Alþingisrímur – sjötta ríma (Bankaríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 6

Alþingisrímur – sjötta ríma (Bankaríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Nú skal búið Frosta far
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Bragarháttur:Ferskeytt – oddhent – hringhent
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Nú skal búið Frosta far
fljúga um leiðir Drafnar;
yfir bláu bárurnar
bregð eg mér til Hafnar.
2.
Þar er auður, gæði, gull,
gleðistundir nógar,
ker af víni fleytifull,
fagrir beykiskógar.
3.
Þá í Danmörk Warburg var,
víkingurinn frægi;
aðsetur hann átti þar
eitt í stærra lagi.
4.
Hafði víða herjað sá,
hlotið linna sýki;
suður fór hann Saxland á,
svam í Garðaríki.
5.
Frakka’ og Breta’ hann barðist við,
brúkaði kænsku slynga;
en mælt er semja mundi ’ann frið
við meykóng Hollendinga.
6.
Lönd hann vann og frægð og fé,
fylgdu jötnar honum;
marga lét hann krjúpa á kné
hjá kynja gullhrúgonum.
7.
Fór hann þá á fund við Pál,
frægan kappa og slunginn, –
hvessti rödd og hóf svo mál
hetjumóði þrunginn:
8.
„Sendiför þér ætluð er,
Íslands skaltu vitja;
komdu þar sem þingið er
og þjóðskörungar sitja.
9.
Kauptu sál og sannfæring,
í sóknum vertu’ ei linur;
fullan silfri sjóvettling
sendi’ eg með þér, vinur.
10.
Landsmenn skortir lagarbál,
lítið hafa að éta;
vesöl mun ei seggja sál
silfrið staðist geta.
11.
Frétt hef eg að Fáfnir þar
feiknaból sér reiði,
fullur illsku og eitrunar,
upp á Bankaheiði.
12.
Gæta fjárins fjögur tröll
föst á einu bandi,
kynjamögnuð eru öll
austan af Bjarmalandi.
13.
Fáfnir gerist gamlaður,
gakk þú hann að finna,
þér mun ekki örðugur
ormur sá að vinna“.
14.
Páll við brá og gekk á gnoð,
gnötraði Rán og drundi;
var að húnum hafin voð,
hrannajórinn stundi.
15.
Fleyið rann um voga’ að Vík,
vendi Páll í staðinn;
kom ei fyrr þar kempa slík,
kynjaauði hlaðinn.
16.
Mikill sá á velli var,
veifaði regnhlífinni;
kápu’ á öxlum báðum bar
brúna’ úr refaskinni.
17.
Sjóvettlinginn seggur skók,
í silfrinu hringla mundi;
af því jóðsótt Einar tók,
Indriði litli stundi.
18.
Fylgdi auðnum fjölkynngi,
fengu sumir æði,
Einar Ben og Indriði
eins og léku’ á þræði.
19.
Þessir fremstir „finans“-menn
fylgdu glaðir Páli;
vörnin þeirra er einstæð enn
í því bankamáli.
20.
Þó var fátt af þingmönnum,
þeim er fylgja vildi;
lækkað var í vettlingnum
væna meira’ en skyldi.
21.
Þá varð Laugi óðr og ær,
öngu vildi sinna;
Páls að barka kreppti klær
kempan orkustinna.
22.
Ekkert Páli ágengt varð,
ill sú för hans þótti;
brotnaði’ í trausta brjóstvörn skarð,
brast í lið hans flótti.
23.
Þetta Warburg fregnað fær,
feiknareiður var hann;
ámur miklar átta’ og tvær
út á skip þá bar hann.
24.
Rínar-bál frá Rússíá
rautt þar mundi glóa;
heldur síðan hafið á
hirðir fingra-snjóa.
25.
Söng í ránum, rumdi grimm
Rán á óðum mari;
löng í trjánum dundi dimm
duna’ á góðu fari.
26.
Þvoði úðinn öldujó,
eimvél rámri knúin
gnoðin prúð um svalan sjó
sveimaði’ og ámum lúin.
27.
Warburg hátt í stafni stóð,
stór og frægðaríkur,
þegar skeiðin öflug óð
inn til Reykjavíkur.
28.
Öllum sá af brögnum bar,
brúna ýfði hnykla;
annan sáu ýtar þar
Alexander mikla.
29.
Dökk var víkings ásýnd öll,
augun snöru glóðu;
allir horfðu’ á heiðið tröll,
hissa’ í fjöru stóðu.
30.
Upp á land hann ámur bar,
áður sem er getið;
sáu bragnar blika þar
bjarta linna fletið.
31.
Hækka brúnin þótti þá
á þingskörungum vorum;
margir vildu Warburg sjá
og vera nær hans sporum.
32.
Matfrið naumast hafði hann
hrotta spennti gráan;
allir sögðu ’hann örlátan,
allir vildu „slá“ hann.
33.
Þeir, sem skuldir þjáðu mest
og þarfir líkams pína,
þóttu nú í bankann best
borga víxla sína.
34.
Mörgum böl og meinin jók
megna bankakvefið;
en Halldór Jónsson hló og tók
hálfu meira’ í nefið.
35.
Laugi og doktor Þórður þá
þungar fengu hviður;
höfuðin næstum alveg á
í ámur steyptust niður.
36.
Óráð fengu ýmsir skjótt,
innanskömm í maga,
fengu ramma riðusótt,
römbuðu’ og tóku’ að að slaga.
37.
Ofsjónir að augum bar:
– urðu sumir trylltir –
hraunin, jöklar, heiðarnar,
hafísjakar gylltir, –
39.
akurlendi, eimvélar,
íslensk fley og vagnar,
bæði radd- og ritsímar, —
ruglaðir vóru bragnar.
40.
Tók að vaxa’ af þingsveit þá
þröngin Warburg kringum;
óför búna sér hann sá
að sækja’ að Íslendingum.
41.
Samt er grímur sagt að tvær
á suma þeirra rynni,
þegar gullsins geisli skær
glampaði’ af ölkrúsinni.
42.
Warburg fyllti fjölda manns,
fór svo burt til Hafnar;
auð ei jók sú herför hans
hingað um vegu Drafnar.
43.
Einars tók að hnigna hag,
hjartað vonrof bíta,
og revisórinn sælan dag
síðan má ei líta.
44.
Fáfnir enn í bæli býr,
brýst um skepnan svarta.
Enginn sækir törgu Týr
til hans gullið bjarta.
45.
Ríman þá er enda á. —
Eikin Bráins túna,
óðar fá nú skaltu skrá
í skyndi frá mér búna.