Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Jónas Hallgrímsson | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Jónas Hallgrímsson

Fyrsta ljóðlína:Hátt yfir „Dranga“; hnýpir „ástarstjarna“;
bls.268
Bragarháttur:Oktava AaAaAaCC
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Hátt yfir „Dranga“ hnýpir „ástarstjarna“,
því húm og þoka byrgir fjallasal,
og dapurt er um byggðir héraðsbarna
og bert og snautt í skáldsins æskudal.
Því minnumst nú á fegri tíma farna,
er fossinn hló og brosti jurtaval;
og gleðjum sál með gullinstrengjum ljóða
og göfgum minning listaskáldsins góða.
2.
Vakna þú hérað hans, sem er þinn sómi,
og heyrðu ennþá skálds þíns guðamál!
Vaknaðu, Snæland! Í hans hörpuhljómi
sló hjarta þitt og bjó þín innsta sál!
Fífill og sóley, sérhvert barr á blómi,
hver björk og strá, hver kalin vetrarnál:
Vakið og fjöri fyllið strengi ljóða
um fagurmilda listaskáldið góða!
3.
Þá skein á hausti skær og blíður dagur,
er skáldið góða fæddist vorri sveit;
á fjöll og dali færðist sumarbragur,
um fjör og yndi dreymdi liljureit,
þá söng í lofti svanahópur fagur
um sól, og allt er hjartað fegurst veit,
því fæddan vissi fræga svaninn ljóða
við fjörðinn eyja: listaskáldið góða.
4.
Hann fór um haust úr fátæklegum garði,
og föðurlaus, en hitti dýran sjóð,
svo heim hann sneri aftur með þeim arði
sem öldum saman nærir heila þjóö.
Því landsins Bragi varð hann fyrr en varði,
þá vöktu fólkið stór og guðleg ljóð,
er heilla alda söng oss sumargróða
í siguróði frelsis-skáldið góða.
5.
Hugljúfa skáld! hve töfrar oss þín tunga,
með tignarmildan, engilfagran hreim!
Hve fagurt dillar ljúflingsljóð þitt unga,
og landsins Hulduspil í strengjum þeim!
Þú varpar frá oss víli, neyð og þunga
og vekur hjá oss nýjan sólarheim.
Hugljúfa skáld, í munarmildum tárum
vér minnumst þín að liðnum hundrað árum.
6.
Hvað er svo blítt sem blóm á þess manns leiði
sem blessar þannig sína fósturslóð,
og dáinn skín sem heilög sól í heiði
og hœstum sóma krýnir land og þjóð!
Og hvað er fast á fleygu tímans skeiði,
ef fölna, skáld! þín guði vígðu ljóð?
Hugljúfi vin, að hundrað liðnum árum
þig hyllir Ísland mildum þakkartárum!
7.
Á Sjálands strönd þú sefur undir leiði.
Ó, svanur Íslands, hvíldu vært og rótt!
Vor góði engill báðar hendur breiði
um beðinn þinn og stytti helga nótt!
En þegar síðast sólin rís í heiði,
þá svíf þú fram með nýjan guðaþrótt,
og sérhvert vor, þá sumar lýsir bárum,
vér sendum blómstur, laugað vinartárum!