Reiðljóð | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Reiðljóð

Fyrsta ljóðlína:1. Mál er að sálm ég syngi
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1975
1.
Mál er að sálm ég syngi
svo skal þá upp með hann.
Heimsfrægð í Húnaþingi
hlaut einn fjallreiðarmann.
Átti sá maður mæti
margan frísklegan klár,
upphófst í óðalssæti
eigandi þúsund fjár.
2.
Fram gengur sagan sanna
sveitarhöfðinginn var
meðal ypprustu manna
metinn sem vera bar.
Ekkert ágæti skorti
allt lýsti góðum hag.
Margur því um hann orti
einkar smekklegan brag.
3.
Þess varla þarf að geta
þó ég minnist á slíkt,
kaus hann og kunni að meta
kvonfangið gott og ríkt.
Börnin með bestu listum
bjuggu nú hér og þar.
Algróin ættarkvistum
átthagabyggðin var.
4.
Sat nú að sínu ríki
seggur við efnin sterk,
gamalla garpa líki,
glöggur á fé og verk.
Óx þar á ýmsar lundir
allt sem gat haginn bætt.
Áleit hann um þær mundir
ei við freistingum hætt.
5.
Að bar á einu hausti
eftir fjallreiðarskol
búandinn heilsuhrausti
hvíldi sinn lúinn bol.
Bráðduglegt bóndamenni
bældi sig nokkra stund.
Varmur um vanga og enni
vaknar hann af þeim blund.
6.
Húsfreyja sat við sauma.
Svo spyr hún eiginmann:
Hafðir þú harða drauma?
Hermdu mér allan sann.
Risinn til fulls á fætur
frúnni hann strauk um kinn.
Ekki var, sagðann, sætur
síðdegisblundur minn.
7.
Ferð á ég fyrir höndum
fresta sem ekki má,
heiðum og heimalöndum
hverf því að sinni frá.
Kalla mig huldar kenndir,
kveð ég mitt höfuðból.
Þó verð ég hvað sem hendir
heimkominn fyrir jól.
8.
Hóf þá inn herðabreiði
hrossreið um fjallastig.
Gránuð Grímstunguheiði
greiddi hans för um sig.
Napur náttéljagari
næddi kempunni mót.
Sviplegur suðurfari
sundreið Norðlingafljót.
9.
Kom hann að Kalmannstungu.
Kaffið standandi saup.
Karlarnir kátir sungu
kvæðið um Sörlahlaup.
Taumana frjálsa fengu
fákar hans uppúr því.
Gusurnar yfir gengu
Geitárvöðlunum í.
10.
Skeifum barði með skundan
skjólfáan Langahrygg.
Flögraði felmtruð undan
fjallrjúpumóðir stygg.
Fluttur af átta fótum
fór hann um Kaldadal.
Hregg á haustveðramótum
hlýjum loftvindum stal.
11.
Bóndinn á Brunnum hafði
bið ekki langa stund,
fljótt hann til ferðar krafði
framsækin karlmannslund.
Ármanns fjallbúafriður
freklega rofinn var.
Kom hann í Kluftir niður
kunnugur öllu þar.
12.
Söng hann við Meyjarsæti
sálminn Fjallreiðahvöt.
Upphóf svo önnur læti
ofan Hofmannaflöt.
Ymjandi kveðinn óður
æstist með sköllin há.
Hlustaði Markús hljóður
hlaðvarpa sínum frá.
13.
Norðan um Þingvöll þeysti
þenkjandi sögurein.
Feðranna frjálsa hreysti
flaug þar í merg og bein.
Söng hann um sagnaslóðir
sígildan hetjubrag.
Hrímhvít hagsældamóðir
hreifst við svo þróttugt lag.
14.
Kvað við í Öxaránni
ómur af týndum seið.
Beinin í gömlu gjánni
glumdu við mannsins reið.
Síst veik frá sínu striki,
sjaldan til baka leit,
æddi með engu hiki
ofaní Mosfellssveit.
15.
Ekki var þörf að eggja
óbilgjarnan á reið.
Hræddir til handa beggja
hrukku menn þar úr leið.
Stórskáld úr sínum Steini
stúrið hornauga gaut.
Trú ég sá gamli greini:
Geyst fara tröll um braut.
16.
Þusti hinn þrekni maður
þaðan um farinn veg.
Brátt fann sá bóndinn glaður
borgstrætin glæsileg.
Lét hann þar léttan troða
lífmikil hross um skeið.
Fyrir vél og voða
vék hann þó síst úr leið.
17.
För sinni frægðarmaður
fram hélt þar enn um stund,
leið sína lagði glaður
loks í eitt húsasund.
Sat þar við seið á hjalli
–sól var gengin til hafs–
kuklvís að kyngispjalli
kvenprestur galdrastafs.
18.
Til sín laðandi ljóðið
leitarforingjann dró.
Honum var dátt við hljóðið,
hugsaði málin þó.
Holdslyst mannsins og hugur
horfið til söngsins var.
Fiðrandi galdraflugur
flögruðu hér og þar.
19.
Maðurinn mikilsháttar
merkjandi fögur ljóð
ratvís til réttrar áttar
reið nú beint á það hljóð,
allt þar til húsdyr einar
upploknar blöstu við.
Vegfarinn víst þar meinar
væru sér búin grið.
20.
Fjallkóngur stillti stríðan
stálskæddan hófagamm.
Lagði þá byrinn blíðan
björgunum undan fram.
Riddarinn ríkiláti
reið þar í húsið inn.
Fór þó með engu fáti
fjálglegur í það sinn.
21.
Hurð sem af huldu taki
hallaðist þar að gátt.
Bóndinn steig af baki
búmannlegur í hátt.
Upp þar af stóli stendur
stórmikið falleg hrund,
breiðir út báðar hendur
bjartleit á heillastund.
22.
Ilmandi anganblíðan
örvaði sálu manns.
Svanna jafn sólskinsfríðan
sá hann ei norðanlands.
Fagnandi farm réð ganga
fjármargur höfðinginn,
háreistur hýr á vanga
hóf þar upp raddstyrk sinn:
23.
Heil sit þú liljan ljósa.
Langsóttan fórum veg
hingað hrosstetrið Mósa
Hvítingur minn og ég.
Nýtti ég nótt með degi,
norðanað flýtti mér.
Erindið veit þó eigi.
Er ég nú komin hér.
24.
Talar tálfagur svanni
til við hinn komna mann:
Velkominn víst að sanni
vertu í þennan rann.
Tak þú af trússahesti,
tygin við leggjum hér,
ykkur skal beininn besti
búinn í sal hjá mér.
25.
Þig hef þráð svo lengi,
þar fékk ég ei við gjört.
Stillti míns hjarta strengi
stjarnan þín furðu björt.
Löngun sú meira og meira
meðtók líkam og geð,
mátti ég engu eira
utan þig fengi séð.
26.
Brátt mun þér bóndi skiljast
brottferðarlöngun þín,
þarflaust er þess að dyljast,
því valda kvæðin mín,
lét ég þeim ekki linna,
lokkur margar ég kvað.
Svo var ég fús að finna
fjallkonung norðanað.
27.
Blómlegur bóndi ríkur
brosandi mælti þá:
Hold mitt og hugur víkur
hvergi þér burtu frá
fyr en á fengitíma,
fagnaðarsæll og hress
hlýt ég þá héðan rýma.
Hér verð ég fram til þess.
28.
Einn vil ég að þér sitja
æ meðan dvel ég hér.
Vilji þín einhver vitja
veit sá hver kominn er.
Minn þegar máttu reyna
manndóm og hetjulund
þar muntu gjörla greina
Gretti og Ingimund.
29.
Borgfirskir búandskussar
byggi þér hvergi nær,
allir þingeyskir þussar
þér mega standa fjær.
Húnvetnska hetjublóðið
hæfir þér miklu best.
Loks hefur fagurt fljóðið
fengið maklegan gest.
30.
Svo mælti fögur frúin:
Förum að okkar lyst,
rekkja þín bíður búin.
Borðum og drekkum fyrst.
Löngun má lögum ráða,
lífsregla best það er.
Stundir til draums og dáða
djarflega skiptast hér.
31.
Forvitinn spyr um fleira,
fær engin svör hjá mér.
Sagan um samvist þeirra
sést ekki rituð hér.
Hljómaði söngur sætur
seiðandi bakvið tjöld.
Ó þessar yndisnætur
ó þessi fögru kvöld.
32.
Þar var allt seinna þessu
þeir sáu norðurfrá
mann einn á Þorláksmessu
mökkríða fjöllin grá.
Hélt sá til byggða bráður,
brautina rakti þar.
Heimvegur hélu stráður
hindrunarlítill var.
33.
Lét hann svo liðugt renna
léttferðug hross og traust.
Þóttust menn þarna kenna
þann sem fór burt í haust.
Höfuð hátt sem áður
heim í sitt ríki bar.
Upp tók svo ókvalráður
alla búsýslu þar.
34.
Eigi gafst öllu kraftur
eins og hér segir frá
svo þeim óskertum aftur
auðnaðist heim að ná.
Veraldar víst á línu
vaka lát fyrirsjón.
Einn hélt þar öllu sínu,
annað beið sálutjón.
35.
Bóndi þó feginn finni
fjarlæga baugaströnd
geyma þarf sér í sinni
sauðfé og heimalönd.
Gleðskap með gætni vandi
gestur þó kátur sé,
hafi sín hross í standi
heimför að megi ske.