Þulan um sorgina svörtu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sígaunaljóð 7

Þulan um sorgina svörtu

SÍGAUNALJÓÐ
Fyrsta ljóðlína:Höggva beittir hanagoggar
bls.36–37
Viðm.ártal:≈ 2000–2025
Tímasetning:1928

Skýringar

Ljóðið þýddi Kristján Eiríksson eftir esperantoþýðingu Fernandos de Diego (Cigana Romancaro). Loftur Melberg Sigurjónsson bar síðan þýðinguna saman við spánska frumtextann í Romancero Gitano og hafði einnig hliðsjón af esperantotextanum. Benti hann á ýmislegt sem betur mátti fara, auk þess sem hann lagði drög að skýringum við einstök kvæði og þýddi tilvitnanir úr spönsku. Skýringarnar sömdu Kristján og Loftur síðan í félagi.
Til José Navarro Pardo

1 Höggva beittir hanagoggar
hvasst í leit að dagsins roða
þegar niðraf húmsins hæðum
heldur Soledad Montoya.
5 Hefur ilm af hesti og skugga
hörund meyjar koparlitað.
Hennar blökku brjóstasteðjar
báðir hlymja af sorgarljóðum.
— Soledad í svarta myrkri,
10 seg mér, hvers ert þú að leita?
— Aðeins mig það eina snertir
eða varðar þig það nokkru?
Hamingju í hjarta mínu,
ég hana stöðugt reyni að finna.
15 — Soledad míns sorgarþunga,
svo ef fákur áfram stekkur
hann þig brátt til hafs mun bera,
hverfa þar í öldufangið.
— Nefndu ekki sjóinn svo að
20 sorgin dökka fram ei spretti
upp af jörðu ólífanna
undir hvísli skógarlaufa.
— Seg mér hvaða sorgarefni,
Soledad, þú berð í hjarta!
25 Beiskt er vonarbragð í munni,
af bránni hrynja sviðatárin.
— Renn eg milli rúms og arins
rétt sem ekkert viðþol hafi
svo að mínar síðu fléttur
30 sópast eftir hússins gólfi.
Bitri harmur! Hold og klæði
hafa breyst í ösku tóma.
Ó, mín skyrta af ljósu líni!
Ó, lenda minna rósavefur!
35 — Soledad nú láttu laugast
lævirkjans í tæru vatni,
harm svo still í heitu, kviku
hjarta, Soledad Montoya.

* * *

Undir kliðar elfarsöngur.
40 Ó, þú himins blómakögur.
Á graskersblöðum glitrar morguns
gullinn roðinn eins og króna.
Ó, þú sorgin sígaunanna!
Sorgin tæra, engu bundin!
45 Sorgin vatns und sverði grænum,
sorgin fjarrar dagrenningar.


Athugagreinar

Á spönsku heitir kvæðið „Romance de la pena negra“ og væri líklega réttara að þýða „pena“ með depurð en „sorg“ því hér er átt við það hugarangur og einsemd sem Lorca segir að Andalúsíubúar þurfi öðrum fremur að glíma við. Stafar hún einkum af ótta mannsins við óskiljanlega leyndardóma lífsins og hinn óumflýjanlega dauða.
4 Soledad merkir einsemd.
5 Ilmur af hesti og skugga er eins og óljós fyrirboði.
6–8 Hér skjóta upp kollinum nokkur lykilhugtök úr raunverulegum heimi sígaunanna, kopar, brjóstasteðjar og sorgarljóð.
7 Með hinum blökku brjóstasteðjum er athyglinni beint að hinni svörtu sorg sem markar aðalpersónuna.
9 Hér hefst samtal skáldsins og Soledad. Slík samtöl skáldsins við persónur sínar eru eitt af megineinkennum í ljóðagerð Lorca sem er að öðrum þræði mjög leikræn og dramatísk.
16 Fákurinn sýnist hér helst vera tákn dauðans og hafið tákn endaloka og beiskju.
31–34 Aðalpersónan er orðin holdgervingur hinnar bitru sorgar.
36 Lævirkjans tæra vatn er líklega tákn frelsis og lausnar.
39–42 Dögunin ljómar og sólin glitrar á gólfinu eins og graskerablöð en Soledad Montoya hefur gengið stig myrkursins.
43–46 Land depurðarinnar, Andalúsía goðsagnanna, er handan sögulegs tíma þar sem sorgin grær áfram og magnast í nýrri dagrenningu.