Riddaraljóð um mánann, mána | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sígaunaljóð 1

Riddaraljóð um mánann, mána

SÍGAUNALJÓÐ
Fyrsta ljóðlína:Kom til smiðju klædd í nardus-
bls.21–22
Viðm.ártal:≈ 2000–1925
Tímasetning:1928

Skýringar

Ljóðið þýddi Kristján Eiríksson eftir esperantoþýðingu Fernandos de Diego (Cigana Romancaro). Loftur Melberg Sigurjónsson bar síðan þýðinguna saman við spánska frumtextann í Romancero Gitano og hafði einnig hliðsjón af esperantotextanum. Benti hann á ýmislegt sem betur mátti fara, auk þess sem hann lagði drög að skýringum við einstök kvæði og þýddi tilvitnanir úr spönsku. Skýringarnar sömdu Kristján og Loftur síðan í félagi.

Til Conchita García Lorca
1.
Kom til smiðju klædd í nardus-
krínólínu mánadísin.
Hana drengur undrast, undrast,
undrast hana lengi, stöðugt.
5.
Hún í lofti ljóðakviku
lyftir sínum hvítu örmum.
Hrein og lostug brjóstin berar
blikandi af hörðu tini.
– Flýðu máni, mánadísin,
10.
ef munu koma sígaunarnir
hálsfestar og hringa bjarta
úr hjarta þínu munu smíða.
– Leyfðu að ég dansi, drengur,
dátt er koma sígaunarnir.
15.
Þú á steðja þá munt liggja
þín með lokuð augun smáu.
– Flýðu máni, mánadísin,
má ég greina hófadyninn.
– Lát mig, drengur, lausa fara,
20.
lín mitt hvítt ei fótum troddu.
Riddarinn nú kemur, kemur,
klárinn þylur slétta grundu.
Þessi drengur þá í smiðju
þungum augum lokað hefur.
25.
Þarna koma þeir af skógi
þreyttir, lúnir sígaunarnir,
húðin bronslit, hnakkakertir,
höfgur svefn á augnalokum.
Æ, nú heyrist ugluvælið!
30.
Æ, hún lætur hátt í trénu!
Hátt á lofti líður máni,
leiðir með sér drenginn smáa.
Í smiðjunni nú gráta, gráta,
gráta og kveina sígaunarnir.
35.
Yfir henni vindur vakir,
vakir þar án hvíldar neinnar.


Athugagreinar

1 Tunglið sem kemur fyrir í upphafi Sígaunaljóða er heimagangur í öllum verkum García Lorca. Tengsl þess við dauðann og fornar goðsagnir eru alkunn.
1–13 Í þessum ljóðlínum er megináhersla á hið hvíta, nardus, tin, hálsfestar og hringa bjarta og (skjanna)hvítt lín. Hvíti liturinn vísar til litar tunglsins, sem gerir nóttina hvíta, og er öðrum litum fremur litur barnslegrar sorgar (sorgarklæða).
5–6 dans tunglsins er eins konar helgisiðadans sem fellur vel að trókískri hrynjandi ljóðlínanna. Og barnið, sem kynnt hefur verið til sögunnar, horfir dáleitt á hinn töfrumslungna feigðardans.
8 tin: gildi orðsins í ljóðinu er margvíslegt. tinhörð brjóstin skapa andstæðu
við hrein og lostug brjóstin í ljóðlínunni á undan þar sem hið lostafulla er andstæða hins kalda og harða tins. Hið hvíta tin dregur einnig úr lostakennd, og vísar til hins forna eldstæðisins. Það má jafnvel túlka sem válegan fyrirboða en málmar hafa hjá Lorca gjarnan táknræna merkingu, vísun til dauðans.
16 augun bæði: hér lætur skáldið hina „dauðlegu dansmeyju“, eins og hann nefnir hana ávarpa barnið á móðurlegan hátt þegar hún nefnir augun smáu (ojillos á spænsku). Enn einu sinni kemur fram tvíræðni hins persónugerða tungls (mánadísarinnar).
21 riddarinn: um leið og návist sígaunanna er kunngerð með komu riddarans birtist í þessai mynd einsemd mannsins í kapphlaupi hans við dauðann. Sérfræðingar í táknheimi Lorca sjá ýmist í hestinum, „kapphlaupið við örlögin“ eins og í ljóðinu Kordóvu þar sem tími og rúm rísa öndverð gegn riddara og reiðskjóta hans eða þykjast greina í hinum leyndardómsfulla riddara „sjálfan dauðann“, sem tunglið er aðeins fyrirboði um.
27 Enn á ný er vitnað í málma til að dýpka myndina. Kopar og brons skírskota gjarnan til sígaunanna í ljóðum skáldsins.
29–32 Í þessum fjórum ljóðlínum er brugðið upp tveim skynmyndum. Fyrst er væl uglunnar í trénu, eins konar hljóðrænn váboði. Þá tekur við mynd tunglsins sem leiðir drenginn sér við hönd. Enda þótt dauðinn sé ekki nefndur á nafn skín nærvera hans í gegn í þessum ljóðlínum. Drengurinn er horfinn úr mannheimi á vit hins kalda og dularfulla mána.
35–36 vindurinn sem áður hafði ærslast í lofti ljóðakviku (sjá 5. ljóðlínu) vakir nú yfir smiðjunni þar sem sígauninn litli hvílir dáinn.