Alþingisrímur – tíunda ríma (Konungs ríma og ráðherra) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 10

Alþingisrímur – tíunda ríma (Konungs ríma og ráðherra)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Enn skal hróður hefjast minn
Bragarháttur:Stafhent – mishringhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Enn skal hróður hefjast minn.
Hilmir góður þetta sinn,
Rínar eldi reifaður,
réð fyrir veldi Danmerkur.
2.
Afar tiginn öðling sá
aldurhniginn mundi þá.
Kóngurinn get eg kynsæli
Christian hét hinn níundi.
3.
Ástsæld hljóta af ýtum vann
enginn skjóta vildi hann;
efldi frið og frelsi jók,
fylkir við er ríki tók.
4.
Beitti forðum brandi sá
buðlung storðum Mistar á,
hjörs í róti harðskeyttum
herjaði móti Þjóðverjum.
5.
Atti að lubbum eggjum þá
„Als“ og „Dybbøls“-hæðum á;
vals á slóðum hristi hrein
hetjan góða Mistiltein.
6.
Var að etja ofjarl við
álmahret frá Dana hlið,
enda fóru ófarir
álma-Þórar tröllefldir.
7.
Bismarck, Fjandans fulltrúi,
fúlum anda blásandi,
Dönum kaldan klaka á
kom þar galdrahundur sá.
8.
Talsverð missti lönd og lýð
lofðung Christian stáls við hríð;
hræddist síðan sjóli mest
sverðahríð og vopnabrest.
9.
Sat í Höfn með hirð í frið, —
há er Dröfn sú borgin við,
sóma hlaðinn heimsfrægur
höfuðstaður Danmerkur.
10.
Tvo ráðgjafa ræði’ eg um,
ræsir hafi í meðráðum;
hrannar ljósi hlaðnir með,
hétu Goos og Sehested.
11.
Ísland lýtur öðling þeim,
öld er býtir rauðum seim —
þar sem aldrei sumarsól
sest við kaldan norðurpól.
12.
Þar eru háir herkóngar —
herma frá þeim rímurnar. —
Hilmis gagns þar geyma þeir
Goos og Magnús prúði tveir.
13.
Svo bar við einn sunnudag,
saddur friði og auðnuhag
yfir borðum öðling sat;
átu korða runnar mat.
14.
Þar var dísætt þrennslags vín,
þar var nýsteikt keldusvín;
baunir ýtar átu og graut,
ákavíti um borðin flaut.
15.
„Brennivínið bragðgóða“,
bjarta, fína og heilnæma
sjálfur dreypti’ í sikling stór,
sem hann keypti af Bensa Þór.
16.
Borð fyrir gylfa gengur snar
Goos með Ylfings brugðið skar,
ekki frýnn var á að sjá,
yggldust brýnnar gráar þá.
17.
Augum hvolfdi ákaft þar,
Ísafold í hendi bar;
brann sem gneisti’ und brúnunum,
blaðið kreisti’ í lúkunum.
18.
Enginn brosti, öðlings þjóð
eins og lostin þrumu stóð.
Mælti hraður hilmir þá:
„Hvað er það, sem gengur á?“
19.
Innti í skyndi aftur hinn:
„Illtíðindi, herra minn;
hreyfa snarir herskildi
herkóngar á Íslandi.
20.
Allt í brandi’ og báli’ er þar,
blóði randir litaðar,
bragna fall og brandshviður;
berst þar allur þingheimur.
21.
Út úr ríkisráði mér
rammir víkja ætla sér
runnar þorna þjóðfrægir,
— þeir eru’ orðnir vitlausir.
22.
Skortir Valtý vopn og lið,
varla er talað þar um frið.
Býsna hnellinn brands við el
Bensi féll, og það fór vel!
23.
Æða slyngar áfram þar
Ísfirðinga kempurnar;
skjóma’ á þingi skerpir sinn
Skaftfellinga jötunninn.
24.
Þetta lygi engin er
eftir því sem stendur hér:
skammagrein, sem — skilst mér von —
skrifaði Einar Hjörleifsson.
25.
Líkur bola biksvartur
blæs að kolum Þjóðólfur;
út þar fossar eiturtjörn,
en Einar krossar sig og Björn“.
26.
„Hvaða fjandi?“ hilmir kvað,
„höndum vandi kemur að,
eyðist ríkið yndi þver,
illa líkar stríðið mér.
27.
Grein mér rétt um hersins heild,
hvað er að frétta’ úr efri deild?“
Goos þá svarar: „Illa er
aftur farið kóngsins her.
28.
Árni dugar ekki hót,
elli bugar Þorkel ljót,
Júlíus gefur jafninga,
Jónas hefur ginklofa.
29.
Bagals hristir Hallgrímur
hirðir Kristí sauðkindur,
pillur hnoðar himneskar
úr hjómi’ og froðu mælskunnar“.
30.
Borðum, hrindir hilmir fram,
hverfur yndi frægum gram;
saman kallar ríkisráð
ræsir snjall og fékk svo tjáð:
31.
„Ellin ljóta amar mér,
annars skjótur byggi eg her;
brands með hviðum blóðugan
bældi eg niður ófrið þann.
32.
Hefði ungan hlegið mig
hjörva þungan troða stig,
hrista nakinn hjör og sax,
en hvað skal taka nú til bragðs?“
33.
„Herra“, sagði Sehested,
„sé eg bragð, er förum með:
Finn einn aldinn eigum vér,
ýmsa galdra’ er temur sér.
34.
Gorms frá tíð er gamla sá,
gengur skíðum hafið á,
um himin þýtur, haf og grund
og heljar-Víti á klukkustund.
35.
Ekki er vandi Finna’ að fá
að fara á gandi’ um höfin blá,
til að æra alþingi
eða hræra’ í þjóðinni.
36.
Sendið Finninn alþing á,
yðar kynni boðskap sá,
að harðir láti af hernaði
hlynir plátu á Íslandi —
37.
á þeim lemja auðvelt sé,
ef þeir semja’ ei vopnahlé —
slíðri’ ei hringa hlynir brand,
„Heimdellingar“ skjóti’ á land“.
38.
Þengli ráðið þóknast réð,
þakkir tjáði Sehested;
gandi renndi rammaukinn
um Ránar lendur Finnurinn.
39.
Allt var þá í uppnámi.
Öllum brá við þingheimi,
þegar renndi’ í Reykjavík
ræsis sending flugu lík.
40.
Vænstan kostinn sinn þeir sjá
að sefa rosta’ og hjörva þrá;
hættu eggja ógnir við
ára tveggja sömdu frið.
41.
Margur friði feginn var
frækinn viður skjóma þar,
enda þótti um endirinn
uggvænt drótt í þetta sinn.
42.
Hétu þó í huga sér
handar snjóa Böðvarner,
að þeir skyldu annað sinn
auka Hildar rifrildin.
43.
Valtýr fór til Hafnar heim,
hlaðinn stórum auð og seim;
hefndir stríðar hugði á
hirðir víðis ljóma þá.
44.
Veislu þáði’ í hilmis höll
hlaðin dáðum kempan snjöll;
korða álfur kónginn fann,
kyssti sjálfan ráðgjafann.
45.
Þungt féll Lauga’ að leggja frá
ljótri flauga’ og eggja þrá;
stála Baldur blóðugar
beit í skjadar rendurnar.
46.
Ýmsir vóru óvígir
eftir stóru kapparnir;
slíðraði digur sísta sinn
sverðið Vigur-klerkurinn.
47.
Jón í Múla mergund bar,
mýldist túli hetjunnar.
Sómakarlinn Sighvatur
svo var fallinn óvígur.
48.
Heima þroka hertogar,
hildi lokið allri var,
enda skil eg efni við. —
Enda vil eg ljóða klið.
49.
Lengur strenginn stirðan minn
slá eg eigi hirði’ um sinn.
Sof þú, dúfan dýr og góð,
döf þín ljúf sé, hýra fljóð.