Heima. Telpan við rokkinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Huliðsheimar (Haugtussa) 2

Heima. Telpan við rokkinn

HULIÐSHEIMAR (HAUGTUSSA)
Fyrsta ljóðlína:Það haustar. Húsin smýgur
Höfundur:Garborg, Arne
bls.5–7
Viðm.ártal:≈ 1900–1925
Tímasetning:1895
1.
Það haustar. Húsin smýgur
nú hregg og golan stinn
og fugl að glugga flýgur
og feginn vildi inn.
En upp við eldastó
á kisu svefnþrá sígur,
hún situr þar í ró.
2.
Í dvala hana dreymir
við daga og nætur skil,
hún víðri veröld gleymir
í værð og góum il.
Og ekkert orð er sagt,
hún skap sitt skrumlaus geymir
en skott í hringa er lagt.
3.
Í sínum silkifeldi
hún situr við arinkinn
og kúrir kyr hjá eldi
með klærnar dregnar inn.
Hún unir rökkurró
þótt komið sé að kveldi
af kappi hún malar þó.
4.
En hvaða hugfró *býður
þér hýrlegt draumatal?
Í minning langt þú líður
að ljúfum bernskudal,
þar fyrstu fannstu von,
er vorblær þuldi þýður
en þú varst konungsson.
5.
Í skóginn fagur og fríður
þú fórst um aftanstund
og hár þitt hrundi á síður
með hermanns gilda lund;
en innst þar inni bjó
þó svannablóminn blíður
sem berin tíndi í mó.
6.
Þá gekk fram glöð í bragði
þar galdranornin ein;
úr tröllheim fornu flagði
hinn fríða leist á svein.
En burt hann reiður rann
og kerling kalt á lagði;
að ketti gerði hann.
7.
Svo vaða strauma stríða
og stökkva gjár hann varð
og fara furðu víða
uns fann hann okkar garð.
Hér raskast ró hans ei,
hann hér má heljar bíða
og hugsa um sína mey.
8.
Æ gola og gustur smýgur
í gegnum vegg og þil
og fugl að glugga flýgur
sem fá sér vilji yl.
En upp við eldastó
nú svefn á kisu sígur
og sætra drauma ró.