Átrúnaður Helga magra | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Átrúnaður Helga magra

Fyrsta ljóðlína:Um Helga inn magra svo hlálega fór,
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1938
1.
Um Helga inn magra svo hlálega fór,
að höfðinginn vitri og prúði
til sjófara’ og harðræða hét á Þór,
á Hvíta-Krist annars hann trúði.
2.
Sú tvöfeldni finnst þér víst fákænskuleg,
alls fjarri slíkt heilindi kalla.
Þó sýnist mér reyndar á sama veg
það sé kannske með okkur alla.
3.
Því hvað eru guðir? Hvort getur þú frætt
hann Ganglera, spurulan næsta,
um hversu allt hófst, þess höfund og ætt
og hvernig sé mynd ins æðsta?
4.
Eg meistarann veit ei, sem manninn skóp.
Af manninum hef’ ég þau kynni,
að guðina alla hann gjörði í hóp
í gervi og líkingu sinni.
5.
Að frumsmíð þeirri var fyrirmynd
hinn fullkomni, hugsaði maður,
en við hann loddi þó vöntun og synd,
því varð guð ei fullkomnaður.
6.
Hjá Norðursins hetjum, þar himinn og sjór
ei harðbýlli orðið gæti,
hinn hrausti, sterki og hugdjarfi Þór
var hafinn í guða sæti.
7.
Við hamfara náttúruaflanna at
hans eigindir voru sá máttur,
sem mönnum í stríði helzt gagnað gat;
því gjörðist sá dýrkunarháttur.
8.
Og var það svo undur, að heldur á hann
þó harðmennið ákallið sendi,
en einrænan hugsuð og meinlæta-mann,
um miskunn og frið sem kenndi.
9.
Með bænum og fórnum að blíðka hvert goð
hinn búkæni leiðtogi hyggur,
svo hvívetna eigi hann örugga stoð.
Þeim öllum hann reynast vill dyggur.
10.
En hreystinnar ímynd var ótalmargs vant
til annars guðs varð því að leita.
En gang þennan allan þú efalaust kannt:
Við almættið kaupskap að beita.
11.
Og Helga magra svo hagsýnt fór,
sér hagstæðust viðskipti kaus hann.
Til harðræða fékk hann því hjálp frá Þór,
en Hvíta-Krist gaf hann þá lausan.