Alþingisrímur – þriðja ríma (Draumríma) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alþingisrímur 3

Alþingisrímur – þriðja ríma (Draumríma)

ALÞINGISRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Hrindi eg Austra fari á flot og fer að kveða
Bragarháttur:Braghent – frárímað
Bragarháttur:Braghenda [ónafngreint afbrigði]
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1902
Flokkur:Rímur

Skýringar

Talið er að Valdimar hafi lagt til efni rímnanna en fengið Guðmund skólaskáld til að yrkja þær.
1.
Hrindi’ eg Austra fari’ á flot og fer að kveða;
Valtýs aftur leita ljóðin,
landsins hlýði gervöll þjóðin.
2.
Sár og þreyttur hélt hann heim í hvílu sína,
ljúfur blundur leið á brána,
lukti hetjuaugað frána.
3.
Sumarnóttin verndarvængi voldug lagði
yfir hann og böli bægði;
blíður draumur harma lægði.
4.
Nellemann hann þóttist þá í þingsal líta
lagðan gulli og ljósum borðum,
líkt og úti’ í Danmörk forðum.
5.
Reis úr sæti ráðgjafinn og réði mæla:
„Þú átt, Valtýr, þetta sæti;
þoka, vinur, hingað fæti.
6.
Baráttu þú barðist góðri’, úr býtum líka,
eins og núna sjálfur sérðu,
sigurlaunin fögur berðu.
7.
Alltaf mín þú fast í fótspor fetað hefur;
maklegastur muntu vera
mína tignarskikkju’ að bera“.
8.
Að svo mæltu af sér reif hann allan skrúðann,
Valtýs brjóst hann hendi hrærði,
hann í tignarklæðin færði.
9.
Krossum mörgum björtum, bæði’ í bak og fyrir,
Valtýr sá sig sjálfan skrýddan;
sætið tók hann, glaður hlýddi’ ’ann.
10.
Valtýr áður yfirfrakka átti brúnan,
af átján meyjum unninn var ’ann,
öðrum langt af flíkum bar ’ann.
11.
Þegar á eimreið Valtýr var í Vesturheimi
Indíánar á hann skutu,
á þeim frakka vopn sín brutu.
12.
Og er grautnum upp á drekann Einar spúði,
eins og fyrr er innt í ljóði,
allt brást nema frakkinn góði.
13.
Mælti Valtýr: „Vel mér þætti’, ef vita’ eg kynni,
hver nú mundi virða vera
verður þennan frakka’ að bera.
14.
Verðari’ hans um veröld alla víða finn eg
engan kærum aldavini,
Einari mínum Hjörleifssyni“.
15.
Þóttist Valtýr húrra-hróp þá heyra’ í salnum,
hátt í rjáfri hvelfdu dundi,
hrökk hann upp af værum blundi.
16.
Þá var eins og andi kaldur um hann liði;
þungur súgur þaut við glugga,
þrusk hann heyrði’ í næturskugga.
17.
Stóð á ofni hundsmynd hátt í herberginu,
hafði gull á hvítu trýni;
hundurinn var úr postulíni.
18.
Þá var hálfbjart. Eitthvað út við ofninn bærðist.
Valtý þangað varð að líta.
Vofu sá hann mjallahvíta.
19.
Valtý brá, hann þóttist þekkja þennan svipinn;
Bensa’ ’inn gamla glöggt hann kenndi,
gegnum brjóst hans óttinn renndi.
20.
Taugar, sinar, brjóskið, beinin, blóðið, æðar
hrollur greip, og hjartað barðist;
hetjan naumast æði varðist.
21.
Vofan hóf upp hendurnar og hátíðlega
hvíldi ró á brúnabaugum,
bjarma sló frá hvössum augum.
22.
„Valtýr“, kvað hún, „kominn er eg kalda vegu
til þín nú mig nauðsyn knúði,
napra dánarsali’ eg flúði.
23.
Fyrst vér sjáum sannleikann, er sárt vér þráum,
þegar losna líkamsböndin,
lyftir sér til himins öndin.
24.
Ljóst er mér nú loksins, hvað þú liðið hefur
fyrir Íslands frelsi og heiður;
fjarri’ er nú að eg sé reiður.
25.
Valtýskan minn versti fjandi var á jörðu;
eg hef fengið æðri þekking;
engin nú mig ginnir blekking.
26.
Upp nú lyfti’ eg höndum hátt og hana blessa;
hún skal ráða lýð og landi,
ljúf og góð sem verndarandi.
27.
Aldrei muntu út af þinni „eimreið“ hrjóta,
þó að hátt í tálknum tóni
Tobbu hjá og séra Jóni.
28.
Fullkomnað er allt — og öllum ófrið lokið.
Vertu sæll, — og svo án tafar
sáttur fer eg út til grafar“.
29.
Hvarf þá vofan; hissa Valtýr horfði’ í bláinn,
bæði af ótta og undrun bundinn;
ekkert sá hann nema hundinn.
30.
Mundar fanna Grundin granna góða’ og rjóða!
un í leyni ljóðin viður. —
Léttur dettur óður niður.