Gleðileikurinn guðdómlegi - fyrsta kviða | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gleðileikurinn guðdómlegi 1

Gleðileikurinn guðdómlegi - fyrsta kviða

GLEÐILEIKURINN GUÐDÓMLEGI
Fyrsta ljóðlína:Við skeið mitt hálfnað einn ég algjörlega
Höfundur:Dante Alighieri
bls.N-ro 11 12a Julio 1992
Viðm.ártal:≈ 1975–2000
Tímasetning:1300

Skýringar

Hér á eftir fer fyrsta kviðan úr ljóðabálki skáldsins Dantes Alighieri (1265–1321) Divina Commedia sem á íslensku hefur verið kallaður Gleðileikurinn guðdómlegi en á Esperanto Dia komedio. Gleðileikurinn er frægast verka svonefndra leiðslubókmennta en í þeim ferðast skáldin gjarnan til handanheima í eins konar vitrunarleiðslu eða fara draumförum til ríkis framliðinna.
Gleðileikurinn guðdómlegi skiptist í þrjá hluta og fjallar um ferð Dantes um ríki dauðra, fyrst um Víti, síðan Hreinsunareldinn og að lokum um Paradís. Kvæðið skiptist í   MEIRA ↲
1.Við skeið mitt hálfnað einn ég algjörlega
í úfnum tröllaskógi leiðir missti,
hvarflandi ég fór þar villur vega.
2.Að lýsa þessu landi sem ég gisti
lamar mitt geð og nýjan ótta vekur,
myrkviður sá bar marga þyrna og kvisti.
3.Sætari jafnvel sýndist dauðinn frekur,
samt vil ég lýsa öllu sem ég mætti,
af því hið góða einnig ljóma tekur.
4.Var ég þar staddur, veit ei hverju sætti,
víst hefur svefninn stýrt svo mínum fótum
afsíðis langt með undarlegum hætti.
5.En þegar ber mig fast að fjallsins rótum
mín för um dalinn hlýtur snöggan endi
sem hafði lostið hjartað óttans spjótum.
6.Þá leit ég upp hvar blessuð sólin sendi
sumargeisla og krýndi fjallið eldi
sem réttan stíg oss leiðir ljósri hendi.
7,Nú rénaði ótti sá er voðaveldi
válegrar nætur laust mitt kvika hjarta
og geð mitt allt í ramman fjötur felldi.
8.Eins og hann, sem lofar landið bjarta,
er lengi hefur velkst þar aldan þýtur,
vill aftur sjá hvar brotnar báran svarta,
9.svo dimma veginn aftur önd mín lítur
og augum döprum leiðir rökkvað sviðið
hvar allt sem lifir ferst og deyja hlýtur.
10.Og þegar hafði lúi úr beinum liðið,
í litla stund, á ný ég reis á fætur;
nú gerðist landið giljum bröttum sniðið.
11.En þarna fast við klettariðsins rætur
sig reisti sviflétt pardusdýr af jörðu,
skinnið flikrótt, skína í tennur lætur.
12.Og á mig villtu augun gráðug störðu,
í angist margoft snerist ég á hæli,
þá dýrsins beittu klær mér veginn vörðu.
13.Loks reis að morgni röðull dagsins sæli
og rann um loftin björt með fylgistjörnum
er drottinn gaf þau dýru fyrirmæli
14.við upphaf tímans yrðu að sólarbörnum;
þá aftur varð sem von ég nokkra fyndi –
að litríkt dýr sem var á vegi förnum –
15.benti fram á betri tíð og yndi –
er beygur nýr og ótti um hjartað flæðir.
Þá rís upp ljón eitt skaðvænlegt í skyndi,
16.með skolta glennta framan að mér æðir
og augun gneista öll af hungri og spenna
óttans fyllir jafnvel loftsins hæðir.
17.Og einnig grimma ylgi hér má kenna,
óargadýr sem margan lagði að jörðu,
þar kviðdregin fer hún fýsnir ólmar brenna.
18.Mitt hjarta fyllist ógn og angri hörðu
er á mig glyrnur dýrsins stara veit þar
sem blóðþyrstar mér veg á tindinn vörðu.
19.Eins og hann, sem óðfús marksins leitar,
á einni stundu tapar því sem náðist
sviptan gleði sorgir brenna heitar –
21.ég ákaft vegna illrar skepnu þjáðist
sem elti mig á flótta til þess staðar
þar enginn sólargeisli á grundu stráðist.
22.Sjá, er ég niður brattann hrapa hraðar,
ég hitti mann á þessum dimmu löndum,
þöglan eins og þann sem einsemd laðar.
23.„Miskunn veittu mér á eyðisöndum“,
ég mælti hátt í sárri angist minni,
„hvort lifir þú, hvort ertu af dauðra ströndum?“
24.„Áður fyrr þar átti ég mín kynni
hvar undu Langbarðar í sínum högum.
Í Mantú feður eyddu ævi sinni.
25.Ég síðla fæddur Sesars var á dögum
og seinna í Róm ég guði falska hyllti
í skjóli af Ágústusar ljúfum lögum.
26.Skáld ég var og strengi mína stillti
og stoltan Eneas ég mærði í ljóðum
eftir að Tróju eldur frægri spillti.
27.Hví hrekst þú nú á hörðum eyðislóðum
en heldur ei að fjallsins björtu tindum
þar eilíft dafnar yndi á vegi góðum?“
28.„Hvort ertu Virgill sá er ljóðalindum
lengi veittir fram með þýðum hljómi?“
ég feiminn spurði og fletti hugans myndum.
29.„Blikar æ þinn bjarti skáldaljómi,
bjarg mér héðan vegna minna ljóða
og kvæða þinna er kvað ég feginsrómi.
30.Ó, ljós á vegum, listaskáldið góða,
ég lærði af þér að hreyfa strengi þýða
svo frægðir hlaut og frama meðal þjóða.
31Sjá, villidýr, sem veldur hjartans kvíða,
ver mér nú, andans jöfur, líkn í voða
ella ég mun af hræðslu banann bíða.“
32.„Víktu skjótt, þú veg skalt nýjan troða“,
minn vinur kvað er leit hann tár mín falla,
„því annars mun þig enginn kraftur stoða.
33.Sú skepna er þig af skelfing lætur kalla,
skaðvænt dýr, sem engum framhjá hleypir,
glefsar hún fast í grimmd og drepur alla.
34.Eykst hennar fýsn sem öllu kviku steypir,
því ekkert grimma dýrsins hungur seður,
magnast það æ því meira sem hún gleypir.
35.Sú ylgur niður úlfakyni hleður
uns kemur sá er henni lætur blæða
og barkann nístir beittum tönnum meður.
36.Mjóhundar þessa er sú eina fæða
ást og vit og sannar dyggðir góðar
og mun sá borinn milli Feltroshæða.
37.Hann svo mun rétta orðstír okkar þjóðar
sem Evrilíus, Kamillu og báða
Turnus og Nizus dró til dauðans slóðar
38.og varginn hrekur vegu klungrumstráða
að Vítisportum hvaðan fyrr var sendur
úlfurinn, skepnan grimma, girndum þjáða.
39.Feldu því ráð þitt fljótt í mínar hendur
og fylg þú mér, ég vísa stigu rétta
hvar eilífð ríkir æ um víðar lendur –
40.úr eymd og nauðum andvörp harmsins spretta,
þar einnig skuggar reika í slíkum kvölum
sem annar dauði aðeins megnar létta.
41.Og líka má hér sjá í Syrgisdölum
svipi glaða í eldi slegnum klæðum,
þeir eiga von á stað í sællra sölum.
42.En ef þig þráin knýr að hæstum hæðum
í hendur skal þig fela dísar betri –
ég kveddi þig á staðnum sem við stæðum
43.því hilmir sá er himna ræður setri
hleypir fráleitt inn til borgar sinnar
mér sem aldrei hlýddi hans lögmálsletri.“
44.„Sæll er hann sem nýtur náðar þinnar –
nær þitt ríki, Guð, um heiminn víðan –
þú leiðir hann að ljóssins tróni innar.
45.Mitt besta skáld, ég biðja vil þig síðan
bænar í nafni hans sem þekktir eigi:
fylg mér yfir háskans strauminn stríðan.
46.Sem lofað hefir leið mig að þeim vegi
er liggur upp á gullna hliðsins stéttir
um slóðir þær sem ríkir tár og tregi.
47.Hann hélt af stað, ég fylgdi honum eftir.