Til ferskeytlunnar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til ferskeytlunnar

Fyrsta ljóðlína:Enn á ísa góðri grund
bls.50–57
Bragarháttur:Ferskeytt – hringhent (hringhend ferskeytla) – hringhenda
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1924

Skýringar

Kvæðið birtist einnig í Stuðlamálum I, bls. 15–16, Akureyri 1925, en þar vantar í 4. vísuna. 
1.
Enn á Ísa- góðri grund
græðist vísum kraftur.
Ertu að rísa af rökkur blund
rímnadísin aftur?
2.
Vertu á sveimi vina til,
vek þá hreimi snjalla,
láttu streyma ljós og yl
ljóðs um heima alla.
3.
Þjóðar okkar áttu nafn
með yndisþokka fínum,
gylltra lokka listasafn
liðast í flokkum þínum.
4.
Lítið á eg orðaval,
ef eg má þig flytja,
utar frá í Óðar sal
yndi er þá að sitja.
5.
Þjáði þig aldrei ánauð neins
útlends valds í leynum.
Þú hefir haldið ávallt eins
Íslands faldi hreinum.
6.
Ísaspöng af andans hyl
Íslands söngvar þíða,
kalt er öngvum komnum til
kvæða Lönguhlíða.
7.
Þar er angan hátts og hljóms,
hlíðin fang þér breiðir,
en upp að vanga blaðs og blóms
brattar og strangar leiðir.
8.
Eilífð veit um veginn þann,
völt eru skeyti hinna,
enginn leit því enda fann
óðar-sveita þinna.
9.
Flýi njóla nesjum fjærst
að norðurpóli köldum,
þar á sól þín sigurglæst
sumarból á öldum.
10.
Þeki ósa ísa múr,
þá enginn rós hér finnur,
norðurljósa leiftrum úr
listin hrós þér spinnur.
11.
Var ei hrós þitt van né of,
villa ei ljós né skuggar
þann, sem rósum þylur lof,
þegar frjósa gluggar.
12.
Gaf þín ærið ljúfa list
lífsins kærust gæði,
enginn fær þá aftur misst
ef þú slær í bræði.
13.
Þó sumum háum lítist lág
leið þín, ná þeir hvergi,
en standa hjá, er stiklarðu á
stuðla háu bergi.
14.
Á ey og bala öldufalls
áttu sali kunna.
Þú ert dala dís og fjalls,
dóttir alþýðunnar.
15.
Undra heima áttu þá
sem ýmsra gleymast sýnum.
Vel sé þeim sem verði á
vaka yfir seimi þínum.

* *
*

16.
Kom þú sæl og sit þú heil á söngva meiði,
óðar dísin yndisbjarta
sem oft hefir glatt mitt dapra hjarta.
17.
Þó fáirðu ekki flogið hátt sem fjalla ernir,
er fjaðrirnar við sólu svíða,
svífurðu létt um geiminn víða.
18.
Alþýðunnar undrablóm á eyðisöndum
spratt við götu er gengu fætur,
en gróf í Íslands hjartarætur.
19.
Sjaldan bauðst þér beð í mennta blómsturgörðum.
Þó ættirðu lítinn yl frá sólu,
aldrei þínar rætur kólu.
20.
Þó yfir þig træðu lærdóms ljón úr lista heimi
og neyddu þig til að þverra og þegja
þú varst líf sem mátti' ei deyja.
21.
Ætli að muni ei, þótt sértu ættarminni
heldur en listin lærdómsríka,
líf þitt vera guðsbarn líka.
22.
Þó hafirðu stundum hirt og brúkað handarbakið,
ljúf og mild sem lóukvakið
líka hefirðu gleði vakið.
23.
Man ég það að eg var ung er ást ég festi
við þá mildu unaðs óma
er ég heyrði frá þér hljóma.
24.
Sigurður Breiðfjörð sendi þig í svana líki
heim frá Grænlands hafísborgum,
hjartað gleymdi öllum sorgum.
25.
Trúar, vonar, ástaróð þú áttir mildan,
lostinn svipu lífsins blaka,
ljúft var að heyra svaninn kvaka.
26.
Þegar þú mættir mannadóma misþyrmingum
söngstu meira, söngstu betur
sól og vor yfir lífsins vetur.
27.
Aldrei bauðst þér ofraun nein í Óðarsölum.
Þrátt við braginn þrauta flestan
þreyttirðu dansinn listar mestan.
28.
Háttum mörgum hefi ég tínt úr huga mínum
en mansöngvunum mildum, fínum
má ég aldrei gleyma þínum.
29.
Sungu þeir inn í sálu mína sæla friðinn,
blessaður sértu lífs og liðinn
ljúfa fyrir söngvakliðinn.
30.
Stundum, þegar sorgin sjálf þig sendi að knýja
hjartans innstu hörpustrengi,
harmaði' eg með þér sárt og lengi.
31.
Þegar þú söngst um litlu Löpp kom ljós frá Páli,
læknuðust aftur sorgarsárin
og sólin skein í gegnum tárin.
32.
Gamli Hjálmar greipti hróðrar Grettistakið.
Hrökk ég upp við bresti og brakið
er braustu af hverju hreysi þakið.
33.
Ógurlegur andans jötunn öllum var hann,
að vopni ferskeytt bryntröll bar hann,
binda þurfti' ei um ef skar hann.
34.
Enginn haslaði orðavöll þeim óðar Þóri
þegar hans reiði þrumdi gígja,
þótti mönnum ráð að flýja.
35.
Þá eru tveir sem þjóðin man og þakkir innir,
Valdimar og Guðmund góða;
glæst var snilli þeirra ljóða.
36.
Best þeir sóttu brattann á í braghlíð hæstri,
rötuðu vel en rösuðu hvergi
á rímsins hálu stuðlabergi.
37.
Heyra mátti hljóminn þann og hlátra gjalla
uppi' í fjallsins efstu skriðum
og úti' á dýpstu fiskimiðum.
38.
Vitjaði okkar vestanlanda vitri Braginn.
Oft hefi ég allan daginn
unað mér við „Rammaslaginn.“
39.
Þá man ég eftir, Þorsteinn minn, er þú varst ytra,
hvað mitt gladdi hjarta að líta
hróðrar dúfu þína hvíta.
40.
Hún var ekki hrædd að leggja á hafið breiða,
þó hyrfu skógar lágra landa
leið hún fann til Íslands stranda.
41.
Fögnuðu henni fossar, ár og fjöll og dalir,
vöfðu' hana sínum ástar örmum
og yljuðu sólarkossum vörmum.
42.
Eg þann mestan unað fann á ævi minni
er laugaði' eg sálu ljóða-þyrsta
í „Lágnætti“ og „Maí fyrsta“.
43.
Þegar hann sveif til himins heim með hörpu sína
mér fannst sem þú með 'honum dæir
og myndir ekki eftir neinu lagi.
44.
Beisklega gréstu Baldur þinn af böli þungu,
lamaðist vængja lyftikraftur;
læknað hefir þig Bergmann aftur.
45.
Vertu öllum velkominn og vektu gleði,
hreyfðu dýra hörpu strengi,
hljómaðu vel og snjallt og lengi.