Alþingisrímur – áttuna ríma (Arnarhólsríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 8

Alþingisrímur – áttuna ríma (Arnarhólsríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Þar sem sólin signir lá
Bragarháttur:Nýhent – víxlhent
Bragarháttur:Nýhent – hringhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Þar sem sólin signir lá
sæl með væna geislastafinn,
blikar hólinn Arnar á
iðjagrænum skrúða vafinn.
2.
Þangað bar af bláum mar
— björt í kring þá svifu regin —
sigurfarar súlurnar,
sem að Ingólfs greiddu veginn.
3.
Þar hefur Saga björt á brá
búið, — því skal nú að hyggja, —
hundadaghilmir þá
hraustur vígi lét þar byggja.
4.
Upp á garði geysihám
ginu hvoftar fallbyssnanna,
mekki varð ei greint í grám
grundin, loft né toppar hranna.
5.
Þegar Danir ætluðu’ á
Íslendinga að skjóta forðum,
eins og hanar hólinn þá
hlupu kringum búnir korðum.
6.
„Batterí“ þeir byggðu hátt,
bráðum skyldi’ ei neinu eira;
skota gný og geira slátt
gríðar-trylldan átti’ að heyra.
7.
Dönum kreppti kuldinn að,
króknuðu flestir þeirra’ um vetur,
virkið eftir þó er það,
þar sem bezta vígið getur.
8.
Margir vildu fegnir fá
fræga og dýra vígið góða;
en — því skyldu engir ná
álma-Týra neinna þjóða.
9.
Þar er yndi út við sjá,
uppi’ er tindrar stjarnan skæra:
fljóðin yndisblíð á brá
bjarta’ í vindi lokka hræra.
10.
Hólnum pískrað oft er und
ástmál dátt í kyrrum leynum;
þar má hvískra hal og sprund
heyra lágt hjá fjörusteinum.
11.
Þingmenn unnu þessum stað,
þar var næði’ að hugsa málin;
þangað runnu þegar að
þyrst var bæði líf og sálin.
12.
Þegar leið á þingtímann,
þóttu undur bera að höndum:
hraðsigld skeið af hafi rann,
hvein og stundi Kári’ í böndum.
13.
Var sem eldur léki’ um lá,
ljóss í glampa allt nam renna,
þegar kveldi þöglu á
þúsund lampar sáust brenna.
14.
Stóð þar drós í stafni fríð,
stafaði ljós af hvarmi björtum,
fegri’ en rós í fjallahlíð,
fekk hún hrós í allra hjörtum.
15.
Gullnir lokkar léku’ um háls,
liljur hvítar barminn skrýddu;
yndisþokki og fegurð frjáls
fljóðið íturvaxið prýddu.
16.
Töfrum alla heilla hún
hölda snjalla mundi kunna,
sem á fjalla blikar brún
og blómin vallar morgunsunna.
17.
Dana hún frá veldi var;
Viðarr hét sá réði fleyi;
svarta brún og svip hann bar,
í sóknum lét hann bugast eigi.
18.
Jötunn var að vexti hann,
voðalega röddin drundi;
sterklega bar hann brynþvarann,
branda þegar hríð á dundi.
19.
Þótti landið frúnni frítt;
fögur skýin rauf þá sólin,
skein að vanda bjart og blítt
á „Batterí“ og Arnarhólinn.
20.
Reisa vildi’ hún háa höll
hólnum á með skrauti glæsta;
af gulli skyldi’ hún glóa öll,
gleðin þá var fengin æzta.
21.
Ísland vildi hún unnið fá,
Arnarhól og vígið sterka;
bezt með mildi og blíðu þá
baugasólin hugðist verka.
22.
Frúin þá á þingið gekk,
þingmenn fann að máli snjalla;
brögðum gráum beitt hún fékk,
bráðum vann hún flesta’ að kalla.
23.
Blóminn Hafnar hýreygur
hugum allra í skyndi sneri;
svo að jafnvel Sighvatur,
sjötugur kallinn, varð að sméri.
24.
Svefnþorn stakk hún seggjum — því
suma æði og gerning tryllti —
hét það „Jac de Hennessy“;
Halldór bæði’ og Þórð hún fyllti.
25 Laugi’ á foldu fleygði sér,
fald á svanna pilsi kyssti;
satt er, holdið óstyrkt er,
ekki hann þó kraftinn missti.
26.
Sór hann fljóði fylgd að ljá
og flein að skaka af mætti öllum,
hitnaði blóð í hetju þá,
heyrðist brak á rómuvöllum.
27.
Fegurð svanna samt ei fékk
sigrað þingmann Reykvíkinga;
með Valtý hann að hildi gekk;
hetjur slyngar engir þvinga.
28.
Allur frúar flokkurinn
fylkti nú við „Batteríið“
— mót réð snúa harður hinn —
heiðri búið liðið tigið.
29.
Ekki á þingi’ eg þar er með,
þar sem falla menn til grundar. —
Hagkveðlinga hátt eg kveð
um hetjur snjallar innan stundar.