Alþingisrímur – fjórða ríma (Eldhúsdagsríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 4

Alþingisrímur – fjórða ríma (Eldhúsdagsríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Gígjan knúð skal hljóða há
Bragarháttur:Gagaraljóð – víxlhend
Bragarháttur:Gagaraljóð [ónafngreint afbrigði]
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Gígjan knúð skal hljóða há,
hlusti fljóð, en syngi menn;
Magnús prúða minnast á
munu ljóðin aftur senn.
2.
Fyrir stríðið fjárlaga
flestir stika þingmenn djarft,
af því víða aflaga
ýmsum þykir fara margt.
3.
Heyrast ópin æðihá,
upp í rót er þingið fer;
stjórnar sópa strompinn þá,
strýkur sótið hver af sér.
4.
Heyja frægir hamramman
hjörva slátt með sköllunum
„eldhúsdaginn“ alræmdan;
ekki er fátt á pöllunum.
5.
Skúla nefni’ eg skjóma-Bör,
skarpur gildur fullhugi,
margri stefna eitur-ör
oft hann vildi’ að Magnúsi.
6.
Mikið féll á herðar hár,
hafði skalla’ að framan þó;
þótti á velli þrekinn, knár,
þrautir allar gegnum smó.
7.
Stoð hann þótti lýðs og lands,
löngum bændum fylgdi vel;
brast ei þrótt né þrekið hans,
þótt hann ætti í vændum hel.
8.
Óspar var á eigið fé,
ættlands sjóðum hlífði mest;
krónurnar lét karl í té,
kærleik þjóðar mat hann best.
9.
Erjur strangar átti hann
áður forðum Magnús við;
skjótt þó ganga’ á Skúla vann
skarpa korða hretviðrið.
10.
Þjóðin Skúla fylgdi fast,
fjártjón skæðast beið hann þó;
en á honum túlinn ekki brast,
er af honum klæðin stjórnin dró.
11.
Endurborinn í sér hann
ætlaði Skúla fógeta;
kaupmenn vora hugðist hann
hörðum múl að þrælbinda.
12.
Ása móður á hann kvam,
augun brunnu stór og grá,
byrstur vóð í berserksham,
brandarunnum móti þá.
13.
Magnús slag hann þóttist þá
þurfa’ að reyna’ af nýju við;
varð Fjárlagavöllum á
válegt fleina kafaldið.
14.
Æddu góma eldflaugar,
ýfðust brár á köppunum;
sólir ljóma Sigmundar
sýndust þrjár í höndunum.
15.
Skúli lagði, Skúli hjó,
skjóma braust út élið rammt;
Magnús þagði, Magnús hló,
makalaust hann varðist samt.
16.
Fremst í brjósti fylkingar
fram þar geystist Laugi knár;
sá með þjósti brandinn bar,
bragna treystist við hann fár.
17.
Magnús prúða’ á móti rann,
mælgin stúku’ á vörum óð;
eldi spúði’ og eitri hann,
eins og rjúki að klettum flóð.
18.
Magnús hálfgert hikaði,
hjarta raunir settust að.
„Aldrei kálfar ofeldi
aftur launa“, í hug hann kvað.
19.
Einnig snjall þar atti flein,
út er flóði mælskan rík,
sá er allra mýkir mein
manna og fljóða’ í Keflavík.
20.
Magnús skjaldsvein Flensborg frá
fékk, er gat þó lítt í þraut;
hildi sjaldan háði sá,
heima sat hann mest við „slöjd“.
21.
Marga skeinu Magnús hlaut,
mæki bjartan reiddi þó,
sábeitt einatt örin þaut
að hans svarta hjarna-mó.
22.
Brynjan hörð þó hlífa vann;
henni fylgdi kraftur sá,
eigin gjörða engra hann
ábyrgð skyldi borið fá.
23.
Nokkuð þung í vöfum var,
var þó honum sæmandi,
andlitsþrunginn þá hann bar
þetta konungs gersemi.
24.
Vök hann átti að verjast í,
var þó brynjan skjólið hans;
þóttu hátt við Hildar gný
harðar drynja grundir lands.
25.
Svo var kallað samt, að þar
sigri Magnús fengi náð;
hrukku allar hetjurnar
harða slagnum frá í bráð.
26.
Þrýtur ljóðin, — líti þjóð
línur fáar mínar á.
Flýtis-óðinn ýta fróð
öldin má á kvöldin sjá.