Presíósa og vindurinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sígaunaljóð 2

Presíósa og vindurinn

SÍGAUNALJÓÐ
Fyrsta ljóðlína:Á götu láðs- og lagardýra
Viðm.ártal:≈ 2000–2025
Tímasetning:1928

Skýringar

Ljóðið þýddi Kristján Eiríksson eftir esperantoþýðingu Fernandos de Diego (Cigana Romancaro). Loftur Melberg Sigurjónsson bar síðan þýðinguna saman við spánska frumtextann í Romancero Gitano og hafði einnig hliðsjón af esperantotextanum. Benti hann á ýmislegt sem betur mátti fara, auk þess sem hann lagði drög að skýringum við einstök kvæði og þýddi tilvitnanir úr spönsku. Skýringarnar sömdu Kristján og Loftur síðan í félagi.
Til Dámaso Alonso
1.
Á götu láðs- og lagardýra
af lárviði og kristal gengur
Presíósa ljúf og leikur
létt á tungl úr pergamenti.
5.
Stjarnlaus nóttin stekkur undan
stríðum trumbuslætti hennar,
út í hafið fullt af fiski,
freyðir nóttin þar og kveður.
Varðliðarnir sætan sofa,
10.
sofa í virkjum fjallaskarða,
skulu gæta hvítra húsa,
húsa er ráða Englendingar.
Vatnsins svala sígaunarnir
sér til gamans reisa fagran
15.
skála af laufi og skrautkuðungum
og skógargrænu furulimi.
Presíósa ljúfa leikur
létt á tungl úr pergamenti.
Stúlku sér þá vökull vindur,
20.
við sér tekur, blæs og ærslast.
Gæddur himins helgum tungum,
helgur Kristofórus, nakinn,
hana skoðar ljúft og lætur
leynda flaututóna hljóma.
25.
– Þínu pilsi lyfti eg, ljúfan,
ef leyfist mér það, stúlkan þekka.
Fá svo mínir fingur gamlir
að fálma um bláa rós þíns kviðar.
Flýr hún eins og fætur toga,
30.
frá sér kastar bjöllutrommu.
Með sverði heitu hraður þýtur,
hana Kári vindfrár eltir.
Á ólífutrén fölvi færist,
fellur brimið þungt að ströndum.
35.
Skuggaflaututónar titra,
trumba er jörðin snæviþakin.
Presíósa, hraðar hlauptu,
hlauptu, flýðu vindinn græna!
Presíósa, hraðar hlauptu,
40.
hafðu gát, hann nálgast óðum.
Skógarvættur loftveg líður
lágra stjarna tungubjartra.
*
Presíósa á hraðar hleypur,
hleypur skelfd og tryllt í húsið
45.
hátt sem rís þar handan skógar,
húsið enska ræðismannsins.
Skelfdir upp af ópum hennar
óðar hrökkva þrír varðliðar,
klæddir þröngum kápum svörtum,
50.
kollhúfurnar niðrá enni.
Volga mjólk þá Bretinn býður
blíðri stúlku sígaunanna,
einnig ginstaup er hún neitar,
ekki slíkt er hennar drykkur.
55.
Og meðan stúlkan segir sínar
svaðilfarir þar og grætur
í bræði vindur beittum tönnum
bítur flögusteina þakið.


Athugagreinar

1–4. Þegar Presíósa stígur fram leikur hún á einhvers konar tunglskinshljóðfæri sem nefnd er bjöllutromma í 30. ljóðlínu. Hljómur hennar er gjörólíkur hinum leyndu flaututónum vindsins í 24. línu.
3–8. Náttúran er lífi gædd. Þögnin flýr, hafið syngur. Öll þessi lífmögnun stefnir að því að vekja ærslafenginn vindsatírinn.
19–24. Upphaf hins óvænta æsiveðurs er táknað á goðsögulegan hátt með því að vekja upp vindinn, persónugerðan sem heilagan Kristofórus, nakinn. Trúað var á hann sem heilagan hjónabandsmiðlara.
25–28. Hér upphefst vindurinn með sínum lostafullu kröfum.
31–32. Þessar línur spegla hið karlmannlega og árásargjarna svipmót vindsins, sem aftur kemur fram í ljóðlínum 41–42.
37.
Hér upphefst hin dramatíska rödd, hugsanlega rödd skáldsins, og snýr sér að sögupersónunni.
44.
Ljóðið skiptir um tón við það að Presiósa fer inn í hinn skipulagða heim nútíma siðmenningar sem er allur annar en heimur náttúru- og alheimsaflanna.