síðan ganga
glæpa inni frá,
hins nam hjartað stanga
hryggð er á þetta sá,
um hugsandi hinn yngri sveinn
hvort betra er að fylgja bróður sín
eður blífa þar eftir einn.
22.
*Bendir rauðra ríta
reikar skála frá,
oft gjörir aftur að líta
á meðan innið mátti hann sjá;
af fjárins skilnað fær hann pín;
heit er og einninn hjartans ást
sú hann hafði á bróður sín.
23.
Hinn yngri eftir reikar
ei með léttan hag,
en eldri undan kreikar
allan þennan dag.
Á brekku einni bíður hann þá:
byggðir, væna, borg og klaustr
burtu þaðan má sjá.
24.
Ástsamliga nam kveðja,
hinn eldri, bróðir sinn,
og grátandi vill gleðja
en geysi reiður er hinn,
svo að öngu getur hann *ansað á mót
fyrir hatursamligri heift og styggð
er um hjartans byggir rót.
25.
„Borg og *byggð svo víða
báðir sjáum við hér,
klaustur og kirkju fríða
er Christur hefr vísað mér;
væra eg sæll ef vildir þú
þægiliga í þessum stað
við þjónuðum vorri frú.“
26.
Ef þetta viltu eigi veita,
vaskur hjörva viðr,
og því svo þverliga neita
sem þín er nauðsyn meðr,
þá vil ég gjarnan þiggja það
að eigi hverfir aftur þú
í okkarn fyrra stað.
27.
Svo hugult í hjarta þínu
hugsa þú með þér,
fyrir skírn og skaparans pínu
hvað skyldugur maðurinn er
honum að veita hér á mót
fyrir alla hluti þú elska hann
af innstri hjartans rót.
28.
Kom þér í kóngsins höllu
í kæra þjónustu inn,
með ástríki öllu
elska þú herra þinn,
vélar allar varast sem mest,
gjör þú jafnan, garpurinn, það
að Guði megi líka best.
29.
Vertu nú vaktandi
vel það biður eg þig,
kom hér, kæri frændi,
í klaustr að finna mig
á þessum deginum um hvert ár
til huggunar að herma mér
hve hamingjan með þig gár.“
30.
Þetta lætur hann leiðast
svo að lyktum segir hann já.
Beggja *göturnar greiðast
gæfusamliga þá.
Fyrir báðum liggur brautin skýr:
hinn yngri kemur á kóngsins garð,
í klaustur hinn eldri snýr.
31.
Þeim gefur þá giftu og náðir
Guð fyrir almátt sinn,
að þeir bræður báðir
eru blíðliga teknir inn,
hinn eldri að reyna reglu sið
en hinn til prófs að hegða sér
með hæve[r]skt kóngsins lið.
32.
Ábótanum og öllum
hinn eldri verður kær,
reyndur að ráðum snjöllum,
reglubúning fær,
víkur að honum sú virðing hæst
að fyrir hæve[r]ska hegðan sín
skal hann herranum ganga næst.
33.
Að lofanar tíma leiðist
þá lyktast þetta ár,
af ábótanum beiðist
bóka álfurinn knár
‹h›erbe‹r›gis með vín og vist
svo megi hann fagna hlýra sín
með heiður og alls kyns list.
34.
Árliga er veitt með öllu,
af ást það munkurinn bað,
enum yngra í öðlings hö‹llu
af› er greinanda það,
kurteisliga fyrir kónginn gekk,
af sínum herra ‹alla› þökk
og orðlof blítt hann fékk.
35.
‹Greiða› og góðar náðir
gesturinn þiggja má;
sem þeir sitja báðir
‹segir› hinn eldri þá:
„Með vilja Guðs og vorrar frú,
eftir því ‹sem æ›tluðum við,
er eg orðinn munkur nú.“
36.
„‹Það› þóttunst eg finna
þá við skildum næst,
að mæðilig ‹muka› sinna
mundi þér verða kærst.
Þó hefi eg undrað o‹ft› fyrir mér
með ónáðir og aumligt líf
að una mundir þú hér.“
37.
Bróður svarar hann sínum:
„Mig syrgir hér ekki neitt,
því að af ábóta mínum
er mér gjörvallt veitt,
hvað hér eg breka eður beiðunst enn,
kynn nú mér hve kemur þú þér
við kóng og dugandi menn.“
38.
„Ráð og ræður þínar
reynst hafa allvel enn,
því að þjónustur mínar
þakkaði kóngurenn
og bauð sem fyrst að eg fynda sig;
það er minn hugur til heiðurs nokkurs
að hefja muni hann mig.“
39.
„Fyrir tiltektir þínar,
trúeg að iðrist þú,
*ef sér þú sæmdir mínar“,
segir enn yngri nú.
Bróðurinn svarar með blíðu þá:
„Yður launi Guð þá lukku og heiðr
sem liggur þér mest upp á.
40.
G‹rá›tur og gleðinnar svipta
gjörist mér eigi við það,
heldur hamingja og gifta
ef heiðurinn snýst þér að.
Finn‹a þ›ykjunst eg, frændi minn,
að á veraldarinnar virðing nú
vikinn er hugurinn þinn.“
41.
„Sannliga“, segir enn yngri,
„er svo sem getur þú til:
Meðan á mér er eg ei þyngri
og æskan gengur í vil
mun eg eigi heið‹ri hal›la í mót;
annar hlutur mér eykur meir
angur um h‹jarta›n‹s› rót.“
42.
„Guð man góðar náðir
gjöra á hugsan þín
ef viltu að vitum báðir
og víkur að ráðum mín.“
„Hvað máttu gjöra huggan mér
þar sem einskis vætta áttu ráð
‹og eigi yfir› sjál‹fum þér?
43.
Með verki og vilja sönnum
veit eg þú elskar mig;
því ertu svo af öllum mönnum
að ei skal ‹eg ley›na þig,
helst leikur mér hugur upp á
með hjúskapar‹ban›di húsfrú mér
hæverskliga að fá.
44.
Vilda eg það þó vanda
að vísu allra mest,
ef me‹kt›ug mér til handa
meyjan yrði fest,
þó eigi sé hægt ‹að› hitta á það
fyrir metnaðar sakir, mennt og ætt
að m‹egi› eigi finna ‹að›.“
45.
Svo blíðliga bróður sínum
birtir hann málið sitt:
„Lof sé lausnara mínum
er lýst hefur hjartað þitt
og villustígnum vikið í frá;
yður skal eg leitast ‹um› það víf
sem æskiligast má fá.
46.
Við skulum biðja báðir
blessaðan skaparann nú
og með sínar signuðu náðir,
sancta Máría frú,
mikiliga bið eg þú minnist þess
fagurliga að syngja fyrst hvern dag
*fimm Máríuvers.“
47.
Með gleði og góðan vilja
gefur hann hér til já,
sætliga síðan skilja
svo sem ætla má.
Heim kemur hann á herrans garð
og með ríkugligri rét‹tarbót›
riddari hann ‹n›ú varð.
48.
Boðorðum síns bróður
bregður hann aldri af,
kveðjandi Máríu móður
mjúkliga á hvern dag.
Þetta er henni þæ‹gi›legt
svo hún auðgar þenna unga mann
alls kyns veraldarmekt.
49.
Svo eykst hans sæmd og sómi,
hann sýnist fæstum jafn,
með hæstum herradómi
hlaut hann virðingar nafn.
Pentracta hét tignin snjöll,
regerar sá yfir riddara fimm
í ríkri kóngsins höll.
50.
Með slíkum heiðurs hætti
hann í virðing stár,
góðra siðanna gætti
svo gengr út þetta ár.
Mektir þessar múkurinn spyrr,
býst hann því við bróður sín
betur en miklu fyrr.
51.
Honum var með veraldar listum
veitt af ábóta *sín
höll með hvers kyns vistum,
hér með mjöður og vín.
Hans atferli er öllum þekkt,
í andligum hlutum hann auðgar sig
sem hinn yngri að veraldar mekt.
52.
H‹r›yggð var engi í hjarta
þá hann hittir bróður sinn,
með blíða ásjónu og bjarta
býður honum munkurinn inn,
virðulig var veisla þar,
svo hagað og þént í hverri grein
sem herramönnum bar.
53.
Ræða ei rekkar lengi
áður riddarinn eftir spyrr,
hversu gifting gengi
þeirra sem garpurinn lofaði fyrr.
Múkurinn gaf þá svar fyrir sig:
„Þar má eg sannliga segja þér af
að sýnt má gleðja þig.“
54.
Eg fann jungfrú eina
elskuliga að sjá,
ætla eg ekki neina
allt hafa jafnt við þá
um vænleik, ætt sem visku og mennt,
flest það fljóðin fríðka má
fullvel er henni hent.
55.
Við þessa þinna vegna
þorngrund veik eg á
slíkt er eg mátta megna
svo að meyjan segir þér já
ef þú staðfestist með stilli samt;
hennir þykir þín ráð og riddarastétt
reynd vera heldur enn skammt.
56.
Í festum frúin vill bíða
fyrst um árin þrjú,
að sóma og siðuna fríða
með sæmdum aukir þú.
Sjáandi er að missa ei soddan mekt,
hennar líkams skapan sem list og ætt
ber langt yfir aðra slekt.
57.
Með því fremsta færi
sem fylgt hefi eg getað þér að
bið ‹e›g þig, bróðir kæri,
þú bregðir eigi það;
um siðuga þessa silkivör
mun því meiri þykkja missir að
sem maðurinn þekkti gjör.“
58.
Enn í öðru sinni
vil eg okkart setja traust
hjá elskuligri Máríu minni
með mjúkri bænaraust,
að hún regeri þenna ráðahag;
hennar fagnaðarkveðju fjölga þú við
svo að fimmtán séu hvern dag.“
59.
Mælti meiðir ríta
með sinn bróðir nú:
„Lofa þú mér að líta
listuga þessa frú,
áður en fer eg frá yður í burt,
hyggja að hversu hugnast mér
hennar list og kurt.“
60.
„Ef minning Máríu móður
mjúkliga heldur þú,“
segir hann sínum bróður
að sjá skuli hann þessa frú,
„kléna næst þá kemur þú hér;
sýnast mun þér satt það allt
sem sagt hefi eg áður þér.“
61.
Með blíðu og bestum vilja
fer bróðurliga með þeim,
sætliga síðan skilja,
svo kemur riddarinn heim.
Vakurliga þénti hann vorri frú,
vaxa lét hún því virðing hans
sem vel má heyrast nú.
62.
Tribunus má telja
tiguliga þá stétt
sem honum nam herrann velja
meður heiðursamligan rétt,
yfir *þrem tigum riddara ræður sjá,
kóngsins fær hann kærleik svá
sem kjósa vildi hann á.
63.
Árið líður á enda
allt með gæfustund,
enn vill riddarinn *venda
eftir vana á múksins fund.
Því býst hinn við sem mátti hann mest,
svo viðtektin megi verða nú
að vísu allra best.
64.
Með sína siðuga sveina
sækir hann munkinn heim.
Allan besta beina
bróðurinn fagnar þeim,
virðuliga sem von er á,
kærleik meir en eg kunni það
köppum greina frá.
65.
Með tempran trúleiks orða
talaði riddarinn hér:
„Hvar er listug lauka skorða
sú löngu héstu mér
að til unnustu eg skal fá?
Mig hefur lengi langað til
hennar list og prýði að sjá.“
66.
Múkurinn skelfir skjalda
skjótt gaf svar fyrir sig:
„Hefir þú minnst að halda
þann hlut er eg beidda þig?“
Miður kvað hinn en makligt er.
„Ávíta skal eg ekki þig
ef endir þú ekki verr.“
67.
„Allt vil eg gjarna enda
yður það hét eg best,
yður mun heiðurinn henda
og hamingjan styðja um flest.
Þegar hoffólk *sitt til hátta fer
skírlífis hina skæru rós
skal eg þá sýna þér.“
68.
Þeir sitja saman og drekka
sveina fólki meðr,
sviptir angri og ekka,
alla munkurinn gleðr.
Þegar dróttin hallast dýnur á
fram til kirkju fara þeir þá
festarmeyna að sjá.
69.
Í afstúku eina
ærliga múkurinn víkr,
segir þá sviptir meina,
seima þollurinn ríkr,
bróður síns skal bíða hér
og með hjartans ástúð hyggja að
hvað fyrir augun ber.
70.
Bróðurinn leggst til bæna
fyrir blessaða Máríá
gegnt þeim glugga væna
sem gjörði riddarinn þá.
Líður um kórinn ljósið inn
fegra og skærra en fengi hann séð
fyrr á ævi sín.
71.
Gefst með gleði og sigri
greindum riddara að sjá
jungfrú inniligri
en orðum megi það tjá.
Vífið elskuligt víkur sér
gagnvart móti glugga þeim
sem gjörst til hennar sér.
72.
Nú má hann skoða og skilja
skínandi lífsins rót,
því að hjartaligum hennar vilja
er hvergi þetta á mót.
Hún leggur af skikkju en leysti hár;
ómegin féll á örva Baldr
ungan þar eð hann stár.
73.
Hver megi hölda skýra
eður hugsan koma þar á,
hennar heiður enn dýra,
svo að hermi rétt í frá,
þann ljóma og ilm sem lífsins æðr
með sætleiks elsku sýndi sig
við sagða þessa bræðr.
74.
Háleitt hjálpar stræti
til himins aftur snýr,
kemur þá munkurinn mæti
og mjúkliga eftir spyr
hversu honum leist þessi liljan klár.
Hinn getur óbrátt ansað til
fyrir ugg er um hjartað stár.
75.
Líkt sem ljós skuli næra
leysir hann málið það:
„Sé þeim sæmd og æra
er mér soddan bróður gaf;
það var mín auðna að elska þig;
nú fæ ég skilið þá guðdóms rós
sem gifta viltu mig.“
76.
Mér gefur það glöggt að skilja
gæsku nýt eg þín,
ef sjá ilmandi lilja
skal unnusta verða mín.
Skaparans móðir, skær og hrein,
óverðugan eg veit mig þess
vera fyrir marga grein.“
77.
Þar sem ævi alla
aumliga breytti eg hér,
gjörðeg í glæpi að falla
sem Guð fyrirláti mér.“
Með iðranar öxi hann af sér hjó
þann syndanna *flærðar fjötur
er forðum að sér dró.
78.
Með mörgum mjúkum greinum
múkurinn styrkir hann,
segir hvern sviptan meinum
er synda iðrast kann;
hér með víkur hann orðum á
hvað sól réttlætis sagt hefur sér,
sancta Máríá.
79.
„Við munum lykta lífi
þegar líður árið fljótt,
þjóna þessu vífi
sem þér sýndist í nótt.
*Því haf þú nú allan hug til þess
að lesa, fram fallinn fyrir þitt borð,
fimmtigi Máríu vers.“
80.
„Hvað mun eg vesall *vótta
velktur í synda *leir?“
Guðligan ást og ótta
auka báðir þeir,
til vegsemdar ‹vorr›i frú
en riddarans virðing vex því meir,
það veitir Máría frú.
81.
A‹ð› ó‹f›riðarstormi einum
öðling veit ‹að› kemr,
með bogum og brynjum hreinum
buðlung riddara semr;
setur þá til fyrir sína hönd
vaska menn sem væntir hann best
að verja muni góss og lönd.
82.
Með sínum siðugum sveinum
sagður riddari fer,
svo öruggr í öllum greinum
að allan þennan her
rekur hann einn af ríkjum burt.
Hans herfang og hreystiverk
fær herra kóngurinn spurt.
83.
Eftir sagðan sigurinn þenna
sækir hann herrans fund.
Bækur birta og kenna
að blíð sé kóngsins lund,
svo að centurionem setur nú hann;
hundrað riddara hlýðir þeim
sem hæve[r]skligast það kann.
84.
So kemur hans kurt og sóma
að kónginum gengr hann næst
að líta yfir laganna dóma
og leyndarmálin stærst;
hann forðast ágirnd, flærð og vél,
svo að lifanda Guði og landsins þjóð
líkar hans aðferð vel.
85.
Heilræði síns hlýra
hann hefur í minnum fest,
gjörir sem guðspjöll skýra
að Guði megi líka best.
Réttlátur var riddarans siðr,
frú Máríu fimmtigir vers,
þau *fellir hann aldri niðr.
86.
Árla að mor[g]ni einum
skal hann *inn fyrir kónginn gá,
að leysa úr laganna greinum,
þar liggur mikið upp á.
Kemur þá með þeim margt til *orðs;
þeir tala svo lengi að tími var þá
tiggja að gá til borðs.
87.
Vísir vill eigi væta
vígslu gull meðan þvæst,
þess skal geyma og gæta
sá er *gengur kónginum næst.
Gefur ei riddarinn gaum til þess;
leynilega hann leitar burt
að lesa sín Máríuvers.
88.
Margur misjafnt virti
maður er þar ‹stóð›ð hjá;
öðling ekki um hirti
utan hann mælti *svá:
„Eg skal ganga einn af sal,
forvitnast hvert farið hefr hann
e‹n› fólk hér bíða skal.“
89.
Fram í fögrum garði
fylkir náir að sjá:
riddarinn b‹rjó›stið barði,
til beggja ‹fe›llur hann knjá
sem tíðast meðan hann lofsöng les;
frúnni ilmandi færði hann svá
fimmtigir Máríuvers.
90.
Lofðung náir að líta,
svo lýsir bókin enn,
himneskt klæðið hvíta,
er héldu fjórir menn,
yfir hans herðar, höfuð og háls;
fyrir því regni sem rigndi niðr
skal riddarinn þurr og frjáls.
91.
Svo sem sögð eru á enda
sætliga versin öll
vill þá kóngurinn *venda
vitur í þessa höll.
Röskur kemur þá riddarinn inn,
lagliga heilsar lofðung á
með lítilátiligt sinn.
92.
Kappann gjörir að kalla
kóngr á tal með sér:
„Ævi þína alla
inna skaltu mér,
hefða eg vitað þú værir slíkr
skyldi eg meiri virðing veitt hafa þér“,
vísir talaði ríkr.
93.
„Óverðugum með öllu
oss hefur sýnst í dag
ofan af himnahöllu
hvað þér skaparinn gaf;
því drag þú af alla dul fyrir mér
en eg skal lofa að leyna því
meðan lifum við báðir hér.“
94.
Iðran allmjög sára
eflir riddarinn þá,
með mýking margra tára
meðan hann greinir frá
bæði af sér og bróður sín,
hversu listug Máría leyst hefur þá
frá langri dauðans pín.
95.
Hann hermir og hvað þeim sagði
himnakóngsins víf,
skjótt að skömmu bragði
skulu þeir missa líf.
Kóngsins hjarta klökknar nú;
af innstrum rótum hugarins heitt
þeir heiðruðu vora frú.
96.
Þaðan af þengill unni
þessum riddara best,
með ‹kæ›rleik þeim hann kunni
‹kap›pa að veita um flest,
uns er lausnarinn leiddi hann
í óum‹ræð›iliga unaðarsemd
þá aldri líða kann.
97.
‹Vís›t má hyggja og halda
að heilög Máríá
móti meiðir skjalda,
mektugum kæmi þá
því í bananum var hann so brosandi nær
sem til brullups byði honum heim
hans blessuð festarmær.
98.
Allt á einni stundu
er svo skrifað til sanns
að mildur og mjúkur í lundu
múkurinn, bróðir hans,
leiðist burt frá lífi nú
í vegsamligustu virðing þá
sem veitti þeim Máría frú.
99.
Það mega allir þenkja
þó þrautir komi þeim að,
hvað sem hvern kann krenkja
hún má bæta það,
með bænum sínum blessað víf;
bið eg, Máría, þú bjargir mér
bæðir fyrir sál og líf.
100.
Bið eg þig, blómstrið bjarta,
blessuð Máría nú,
að harmaþrungnu hjarta
huggan veitir þú;
við son þinn Jesúm sættu mig
svo að blíðan mætta eg, brúðurin, sjá
bæði hann og þig.
101.
Bið eg þig, rót ilmandi,
þú reiðist ekki mér,
þótt eg ei vísur vandi
svo vel sem heyrði þér;
gef þú þess sálu gleðinnar stað
ævinlega með yndi og náð
er mig þessa bað.
102.
Situr þú syninum næsta,
sætust lífsins æðr,
*mil[d]leiks musterið glæsta
er mestu góðu ræðr.
Dvínar aldri dýrðin þín,
um allan aldur yður sé lof;
svo endist vísan mín.

>Amen.


Athugagreinar

Athugasemdir og lesbrigði:
Það sem er innan oddklofa ‹ › eru ágiskanir Jóns Helgasonar og hefur hann um sumar þeirra stuðst við uppskrift Páls Eggerts Ólasonar í Lbs 2166 4to.
14.2 eg veit] svo í hdr. Betra er: veit eg.
17.5 vitleysist] svo í hdr!
19.3 þig lystir] svo í hdr. Betra er: lystir þig.
22.1 Bendir] < Render AM 622 4to.
25.1 bygg] < gygd AM 622 4to.
30.3 göturnar] < gotunar svo í hdr.
ef] vantar í AM 622 4to. Bætt við eftir Máríu sögu: 614.13.
46.7 fimm] < fimtan AM 622 4to. Leiðrétt eftir Máríu sögu, 615.13, sbr einnig síðar í kvæðinu, 58.7.
62.5 þrem tigum] í hdr er fjöldinn skrifaður með rómverskum tölum: XXX.
63.3 venda] < vernda AM 622 4to.
67.5 sitt] ? þitt ?? [Ath. handrit]
77.6 flærðar] < flærdur AM 622 4to [PEÓl].
79.5 Því] < þu AM 622 4to.
80.2 leir] < saur AM 622 4to [JH].
85.7 fellir] < fellur AM 622 4to [PEÓl].
86.2 inn] vantar í AM 622 4to. Bætt við vegna stuðlasetningar [JH].
86.5 orðs] < ord AM 622 4to [JH].
78.4 gengur kónginum] < konginum geingur (vegna stuðlasetningar) [JH].